28.02.1923
Neðri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (3340)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Fjármálaráðh. (MagnJ):

Það er mjög skiljanlegt og sjálfsagt, að mál eins og þetta sje áhuga- og áhyggjumál manna. En þegar menn eru að tala um gengið, fara vanalega saman hjá mönnum tvær hliðar, sem í rauninni mega og eiga að vera aðskildar. Það má tala um gengið — hvort sem er lág- eða hágengi — sem merki eða „symptom“ um heilbrigði eða óheilbrigði einhverrar efnalegrar heildar, sem þarf þó ekki að fara saman við ríkis- eða þjóðheildir. En gengi í venjulegri nútímamerkingu, með öllum þess sveiflum, er það, að milliþjóðagjaldeyririnn, sem áður var, gullið, er fallinn niður, en í staðinn komnir óinnleysanlegir seðlar. Auðvitað gat óheilbrigði komið fram áður, en þá var það afleiðing af óstandi, sem ekki kom fram í lágu gengi, heldur í skorti á gulli, sem miðað var við, eða með öðrum orðum í fátækt. Nú kemur þetta ekki fram í skorti á pappírnum, sem notaður er í stað gullsins, því hann er nógur, heldur í litlu gildi pappírsins, eða með öðrum orðum lágu gengi, sem kallað er. Og ráðstafanirnar gegn þessu lága gengi eru og hljóta að vera þær sömu og gagnvart öðru basli og fátækt.

En það var í rauninni ekki þessi hlið málsins, sem hv. flm. (JB) var að hugsa um, heldur beindist ræða hans að hinni „teknisku“ meðferð málsins, því, hvernig sjerstaklega bankarnir hafa með höndum gjaldeyrisverslunina og hvernig þeir hafa þar gætt hagsmuna þjóðarinnar.

En saga þessa máls er í stuttu máli þessi: Í júní í fyrra byrjuðu bankarnir á frjálsum yfirfærslum eftir skráðum verðlista, og byrjuðu allhátt, en þó lægra en áður hafði verið. Þetta gekk vel fram eftir sumrinu og gengið smáhækkaði, þannig, að pundið varð lægst kr. 25,60. Seinni part sumarsins var genginu að mínu áliti þó haldið helst til föstu, og hefði verið betra að hafa það hreyfanlegra. Í haust varð stöðvun á afurðasölunni — fisksölunni — og kom þá lítið inn af erlendum gjaldeyri, en það hafði þær afleiðingar, að eftirspurnin eftir honum óx, og hefði þá, samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn, gengið átt að hækka á þessari erlendu mynt. En það var þó ekki undir eins.

Þetta varð ekki strax, sökum þess, að sterlingspundið var ekki fært nóg niður. Við það varð reglan um framboð og eftirspurn rofin og pundið hærra en ástæða var annars til samkvæmt þeirri reglu. Næst er svo það, að yfirfærslurnar hættu að vera frjálsar. Hver, sem óskaði, gat ekki fengið yfirfærslu, en aðeins einstöku menn. (JB: Hve nær byrjaði það?). Það mun hafa byrjað í nóvembermánuði, en tók svo smám saman að færast í vöxt og verða meira áberandi. Og það er alveg rjett skýrt frá hjá hv. 2. þm. Reykv. (JB), að í algleyming komst þetta ekki fyr en um nýár.

Það lætur að líkindum, þótt ekki komist strax á eðlilegt gengi eftir svona stöðvun, sem mun hafa staðið yfir í rúman mánuð. Þegar svo fer, myndast eins og hnútur á viðskiftalífinu, sem verður að rakna úr smám saman. Það er ef til vill ekki rjett að vera að spá hjer neinu um gengið, því nóg verður annað til að hlaða undir gengisspekúlantana, en jeg fæ þó, að gefnu tilefni, ekki stilt mig um að láta í ljós þá skoðun mína, að þetta lága verðlag á íslensku krónunni muni ekki standa lengi. Það er líka auðsjeð, að þetta hefir lagst í fleiri, því menn hafa sannarlega ekki verið svo ýkjafíknir í að kaupa sterlingspundin fyrir það verð, sem þau fást nú fyrir. Er að mínu áliti hægt að telja það óbrigðulan heilbrigðisvott. Hjer koma auðvitað ekki til greina þeir menn, sem vegna stöðvunarinnar hafa bundið sig til að útvega erlendan gjaldeyri. Þeir ráða ekki sjálfum sjer í þessu efni, en verða að kaupa hann því verði, sem hann kostar í það og það sinn. Þeir geta því að sjálfsögðu ekki talist með, þegar ræða er um það, hverjir fúsir eru til að kaupa erlendan gjaldeyri því verði, sem hann er nú í.

Hv. flm. (JB) virtist vera því mjög kunnugur, hvernig það hafi gengið til, er farið var aftur að selja gjaldeyri með þessu háa verði. Hann fór allmörgum orðum um Íslandsbanka. Jeg verð í því sambandi að taka það fram, að fjármálaráðherra er ekki neinn þáttur í stjórn Íslandsbanka. Það er fulltrúaráð þess banka, sem hv. þm. ætti fremur að snúa sjer til í því efni, og því er svo farið, að bæði þing og þjóð hefir hönd í bagga með því og hvernig það er skipað. Jeg hlýt að halda því fram, að ríkisstjórnin hafi enga heimild til að banna bankanum eða öðrum að selja íslenska krónu gegn því verði, sem honum sýnist. Ef stjórnin vildi fara að ákveða gengið, þá yrði hún um leið að taka á sig ábyrgðina á því tapi, sem kynni að hljótast af þeirri verslun. Er það auðsætt, að ógerningur væri fyrir hana að ákveða það, nema hún um leið hefði á hendi allar framkvæmdirnar. Sem sagt, það eru aðrir, sem standa nær til svara viðvíkjandi Íslandsbanka.

Að því er snertir Landsbankann, þá hefi jeg meiri hönd í bagga með honum. En það verð jeg að taka fram, að jeg álít það ekki geta komið til mála, að annar bankinn dragi sig út úr gjaldeyrisversluninni eða hafi annan „kúrs“, svo að annar bankinn hefði til dæmis selt pundið á 26 kr., en hinn á 28 kr. Það er auðsætt, að slíkt gæti alls ekki gengið.

Jeg get annars tekið undir það með hv. flm. (JB), að lágt gengi hafi skaðlegar afleiðingar, og verður þessa ekki hvað síst vart á lánunum. Þessi þáltill. fer því saman við það, sem verið hefir áhyggjumál mitt, og kann jeg hv. þm. (JB) þökk fyrir, hvað það snertir. Hitt er annað mál, leiðirnar til að kippa þessu í lag. þar hefir hv. flm. (JB) bent á, að koma þurfi þessum lausu skuldum erlendis fyrir sem föstum lánum. Þar sem þetta atriði kemur til umræðu við næsta mál, skal jeg ekki fara neitt út í það nú. Þó vil jeg benda á, að það var í fyrra rætt um þetta sem mál, er bankanum bæri að annast, og ekki gert ráð fyrir neinum fjárframlögum af hálfu stjórnarinnar í þá átt. Eins og mönnum er kunnugt, hefir Íslandsbanki reynt talsvert fyrir sjer í þessu efni, og hefir það að vísu ekki borið mikinn, en þó nokkurn árangur. Býst jeg við, að þeim tilraunum hans, að koma fyrir þessum lausu skuldum, verði haldið áfram eftir mætti.