22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Svo sem kunnugt er, var í núgildandi tekjuskattslögum gert ráð fyrir því, að þau yrðu endurskoðuð nú á þessu ári, og því er þetta frv. fram komið nú. Ef til vill virðist sumum sem nægilegt hefði verið að leggja aðeins fram lögin sjálf á ný, en rjettara virðist þó, eins og gert hefir verið, að taka tillit til þeirra galla, sem mest hefir orðið vart í framkvæmdinni, og þess vegna er nú farið fram á ýmsar breytingar. Þó hefir það vakað fyrir stjórninni, að fara ekki fram á nema hinar nauðsynlegustu breytingar, og mun jeg gera þeirra grein í einstökum atriðum við 2. umr. Að lokum leyfi jeg mjer að stinga upp á því, að málinu verði, að þessari umræðu lokinni, vísað til fjárhagsnefndar.