154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

dvalar- og atvinnuleyfi fórnarlamba vinnumansals.

[15:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Sjö vikur eru liðnar frá aðgerðum lögreglu vegna rökstudds gruns um vinnumansal á nokkrum veitingastöðum hér á landi. Þolendur í þessu tiltekna máli eru um 40 talsins. Þau fengu eftir aðgerðina skýr skilaboð um að framtíð þeirra á Íslandi væri tryggð en svo er ekki og á það hefur ASÍ bent. Í tilboði stjórnvalda felst að hluta hópsins, ekki alls hópsins, eru tryggð sömu réttindi og hann hafði fyrir aðgerðina, þ.e. réttinn til fjölskyldusameiningar og óskertan rétt til ótímabundins dvalarleyfis. Þeim sem ekki hefur verið tryggður þessi réttur er sagt að verði þau ekki búin að finna sér nýtt starf fyrir 15. maí næstkomandi fái þau svokallað umþóttunarleyfi. Það er verra leyfi eins og allir vita. Miðstjórn ASÍ hefur ályktað vegna málsins og kallað eftir því að stjórnvöld eyði umsvifalaust allri óvissu um framtíð ætlaðra þolenda í þessu máli og sérstaklega hvað varðar dvalar- og atvinnuleyfi þeirra. Samfylkingin tekur undir með miðstjórn ASÍ. Misbeiting og mansal má ekki líðast á íslenskum vinnumarkaði. Aðflutt launafólk í láglaunastörfum er mun líklegra til að verða fyrir brotum á vinnumarkaði en þau sem eru fædd hér á landi og allt of lengi hafa stjórnvöld sýnt þessu ástandi skeytingarleysi. Vonandi er það að breytast. Ætli það sé hægt að finna berskjaldaðri hóp í samfélaginu en þolendur mansals? Ég efast um það. Við eigum ekki að setja þeim afarkosti heldur að gefa þeim skýr svör og létta af þeim áhyggjum sem eru nægar fyrir.

Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína og tryggi að þolendur mansals, öll þau sem hér eiga í hlut, eigi skýra og örugga leið út úr óþolandi aðstæðum.