154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

afnám friðlýsingar og virkjunaráform í Vatnsfirði.

[15:31]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir spurninguna. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við erum tilbúin með þessi mál að upplýsa þing og þjóð. Ég held hins vegar að það sé líka mikilvægt, alveg sama hvaða ákvörðun er tekin, að hún sé vel undirbyggð. Þess vegna kýs ég að upplýsa hvað þetta mál varðar þegar þar að kemur. Það er minn vilji að það gerist sem fyrst.

Það er ekki þannig, virðulegi forseti, að þetta hafi ekki verið skoðað eða unnið með í ráðuneytinu. Það hefur verið gert en við erum ekki komin á þann tímapunkt að ég geti upplýst hv. þingmann. En ég er mjög ánægður með að hv. þingmaður sé að vekja athygli á þessari alvarlegu stöðu og ég vona að við fáum meiri umræðu um grænorkumál. Aðalatriðið er þó það að við klárum þau mál sem núna liggja fyrir þinginu. Ef við gerum það ekki í vor þá verður erfið staða enn þá erfiðari. Því miður höfum við ekki borið gæfu til að klára þau enn þá en ég vonast til að svo verði og ég vona að ég fái stuðning (Forseti hringir.) hv. þingmanns og Miðflokksins til að klára t.d. vindorkufrumvarpið.