154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

dvalar- og atvinnuleyfi fórnarlamba vinnumansals.

[15:35]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og líka fyrir að vekja athygli á málinu sem er í mínum huga afar brýnt. ASÍ hefur staðið fyrir reglulegum upplýsingafundum fyrir þolendur vinnumansalsins sem hér er til umræðu og þar hafa fulltrúar stjórnvalda, bæði dómsmálaráðuneytis sem leyfisveitingarnar heyra undir að mestu leyti, fulltrúar félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar setið suma af þessum fundum til þess einmitt að geta verið fólkinu innan handar með svör. Það sem við höfum lagt ríka áherslu á í mínu ráðuneyti og á Vinnumálastofnun er að finna fólkinu vinnu vegna þess að það er stærsta aðgerðin til að tryggja ekki bara að þau geti verið hér á landi heldur að þau geti verið hér á landi og notið þeirra réttinda, m.a. haldið áfram að vinna sér inn réttindi upp í ótímabundið atvinnuleyfi o.s.frv. Það er bara mjög ánægjulegt að segja frá því að sú vinna gengur mjög vel að finna vinnu fyrir fólkið, að aðstoða fólk við að fá vinnu. Af rúmlega 40 einstaklingum í heildina eru 34 sem hafa verið á tímabundnum atvinnuleyfum og 26 af þeim komin með starf og þrjú með vilyrði um starf. Það eru fimm einstaklingar útistandandi af þeim sem hafa verið á tímabundnum atvinnuleyfum og ég vil nefna það að fjöldi þeirra var 15 þann 9. apríl. Okkur gengur því sem betur fer mjög vel að aðstoða fólkið, því þetta er besta leiðin til þess og við höfum lagt ríka áherslu á að það takist. Varðandi dagsetninguna 15. maí þá mun ég beita mér fyrir því að sú dagsetning verði að sjálfsögðu sveigjanleg (Forseti hringir.) ef til þess kemur að ekki verði öll komin með vinnu fyrir þann tíma.