22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í C-deild Alþingistíðinda. (2561)

22. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra(MagnJ):

Eins og jeg tók fram áðan, er sumum vörutegundum þannig farið, að hvorug aðferðin er einhlít. Svo er t. d. um vörur þær, er heyra undir 3. flokk. Býst jeg við, að ómögulegt verði að tolla slíkar vörur á viðunandi hátt öðru vísi en þessi leið sje farin, að minsta kosti yrði þá að gera miklu nákvæmari flokkun á vörunum til notkunar við þungatoll. Við slíku er varla að búast, og þess vegna tel jeg verðtollsleiðina miklu rjettmætari og aðgengilegri.