154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

setning auðlindaákvæðis í stjórnarskrá.

[15:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil nú bara þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að draga það fram að fyrir Sjálfstæðisflokkinn er aldrei rétti tíminn til að verja og standa vörð um auðlindir þjóðar. Aldrei. Það er bara aldrei rétti tíminn til að setja fram auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem raunverulega treystir þessar undirstöður. Auðlindaákvæðið sem við ræddum; ég kom með eina breytingartillögu, eitt orð. Það var tímabinding. Það ætlaði allt um koll að keyra. Tímabinding. Allt annað mátti halda sér. Það er verið að standa varðstöðu um sérhagsmuni ef við ætlum að halda áfram með þetta og mér finnst miður að hæstv. forsætisráðherra geti ekki sýnt forystu í þessu máli, kraft í þessu máli sem raunverulega segir: Ég er að hlusta á ykkur, ég heyri það sem þið segið. Ég ætla að beita mér fyrir sátt í samfélaginu og ætla að beita mér fyrir því að auðlindir þjóðarinnar séu raunverulega í hennar eigu. Mér finnst miður að heyra þetta. Þessi erfiða byrjun þessarar ríkisstjórnar verður enn verri. (Forseti hringir.) En Viðreisn mun halda áfram að tala fyrir auðlindaákvæði. Við höfum lagt okkur öll fram varðandi aðrar breytingar á stjórnarskránni, ekki spurning, (Forseti hringir.) en við munum halda áfram að halda ríkisstjórninni við efnið og standa vörð um þjóðareign. Auðlindir í eigu þjóðarinnar.