154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

tekjuskattur.

918. mál
[15:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú ekki sammála því að þessar breytingartillögur taki á tæknilega flækjustiginu. Þær gera það ekki þó að tíminn sé aðeins lengdur. En það eru til einfaldari leiðir. Almennar vaxtabætur eru greiddar út bara beint til einstaklinga. Við gætum gert það líka ef einstaklingur velur það að fá frekar jafnar greiðslur til að létta á greiðslubyrðinni síðari hluta ársins 2024. Getur hv. þingmaður ekki tekið undir það að með því að taka Fjársýsluna út sem millilið til að greiða inn á lánið þá muni það einfalda málið mjög? Niðurstaðan í reikningsdæminu væri nákvæmlega sú sama vegna þess að það skiptir ekki máli hvort það er einstaklingurinn sjálfur sem fær peninginn og borgar lánið eða hvort það er Fjársýslan sem borgar inn á lánið nema bara að ef Fjársýslan á að gera það getur flækjustigið orðið svo mikið að sá sem á rétt á vaxtagreiðslunum verði af þeim.