154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

setning auðlindaákvæðis í stjórnarskrá.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér fer þingmaðurinn dálítið frjálslega með það sem ég var að segja. Ég var spurður að því hvort til stæði að ræða um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég vísaði í þá miklu vinnu sem hefur farið fram í meira en áratug sem endaði með því að hér var lagt fram auðlindaákvæði sem naut stuðnings þeirra flokka sem mynda meiri hluta á þinginu. Þegar spurt er hvort ég hyggist halda áfram vinnu við það stjórnarskrárákvæði leyfi ég mér að efast um að það muni skila sameiginlegri niðurstöðu. Þessu er síðan blandað saman við fiskeldisfrumvarpið sem er hér á þinginu og sagt að vegna þess að við höfum ekki botnað umræðuna um auðlindaákvæði í stjórnarskrá þá hljóti það mál að fara eins og það er lagt fyrir þingið. Ég hef aldrei sagt það. Það má vel ræða hvort það eigi að vera með tímabundin leyfi í fiskeldi á Íslandi. Það er alveg hægt að ræða það. (Gripið fram í.) En það er ekki hægt að halda því fram að það eitt og sér þýði að menn hafi aldrei neinn fyrirsjáanleika, t.d. að eitt, tvö, þrjú ár fram í tímann verði hámark gildistíma slíkra leyfa. Við hljótum að vera sammála um það, hvort sem við ætlum að hafa langtímasamninga eða ótímabundna úthlutun, að þeir sem fjárfesta í greininni (Forseti hringir.) verða að geta tekið ákvarðanir sem horfa til langs tíma. Um það snýst þessi umræða en ekki um þetta aldagamla rifrildi um stjórnarskrárákvæði sem er ólíklegt að við botnum á þessu kjörtímabili, því miður. (Forseti hringir.) En við höfum sýnt ákvæðið sem við erum tilbúin til að styðja og meiri hluti þingsins er með.

(Forseti (OH): Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að virða ræðutímann.)