154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

endurskoðun almannatryggingakerfisins.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú er í gangi breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyris almannatrygginga. Núverandi kerfi er martröð. Ég þekki það af eigin raun. Ég hélt að við værum að búa til nýtt kerfi sem ég gæti horft á bjartsýnum augum og væri til bóta en því miður, það virðist ætla að verða önnur martröð. Það sem mér finnst eiginlega merkilegast í því kerfi er að það á að vekja upp gamlan draug sem ég hélt að við værum alveg örugglega búin að negla niður. Nei, það á að vekja hann upp og hann á að vera mun verri heldur en hann var áður. Og um hvað er ég að tala, hvaða draug? Jú, krónu á móti krónu skerðingu. Hvernig í ósköpunum dettur okkur í hug að búa til nýtt kerfi og hafa svo ömurlega staðreynd að við ætlum að hafa ekki bara krónu á móti krónu heldur meira en krónu á móti krónu? Að ef viðkomandi fái hlutastarf og fái 50.000 kr. fyrir hlutastarfið þá missi hann 95.000 kr., allan virknistyrkinn. Ég hélt að ég væri á rangri leið, ég hélt þetta væri bara rugl í mér þegar ég var að lesa þetta í gærkvöldi en ég fékk þetta staðfest í morgun hjá velferðarnefnd af Öryrkjabandalagi Íslands. Öryrkjabandalag Íslands er að gera 13 athugasemdir við þetta frumvarp og ég spyr mig: Var haft samstarf eða var það bara samtal við hagsmunasamtökin? Síðan er annað í þessu kerfi sem er líka alveg gjörsamlega óskiljanlegt og það er að þeir verst settu sem komast inn í kerfið 18 ára gamlir, það á að lækka aldurstengdu uppbótina úr 60.000 í 30.000. Það á að lækka hana. Það ætti frekar að hækka hana. Ríkið er að spara sér 4 milljarða á þessum breytingum í staðinn fyrir að hækka hana og líka tryggja það að hún sé ekki tekin af þeim þegar þau ná 67 ára aldri og missa þar af leiðandi um 30.000 kr. í mínus.