26.02.1923
Efri deild: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í C-deild Alþingistíðinda. (2799)

28. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Jeg skal eigi fara mörgum orðum um frv. þetta, enda get jeg tekið undir með flm. um margt af því, er hann sagði. Það liggur í augum uppi, að rangt er að leggja sama toll á efni sem tilbúnar vörur, af þeim tegundum, sem framleiða má í landinu. En þetta álít jeg að verði best lagað með verðtolli, því hráefnin eru litill hluti af verði vörunnar og kæmi því niður hlutfallslega rjett.

Eins er það stór galli á þjóðarbúskapnum, að nokkuð að ráði skuli vera flutt inn af fiski og kjötafurðum.

Til þess að vörutollslögin frá 1921 næðu þessum tilgangi, yrði að gera miklu meiri greiningu en orðin er. Erlendis eru slíkar skrár heilar bækur. Þó tollurinn sje að formi til þungatollur, þá má með víðtækri greiningu koma því svo fyrir, að þungatollur verki eins vel og verðtollur.

Þetta hefir ekki verið reynt hjer á landi, enda yrði vinnufrekt í framkvæmd, en hugmyndin virðist helst framkvæmanleg með því að setja verðtoll í samband við vörutollinn.