154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

endurskoðun almannatryggingakerfisins.

[15:21]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina en ég hef nú sjaldan heyrt jafn mörg atriði koma fram í ræðu hv. þingmanns sem standast engan veginn skoðun. Í fyrsta lagi heldur hv. þingmaður því fram að í þessu frumvarpi sé verið að taka upp krónu á móti krónu skerðingu. Það er bara fjarri lagi. Í dag eru skerðingar þannig að einn bótaflokkur skerðist við fyrstu krónu um 65 aura, þ.e. framfærsluuppbótin. Við erum að sameina hana öðrum bótaflokkum og taka upp 100.000 kr. frítekjumark fyrir örorkulífeyrisþega þannig að allar tekjur, alveg sama hvaðan þær koma, munu upp að 100.000 kr. ekki skerða eina einustu krónu af örorkulífeyrisgreiðslum. Ég held að við verðum að halda okkur við staðreyndir en ekki vera með upphrópanir sem fá ekki staðist.

Hvað varðar virknistyrkinn þá er það atriði sem hv. þingmaður nefnir eitthvað sem ég tel reyndar að þurfi að skoða aðeins betur, en það er ekki um krónu á móti krónu skerðingu að ræða. Hins vegar kann að vera að það þurfi að stilla betur af það sem hv. þingmaður nefnir og það er eitthvað sem nefndin mun að sjálfsögðu taka til skoðunar.

Síðan er það aldurstengda uppbótin. Það sem hv. þingmaður nefnir hérna er tekið úr öllu samhengi. Hv. þingmaður bendir réttilega á að í nýju kerfi erum við að draga úr vægi aldursuppbótarinnar en við erum líka að hækka grunninn sem þýðir að viðkomandi einstaklingur lækkar ekki, enda eru öll í kerfinu, 95% af örorkulífeyrisþegum í nýju kerfi, að hækka; 75% um 30.000 kr. eða meira. Það er ekki hægt að maður þurfi að koma hér upp og svara spurningum þar sem eru fullyrðingar sem fá engan veginn staðist en ég mun samt sem áður gera það með glöðu geði.