154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

afnám friðlýsingar og virkjunaráform í Vatnsfirði.

[15:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil við þetta tækifæri beina fyrirspurn til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er varðar möguleg virkjunaráform í Vatnsfirði á Vestfjörðum. Það voru fréttir á forsíðu Morgunblaðsins í morgun sem drógu enn einu sinni fram það ófremdarástand sem er á Vestfjörðum vegna raforkuskorts. Tap Orkubús Vestfjarða er metið á um 5 milljónir á dag vegna þeirrar stöðu sem uppi er, sem er þrefalt það sem gerðist árið 2022 og var það þó álitið nægjanlegt til þess að menn töldu það fullkomlega óforsvaranlega stöðu. Það hafa komið inn umsagnir um skýrslu Orkubúsins til ráðuneytisins, það hefur verið upplýst í fjölmiðlum. Ég er bara með eina einfalda spurningu til hæstv. ráðherra: Hver er afstaða ráðherra til þess að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar verði breytt á þann veg að virkjunaráform sem Orkubú Vestfjarða hefur talað fyrir á svæðinu geti orðið að veruleika? Það skiptir gríðarlega miklu máli að þetta liggi fyrir sem fyrst og með hvaða hætti þessi virkjunaráform væru tekin inn í rammaáætlun til skoðunar svo að hægt sé að bera saman við aðra virkjunarkosti.

En spurningin er einföld til hæstv. ráðherra: Hver er afstaða ráðherrans til þess að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar verði breytt á þann veg að virkjunaráform sem Orkubú Vestfjarða hefur talað fyrir á svæðinu geti orðið að veruleika?