19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

24. mál, fjáraukalög 1922

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Jeg þarf ekki langt mál til að svara háttv. frsm. (MP). Verður þetta með fjáraukalögin að teljast aðeins fyrirkomulagsatriði og um enga nýja stefnu að ræða, þótt fjáraukalög væru ekki lögð fyrir þingið nema fyrir árin 1920–1922. Svo var mál með vexti, að ekkert verulegt efni lá fyrir til fjáraukalaga fyrir árið 1923. Mintist jeg á það við fjárveitinganefnd, að ef aðeins um smávægileg atriði yrði að ræða til aukagreiðslu á yfirstandandi ári, þá væri eins heppilegt að haga þeim veitingum þannig, að þær væru teknar upp í fjárlögin fyrir 1924. En eins og jeg tók fram, er þetta aðeins fyrirkomulagsatriði, auk þess, sem jeg býst við, að stjórnin taki vel í það að leggja frv. til aukafjárlaga fyrir þingið, ef sjest fram á það, að efni verður fyrir hendi. Að fjáraukalög komu ekki í fyrra, hygg jeg ekki tímabært að fara út í hjer, enda hefir fjárveitinganefnd yfirleitt tekið vægt á hin um einstöku atriðum. Þar er raunar ýmislegt, sem snertir dóms- og atvinnumálaráðuneytið, en ekkert, sem sjerstaklega kemur mjer við.