154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

skráð trúfélög o.fl.

903. mál
[15:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Tilurð frumvarpsins má rekja til þess að Ísland er skuldbundið til þess að samræma löggjöf sína að tilmælum alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins Financial Action Task Force, með leyfi forseta, eða FATF. Vegna þeirra skuldbindinga hefur ríkislögreglustjóri frá árinu 2019 gefið út áhættumat, annað hvert ár, um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Komið hefur í ljós að regluverk sem gildir um ákveðin félagaform hér á landi skapar verulega áhættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Annars vegar í gegnum trú- og lífsskoðunarfélög og hins vegar í gegnum sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Í áhættumati ríkislögreglustjóra kemur fram að helstu ógnir og veikleikar í tengslum við trú- og lífsskoðunarfélög séu í umgjörð, löggjöf og eftirliti með skráðum félögum. Lúti þeir veikleikar einkum að ófullnægjandi ákvæðum um hæfi fyrirsvarsmanna þessara trú- og lífsskoðunarfélaga, bókhaldi þeirra og fjárreiðum.

Varðandi helstu ógnir og veikleika í tengslum við sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá kemur fram í áhættumati ríkislögreglustjóra að lögin séu komin til ára sinna og þau þurfi að endurskoða í heild sinni með hliðsjón af því að allt of margir sjóðir og stofnanir skili ekki ársreikningi. Engin viðurlög séu við því að skila ekki ársreikningi og þau úrræði sem mælt sé fyrir um í lögunum séu fá og virðist ekki nýtast sem skyldi. Þá séu engin skilyrði í lögunum um hæfi þeirra sem stjórni slíkum sjóðum og stofnunum.

Stýrihópur dómsmálaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka annast útgáfu aðgerðaáætlunar um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við niðurstöðum áhættumats ríkislögreglustjóra. Þar eru útfærðar aðgerðir sem talið er að grípa þurfi til í því skyni að bregðast við niðurstöðum áhættumatsins og eru breytingar þær sem lagðar eru til í þessu frumvarpi á meðal þeirra aðgerða.

Næsta úttekt alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins Financial Action Task Force, FATF, á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og jafnframt sú fimmta, mun hefjast á árinu 2025. Mikilvægt er að þessar lagabreytingar hafi öðlast gildi og komist til framkvæmda þá, þar sem í úttektinni felst mat á því hvernig brugðist hefur verið við greindri áhættu í áhættumati ríkislögreglustjóra.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, mun ég gera grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Í I. kafla frumvarpsins er að finna breytingar á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Lagt er til að inn í lögin komi ákvæði varðandi færslu bókhalds og gerð ársreiknings en slíkt ákvæði gerir utanumhald fjármuna skráðra trú- og lífskoðunarfélaga skýrara. Einnig er lagt til að skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum beri að skila ársreikningi til sýslumanns en sýslumaður fer í dag með eftirlit með skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum. Jafnframt er lagt til að sýslumaður skuli leggja stjórnvaldssektir á þau félög sem skila ekki ársreikningi innan þess frests sem kveðið er á um í lögunum. Er þetta lagt til svo unnt sé að koma í veg fyrir vanskil á ársreikningum. Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um afslátt af stjórnvaldssektinni ef ársreikningi er skilað innan ákveðins tíma, er sá afsláttur allt upp í 90%. Þá eru lagðar til breytingar sem kveða á um ríkari hæfisskilyrði forstöðumanna trúfélaga og lífsskoðunarfélaga en nú eru í gildi. Þar að auki er lagt til nýtt ákvæði sem kveður á um hæfisskilyrði stjórnarmanna trú- og lífsskoðunarfélaga. Eru þetta m.a. hæfisskilyrði er varða lögræði, búsforræði og búsetu.

Í II. kafla frumvarpsins er að finna breytingar á lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Breytingarnar eru að nokkru leyti sambærilegar þeim breytingum sem lagðar eru til varðandi trú- og lífsskoðunarfélögin. Hér er einnig lagt til að inn í lögin komi ákvæði um bókhald og ársreikninga sem gerir utanumhald fjármuna skýrara. Þá er lagt til að sýslumaður taki við verkefnum ríkisendurskoðanda samkvæmt lögunum. Í dag ber sjóðum og stofnunum sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá að skila ársreikningi til Ríkisendurskoðunar en embættið hefur bent á að það hlutverk að hafa eftirlit með fjárreiðum einkaréttarlegra lögaðila falli ekki að hlutverki ríkisendurskoðanda. Lagt er til að sjóðum og stofnunum beri þess í stað að skila ársreikningi til sýslumanns og að sýslumaður skuli leggja stjórnvaldssektir á sjóði og stofnanir skili þau ekki ársreikningi innan þess frest sem kveðið er á um í lögunum. Um þó nokkurn tíma hefur ríkisendurskoðandi bent á að stórt hlutfall sjóða og stofnana skili ekki ársreikningi samkvæmt gildandi lögum og er ákvæðinu varðandi stjórnvaldssektir ætlað að knýja á um skil ársreikninga. Hér er þó einnig lagður til, líkt og ég greindi frá hér áðan varðandi trú- og lífsskoðunarfélögin, ákveðin afsláttur af stjórnvaldssektinni ef ársreikningi er skilað innan tiltekins tíma og er sá afsláttur allt upp í 90%. Jafnframt er lagt til að sýslumanni verði heimilt að leggja niður sjóði og stofnanir hafi þau ekki skilað ársreikningi til sýslumanns í tvö ár. Þá er lagt til að inn í lögin komi nýtt ákvæði varðandi hæfi þeirra sem standa að sjóðum og stofnunum. Ekkert ákvæði er í núgildandi lögum um hæfi þeirra sem standa að umræddum sjóðum og stofnunum. Eru lögð til hæfisskilyrði sem gilda um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og skipaða fjárvörsluaðila sjóða og stofnana. Eru þetta m.a. hæfisskilyrði er varða lögræði og búsforræði.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umræðu.