22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

21. mál, ríkisskuldabréf

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) taldi ýms tormerki á, ef þetta frv. yrði að lögum, og voru þau sitt úr hverri áttinni. Taldi hann frv. að sumu leyti þarflaust og að öðru leyti hættulegt fyrir fjármálastjórn landsins. Þetta er ekki rjett; þó að lánstími ríkisskuldabrjefanna sje ákveðinn 25 ár, þá koma fram afborganir af þeim smátt og smátt. Þar sem um smálán innanlands er að ræða, eru þau oftast nokkurn veginn álíka stór árlega, og má því skoða endurgreiðslur þeirra sem afborganir af skuldabrjefunum í heild sinni. Þegar um stærri lán er að ræða, væri auðvitað hægt að koma því svo fyrir að greiða það á t. d. 2–3 árum, þannig að afborganir verði jafnar.

Hitt atriðið, að þetta geti leitt til ógætilegrar Fjármálastjórnar framvegis, sje jeg ekki að sje á rökum bygt. Jeg verð að segja, að ef fjármálastjórnin er gætin aðeins af því, að hún er bundin af samninginn og takmörkunum, þá er ekkert í gætni hennar varið. Hún getur þó tekið ný lán til innlausnar skuldabrjefunum.

Jeg skal viðurkenna, að það mætti hafa hjer afborgunarsjóði, eins og gert er í sumum löndun; en hjer er um svo lítið að ræða, að jeg álít það varla þess vert. Auk þess ætti það ekki við í þessu efni, því ef fje virkilega er fyrir hendi, gengur það þegar í stað til þess að verjast skuldum, þ. e. lán er þá auðvitað ekki tekið.

Að því er snertir vaxtakjörin á lánunum, sem frv. ákveður, þá mun það rjett athugað, að þau sjeu máske fullbindandi. En ef ástæður breytast þannig á næstu árum, að fje fæst með 4%, þá er að taka því og laga þessi ákvæði.

Það er algengt, að stjórninni sjeu sett takmörk og skilyrði, hliðstæð þeim, sem eru í þessu frv., svo sem í vegalögum, símalögum o. s. frv. Að vísu mætti fela stjórninni að ákveða vaxtakjörin, en það hefir þótt tryggara að kveða á um þau í lögunum, svo að ekki þurfi að breyta þeim oft. t. d. í hvert sinn og stjórnarskifti fara fram.