154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

afnám friðlýsingar og virkjunaráform í Vatnsfirði.

[15:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og tek undir það sem kom fram í fyrri hlutanum á meðan hann var í almennri umfjöllun en ekki að ræða um fyrirspurn mína. Það var allt saman ágætt og rétt, en í ljósi þess að hæstv. ráðherra vill ekki upplýsa um afstöðu sína gagnvart því að breyta eða aflétta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar til að þessi orkuáform geti orðið að veruleika þá verð ég að spyrja hæstv. ráðherra í síðari fyrirspurn að því hvaða tímalínu hann sér fyrir sér hvað þessa skoðun varðar. Nú liggur fyrir að allar þessar umsagnir vegna skýrslu Orkubús Vestfjarða bárust ráðuneytinu öðru hvorum megin við síðastliðin áramót, ef ég man rétt. Búið er að fjalla umtalsvert um þetta. Hagaðilar eru með í huga áframhaldandi vinnu við rammaáætlun á meðan hún er verkfæri sem notast er við og þá skiptir máli að það sé einhver tímalína og menn geti séð fyrir sér hvenær niðurstöðu er að vænta, þótt hæstv. ráðherra vilji ekki upplýsa um sína eigin afstöðu til málsins eins og það stendur núna. En tímalínan skiptir máli.