154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

dvalar- og atvinnuleyfi fórnarlamba vinnumansals.

[15:39]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að nefna kannski tvö eða þrjú atriði sem ég tel að séu mikilvæg núna í framhaldinu. Þetta er auðvitað mjög umfangsmikil aðgerð sem þarna var ráðist í og það veltur mjög mikið á því að hún takist vel upp og að þetta gangi vel líka í framtíðinni því að við höfum vísbendingar um að pottur sé víðar brotinn heldur en í þessu máli. Mig langar sérstaklega að nefna frumvarp sem er núna fyrir þinginu, um breytingar á ýmsum lögum og fjallar um eftirlit m.a. á vinnumarkaði, þar sem ætlunin er að setja á samstarfsnefnd stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem á að koma með stefnu og aðgerðaáætlun í þessum málum. Ég held að eitt af því sem við þurfum að horfa til sé löggjöf á hinum Norðurlöndunum þegar kemur að hegningarlöggjöfinni, sem heyrir undir hæstv. dómsmálaráðherra, að við gætum mögulega skilið meira á milli mansals og vinnumansals þannig að við höfum frekari amboð til þess fyrir dómstólum (Forseti hringir.) að takast á við vinnumansal sem slíkt.