02.03.1923
Efri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (1874)

3. mál, hjúalög

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg er samdóma hæstv. atvrh. um það, að einatt er heppilegt að setja heildarlög um samstætt efni. En nefndinni þótti engin ástæða til þess hjer, því að hún telur, að hjúalögin eigi að standa að mestu eða öllu óbreytt.

Þá er jeg ekki sammála hæstv. atvrh. (KIJ) um, að ósamræmi sje milli 1. gr. frv. og 2. gr. hjúatilsk. í þeirri grein, sem nefndin ætlast til að verði 5 gr. frv., stendur ákvæði um það, að ákvæðin í frv. felli úr gildi eldri ákvæði, sem koma í bága við þessi lög.

Það er rjett, að dálítið ósamræmi er milli frv. og hjúatilsk. um matarverð. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti því, að þessu sje breytt, og jeg er viss um, að nefndin hefir það ekki heldur. Þó hygg jeg, að tillögur nefndarinnar í þessu efni megi vel til sanns vegar færa. Í hjúalögunum má líta svo á, að hið lægra matarverð vinnukonu, er til skaðabóta kemur, standi í hæfilegu hlutfalli við lægra kaup hennar en vinnumanns. Nefndin taldi annars rjett að láta haldast skaðabótareglu hjúalaganna eins og hún nú er, því að hún mun vera í samræmi við almennar skaðabótareglur.

Þá var hæstv. atvrh. hissa á því, að nefndin skyldi telja 7. gr. frv. óþarfa. En nefndin taldi rjettast að hafa þetta atriði frjálst. Yfirleitt gera húsbændur orðið vel við hjú sín, og erfiðleikar með húsnæði geta gert framkvæmd þessa ákvæðis örðugleikum bundna.

Það er sjálfsagt heppilegt, að hjú væru ein í rúmi, enda mun svo vera viðast, í kauptúnum að minsta kosti. Auðvitað getur hjú líka sett það upp, ef það vill.

Það er annars býsna gömul venja að sofa saman, og þarf varla að minna jafnsögufróðan mann sem hæstv. atvrh. er á Jón Sigmundsson og Þorvald Gissurarson á Þingvöllum. (Atvrh. KIJ: Það voru stórar lokrekkjur, jeg kannast við það). Þetta lagast af sjálfu sjer, og fanst nefndinni ekki ástæða til að blanda sjer í það mál með löggjöfinni.

Þá er ákvæði 9. gr. frv., um vitskert hjú. Það er oft miklum erfiðleikum bundið að annast þau, því geðveikrahælið er langt of litið. En nefndin sá ekki, að það yrði til bóta, ákvæðið um það, að þau yrðu flutt. Í flestum tilfellum yrði rjettara, að húsbóndi vitskerts hjús annaðist það gegn endurborgun kostnaðar, sem venjulega yrði minni, ef hjúið er kyrt. Um það gildir, sem aðra, að húsbóndinn leggur því fæði, en fær annan kostnað endurgreiddan.

Þá er 18. gr. Hæstv. atvrh er ant um, að lögin sjeu sem mannúðlegust í garð hjúanna, og er það æskilegt. En það getur oft verið erfitt að koma því fyrir, og er heppilegast, að samið sje um það sjerstaklega. ( Atvrh. KIJ: Þessir skólar eru kvöldskólar). Ef hjú vill sækja skóla, þá mun það venjulegast geta fengið það með góðu móti, en ekki rjett að gera húsbónda slíkt að skyldu. Væri það gert, yrði að ganga lengra, veita t. d. árshjúum rjett til sumarleyfis, og væri meiri ástæða til þess en við ýmsa aðra vinnu. En nefndin hefir ekki treyst sjer til að gera tillögur um það.

Aðalatriðið er, að nefndin vill skipa sem minst fyrir um viðskifti húsbænda og hjúa, og vill láta slíka samninga gerast sem mest á frjálsum grundvelli, enda hjúastjettin ekki svo undirokuð nú á tímum, jafnerfitt og er að fá fólk.

Hvað snertir 4. gr., þá þótti nefndinni óþarfi og of ófrjálst að hafa ákvæði um slíkt, svo sem þar er gert ráð fyrir. Húsbændur munu naumast banna giftingu vinnukonu, nje að hún fari fyr en samningar stóðu til, ef henni er það nauðsynlegt, enda ilt að halda í hjú sitt óánægt, og mun því varla koma fyrir. Byggi jeg þann dóm á reynslunni.

Um afskifti prests af ófermdum hjúum yfir 16 ára er það að segja, að það ákvæði er líklega úrelt, eins og fleira í tilsk., en gerir eiginlega hvorki til nje frá, og yfirleitt má segja, að menn verði litið varir við tilskipunina í daglega lífinu.

Nefndin tók til athugunar, hvort rjett væri að fella í burtu ákvæðið um húsaga. Nefndin gat naumast gert sjer það ljóst, hvað í þessu ákvæði gæti falist nú á tímum. Líklega þó helst það, að t. a. m. 12–14 ára börn væru lokuð inni á kvöldin í kauptúnum, til þess að vernda þau frá götulífinu og til þess að láta þau gæta heimilishátta. Öllum er vitanlegt, að líkamleg refsing er ekki framar til. Einnig gæti skeð, að foreldrar beiddu húsbændur barnanna um að gæta þeirra með þeim ráðum, sem áður var lýst.

Það er í raun og veru ekki mikill skoðanamunur milli mín og hæstv. atvrh. Aðeins það, að hann vill setja lagaákvæði um það, sem jeg sje ekki að þurfi; álít, að það komi af sjálfu sjer með frjálsum samningi milli húsbænda og hjúa.