154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

endurskoðun almannatryggingakerfisins.

[15:24]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ef 18,1 milljarður sem er að koma nýr inn í örorkulífeyriskerfið er ekki hækkun þá veit ég ekki hvað er hækkun. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður nefnir hér dæmi um 803 kr. hækkun. Hann nefnir dæmi um manneskju sem býr ein og fær rúmlega 4.000 kr. hækkun. Það er fyrir fólk sem býr eitt. Það hefur verið rík áhersla frá hópi örorkulífeyrisþega, frá mörgum þingmönnum hér inni að þau sem búa ekki ein eigi að hækka meira heldur en verið hefur á undanförnum árum vegna þess að þau hafa dregist aftur úr. Þegar ráðist er í stórar kerfisbreytingar er það einfaldlega eðli breytinganna að þú getur ekki hækkað öll jafn mikið. Við erum því að gera kerfið réttlátara, gagnsærra og einfaldara. Við erum að búa til ramma sem getur síðan hjálpað okkur í framtíðinni til að halda áfram að bæta kjör örorkulífeyrisþega og það er auðvitað það sem við eigum að horfa á en ekki tína til dæmi um það allra versta sem hv. þingmaður getur fundið í frumvarpinu og gleyma því besta. (Forseti hringir.) Ég minni aftur á það að 95% þeirra sem eru í núverandi kerfi munu hækka í nýju kerfi og yfir 74% um meira en 30.000 kr.