154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

afnám friðlýsingar og virkjunaráform í Vatnsfirði.

[15:28]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér og ég þakka honum fyrir spurninguna vegna þess að það er mjög gott og mikilvægt að vekja athygli á orkumálum á Vestfjörðum, vegna þess að þau eru ein birtingarmyndin af stöðunni í orkumálum í landinu. Það er náttúrlega mjög mikið búið að gera núna á undanförnum tveimur, þremur árum. Ég held að hv. þingmaður sé eini stjórnarandstöðuþingmaðurinn sem greiddi atkvæði með rammaáætlun og alveg stórfurðulegt að hlusta núna á Samfylkinguna ganga fram og gagnrýna það að ekki hafi verið gert mikið því að svo sannarlega bera þeir nú ótrúlega ábyrgð þegar kemur að grænorkumálum landsins, búnir að stýra hér næststærsta orkufyrirtækinu þar sem menn sögðu miskunnarlaust að það væri ekki forsvaranlegt eða réttlætanlegt að virkja meira og gerðu ekki neitt þótt við værum með fullt af nýtingarkostum.

En það sem hv. þingmaður spyr hér um í raun er um afléttingu á friðlýsingarskilmálum til þess að þeir megi skoða málið, þannig að við erum ekki komin neitt lengra en það. Sú heimild sem þar er í lögunum, sem verður þá beitt í fyrsta skipti, er þröng. Þetta er eitthvað sem við erum að skoða og ég ætla ekki að tjá mig um hana fyrr en við erum búin að fara yfir það vegna þess að ég held að við séum búin að læra það í þessum málaflokki og öðrum að það skiptir máli að ráðherrar vandi sig þegar þeir taka ákvarðanir því að ef þeir gera það ekki getur það haft afleiðingar í för með sér. En þetta er í skoðun ásamt öllu því sem kemur fram í skýrslu Einars K. Guðfinnssonar um þessi mál sem ég lét gera á sínum tíma. Sumt hefur orðið að veruleika og við getum farið betur yfir það. En það er alvarleg staða á Vestfjörðum eins og verður á landinu (Forseti hringir.) ef við klárum t.d. ekki þau frumvörp sem liggja fyrir þinginu og miða að því að flýta grænni orkuframleiðslu.