08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Út af ummælum háttv. þm. Ísaf. (JAJ). er hann sagðist hafa út úr vandræðum orðið samferða meiri hluta nefndarinnar, vildi jeg segja fáein orð. Virtist hann vera óánægður yfir, að breytingar voru eigi gerðar meiri á frv. En því er þar til að svara, að fyrir deildinni liggur annað frv. um skattamálin, miklu víðtækara, og er það til meðferðar í þeirri nefnd sem háttv. þm. er í. Væri honum því innan handar að koma breytingum sínum þar að, svo mörgum sem hann vill, en ekki við þetta litla frv., því það þarf að komast sem fyrst til framkvæmda.

Þá mintist háttv. þm. á breytingar á skattálagningu hlutafjelaga, og ættu þær líka fremur heima í stóra frv., en ekki þessu, sem fyrir liggur. — En viðvíkjandi frádráttarákvæðum fyrir skatti hlutafjelaga. Þá er það álitamál, hvort ekki væri rjett að breyta því þannig, að skattur yrði tekinn af allri hlutafjárupphæð fjelaganna, en ekki af greiddum arði, eins og nú er. Lægi þá máske enn nær að koma með breytingu til hækkunar á fjelagaskatti.

Uppástunga háttv. þm. um, að hlutafjelög sjeu aðeins látin greiða skatt þegar þau leysast upp, er alveg ómöguleg. Hvert hlutafjelag er „juridisk persóna,“ alveg eins og ríkissjóðurinn, og þarf því í sjálfu sjer ekki að líða undir lok. En leysist þau upp, getur orðið valt um sjóðina, sem þau ætla að arfleiða ríkið að, svo að það hafi ekkert.

Þá mintist háttv. þm. Ísaf. (JAJ) á það, að misjafnar ástæður væru í hinum ýmsu hjeruðum. Þetta er að vísu rjett að sumu leyti, en á að geta jafnast með útsvarinu í hinum ýmsu sveitar og bæjarfjelögum. Þá mintist hann og á, að skattanefndir gætu fengið upplýsingar um útsvör. Það er rjett, en hann gætti þess eigi, að þær upplýsingar fást ekki nógu fljótt, svo að gagn verði að. Þá má og taka það fram, að þessi gjöld eru eigi sjálfsagðari en mörg önnur. Sem dæmi mætti nefna, að ef maður þyrfti bæði að borga útsvar og fá sjer læknishjálp, þá myndi hann láta hið fyrnefnda sitja á hakanum, ef hann hefði eigi peninga til hvorstveggja. enda væri það rjett gert af honum.