154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

námsstyrkir.

934. mál
[16:20]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um námsstyrki. Um er að ræða afmarkaðar breytingar sem snúa að einstaklingum sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi hér á landi þannig að þeir geti átt rétt á námsstyrk samkvæmt lögum um námsstyrki, nr. 79/2003, ef þeir uppfylla skilyrði laganna að öðru leyti. Breytingarnar sem frumvarpið felur í sér eru liður í því að tryggja farsæla móttöku inngildingu þessa hóps í samfélagið en nú þegar hafa sveitarfélög vítt og breitt um landið undirritað samninga við ríkið um svokallaða samræmda móttöku flóttafólks sem felur m.a. í sér stuðning við að ná rótfestu hér á landi og aðstoð til virkrar þátttöku flóttafólks í samfélaginu. Eðli máls samkvæmt hafa því börn og ungmenni sem tilheyra hópi flóttafólks sest að víðs vegar um landið og munu gera það áfram í auknum mæli. Í sumum þessara sveitarfélaga eru staðhættir þannig að fjarlægðir milli lögheimilis, fjölskyldu og skóla eru umtalsverðar. Það er því afar mikilvægt að lögin séu skýr um það að þessi ákveðni hópur eigi einnig rétt á námsstyrk.

Virðulegi forseti. Meginmarkmið frumvarpsins er að nemendur sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fái sama rétt til námsstyrkja og íslenskir ríkisborgarar og erlendir ríkisborgarar sem eiga rétt til slíks styrk samkvæmt samningum við önnur ríki.

Þá eru einnig lagðar til minni háttar orðalagsbreytingar sem endurspegla breytingar sem urðu á lagaumhverfi námslána við setningu laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020.

Staðreyndin er sú að nemendum sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hefur verið synjað um námsstyrk þrátt fyrir að uppfylla önnur skilyrði fyrir styrkveitingu, svo sem varðandi fjarlægð frá lögheimili, fjölskyldu og skóla. Því ætlum við að breyta með þessu frumvarpi verði það að lögum hér á Alþingi.

Markmið laga um námsstyrki er að jafna fjárhagslegan aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum og háskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum eða efnaleysi torveldar þeim nám. Í lögunum felst að nemendur sem ekki eiga rétt til láns eða styrks úr Menntasjóði námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu og búa fjarri fjölskyldum vegna náms geti átt rétt á námsstyrk. Frumvarpið er í samræmi við þessi markmið og styður auk þess við fræðsluskyldu stjórnvalda gagnvart þessum hópi. Frumvarpið styður einnig við það að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar í auknum mæli líkt og rétt barna og ungmenna til menntunar samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Virðulegi forseti. Þetta mál varðar hagsmuni barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra þar sem frumvarpinu er ætlað að auka aðgengi að námsstyrkjum og þar með stuðla að bættu aðgengi að menntun og að aukinni inngildingu.

Hvað varðar fjárhagsleg áhrif frumvarpsins eru þau minni háttar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir að það fjölgi í hópi þeirra sem gætu átt rétt til námsstyrkjum um 20–30 einstaklinga en þó kunna þeir að verða fleiri þegar fram í sækir.

Það er því alveg ljóst að með frumvarpinu felst bætt réttarstaða flóttafólks og jöfnun stöðu þess og annarra útlendinga þegar kemur að námsstyrkjum. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirra sem fylgir með frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.