154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

greiðslur úr jöfnunarsjóði til Reykjavíkurborgar.

[15:27]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í byrjun árs varð ljóst að hæstv. þáverandi innviðaráðherra myndi ekki beita sér fyrir afgreiðslu lagafrumvarps sem fæli í sér löngu tímabæra lagfæringu á greiðslum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Reykjavíkurborgar. Ástæðuna er að rekja til þess að sá hinn sami og nú gegnir starfi hæstv. fjármálaráðherra telur fjárútlát ríkisins í þágu nemenda með íslensku sem annað tungumál í andstöðu við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá árinu 1996. Þetta er í sjálfu sér stórmerkileg afstaða í ljósi þess að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóm þar sem ríkinu hefur verið gert að greiða höfuðborginni 3,3 milljarða vegna vangoldinna framlaga úr jöfnunarsjóðnum, framlaga sem nú stendur til að deila enn frekar um fyrir dómstólum.

Forseti. Upphaflega var ekki ráðgert að Reykjavíkurborg hlyti sömu framlög og önnur sveitarfélög landsins til að fjármagna grunnskóla annars vegar og hins vegar tryggja að börn með annað móðurmál en íslensku hlytu vandaða íslenskukennslu. Þetta var röng ákvörðun. Athugum að Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið í landinu þar sem þessi hópur fær 0 kr. frá jöfnunarsjóði þrátt fyrir að reykvískir skattgreiðendur greiði ríkulega inn í sameiginlega sjóði. Ríkisstjórnin ætlar með þessu að standa í vegi fyrir sáttinni.

Ég vil því spyrja hæstv. mennta- og barnamálaráðherra og þingmann Reykvíkinga hvort til standi að freista þess að ná samkomulagi utan dómstóla um þessa fjármögnun. Er einhverja heildarsýn að finna í Framsóknarflokknum um fjármögnun reykvískra grunnskóla og íslenskukennslu til þessa mikilvæga hóps nemenda sem hafa annað móðurmál en íslensku?