07.03.1923
Neðri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Þar sem hjer er alt útlit fyrir langar umræður, skal jeg ekki á þessu stigi málsins rekja nema nokkur aðalatriði. Fyrst og fremst þá auðvitað það, að hv. fjhn. hefir öll gengið inn á aðalatriði þess, sem fyrir stjórninni vakti, það sem sje, að nauðsyn bæri til þess nú þegar að breyta skattalögunum. Hitt er þýðingarminna í þessu sambandi. Þótt nefndinni komi ekki saman um þessar breytingar í einstökum atriðum. Hefði svo verið, að ekki hefði nauðsyn verið á að lækka tekjuskattinn, hefði getað legið fyrir að koma með breytingar á öðrum sköttum. t. d. útflutningsgjaldinu, eins og talað hefir verið um. En eins og ástæður eru, var nauðsynlegt að koma með breytingar einmitt á tekju- og eignarskattinum. En þar sem nauðsynin á breytingu þessa skatts er í því fólgin, að lækka þarf hann á vissum flokki manna, leiðir af því, að ekki er jafnframt hægt að koma með lækkanir á öðrum sköttum.

Í raun og veru eru brtt. stjórnarinnar ekki til umr. nú. heldur aðeins sá litli útdráttur úr þeim, sem jeg hafði hugsað mjer, að gæti komið til framkvæmda nú þegar á þessu ári, og verður þó undirbúningstími skattanefnda lítill, jafnvel þótt málinu verði hraðað hjer mjög, eins og nauðsyn ber til. Mjer getur að vísu ekki annað en fallið það vel, að hv. nefnd hefir getist svo vel að sumum brtt. stj.frv., að hún hefir tekið þær upp til breytinga við litla frv., til gildistöku þegar á þessu ári, en það er þó naumast rjett, því að það er þýðingarlaust að taka upp í þetta frv. nokkur atriði, sem ekki geta komið til framkvæmda nú þegar. Því framtölin eru þegar komin, og eftir því verður að fara á þessu ári, því tæplega verður farið að safna nýjum framtölum. Í þessu sambandi er t. d. að minnast á niðurfellingu samskattsins, sem í sjálfu sjer er rjett, og tekið upp í frv. stjórnarinnar, en ekki til framkvæmda þegar í stað, því samskatturinn er kominn inn á öll framtöl nú.

Annars skal jeg ekki fjölyrða um þau einstöku atriði, sem á milli ber hjá meiri og minni hluta nefndarinnar. Þó vil jeg víkja stuttlega að því, sem sagt hefir verið um lágmarkstakmörkin fyrir skattinum og um þessar 999 kr., sem sagðar eru skatt frjálsar, og einu krónuna, sem á að kosta 5 kr. Menn geta náttúrlega leikið sjer svona með orðin, ef þeir hafa gaman af því, en rjett er þetta auðvitað engan veginn. Því einhversstaðar verða takmörkin að vera, og þá má altaf segja þetta sama um síðustu krónuna eða eyrinn, sem á takmörkunum liggur, aðeins með þeim mun, að því hærri sem talan er sett, því fleiri verða krónurnar, sem „síðasta krónan“ kostar skattgreiðandann.

Eitt atriði, sem ekki er rjettlátt í núgildandi lögum og ekki hefir verið leiðrjett í brtt. hv. nefndar. verð jeg ennfremur að minnast á. En það er afstaða ekkna og ekkjumanna og sá frádráttur, sem sje hálfur á við gifta, sem þeim er ætlaður.

Einnig vil jeg minnast stuttlega á aukaútsvörin eða frádrátt þeirra. Það er tekið eftir dönskum skattalögum, að draga megi aukaútsvörin frá skattaframtalinu. En þó er þetta alls ekki sambærilegt hjer og í Danmörku. Þar eru sem sje aukaútsvörin einnig lögð á eftir reglum ríkisskattalaganna, en ekki, eins og hjer, eftir efnum og ástæðum, og þess vegna getur maður, sem t. d. ekki kemur í tekjuskatt, vel fengið aukaútsvar. Frádráttur aukaútsvaranna kemur því til með að verka af handahófi, þar sem bæjargjöldin eru ekki lögð á eftir sama mælikvarða og ríkisgjöldin. Auk þess er að sjálfsögðu til þess ætlast, þó ekki sje þess sjerstaklega getið, að aðeins þau aukaútsvör megi draga frá, sem borguð eru, því engin meining va-væri í því að fá lagt á sig svo og svo hátt aukaútsvar aðeins til frádráttar í skatti, en ekki til þess að borga það raunverulega.

Um þá mismunandi skattstiga, sem fram eru komnir, þarf jeg ekki að fjölyrða. Það er eðlilegt, að menn greini þar nokkuð á, og altaf nokkurt álitamál um slík efni.