20.02.1923
Neðri deild: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

1. mál, fjárlög 1924

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Frumvarp það til fjárlaga fyrir árið 1924, sem háttv. deild nú tekur til meðferðar, er að mörgu leyti svipað fjárl. þeim, er þingið síðast gekk frá, fjárlögunum fyrir yfirstandandi ár. Er það mjög eðlilegt, þar sem bygt er á hinum sömu tekju- og gjaldalögum. Fjárhagsleg afkoma lands og landsmanna hefir að vísu nokkuð lagfærst frá því, sem var fyrir ári síðan, en þetta kemur ekki fram í tölunum, því jafnframt hefir peningagildið lagast, þó seigt hafi gengið, þannig, að þær krónur, sem við reiknum með nú, eru meira virði en þær, sem við reiknuðum með fyrir ári síðan.

Tekjurnar eru í frumvarpinu áætlaðar 7630000 kr., en gjöldin 7593000 kr., svo það er gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum eða vel það. Eins og á sjer stað um flestar áætlanir, er hjer vitanlega að mörgu leyti um spádóma að ræða, og það því fremur, sem fjárlögin eru samin óheppilega löngum tíma á undan því, að þau koma til framkvæmda, og sökum þingtímans er við samningu frumvarpsins ekki einu sinni hægt að hafa yfirlit yfir afkomu síðasta árs til hliðsjónar, því það yfirlit getur ekki legið fyrir fyr en í janúarlok, en frumvarpið má tæpast fullgera síðar en í nóvembermánuði næst á undan. Yfirlit það, sem nú er fengið yfir tekjur og gjöld árið 1922, haggar þó í engu verulegu við áætlun frumvarpsins.

Tekjumegin getur það verið álitamál að breyta eitthvað einstöku liðum í 2. gr., en yfirleitt bendir afkoma ársins 1922 til þess, að tekjuupphæðin áætlaða haldi lagi eða vel það, enda eru áætlaðar tekjur samkvæmt 3. og 4. gr., sem helst má búast við, að bregðist verulega í ár, áætlaðar miklu lægri en í síðustu fjárlögum. Jeg á við tekjur af skipum og bönkum. Um gjaldaliðina vil jeg síður fullyrða. Ekki svo að skilja, að jeg efist um áætlunina fyrir 1924, borna saman við 1923, en reynslan á eftir að sýna, hvernig gengur að framkvæma svo stórfelda lækkun, sem núgildandi fjárlög gera ráð fyrir. Það hefst áreiðanlega ekki nema með daglegri yfirlegu og ítrustu sjálfsafneitun frá bæði dóms-, kenslu- og atvinnumálaráðuneytum. Frumvarp það, sem hjer liggur fyrir, er að því leyti ábyggilegra en fjárlögin fyrir árið 1923. gjaldamegin, að hjer er tillit tekið til gengismunar á lángreiðsluni og öðrum greiðslum í erlendum gjaldeyri. Það nemur á 3. hundrað þúsund króna. Bæði jeg og aðrir mintust á þennan gjaldalið við meðferð fjárlaganna í fyrra. Hann var því miður jafnóumflýjanlegur, hvort sem hann stóð í fjárlögunum eða ekki, og því um það leyti ekkert aðalatriði að fá hann tölulega fram í fjárhagsáætluninni. En gengistap hefði þá varla verið hægt að áætla minna en hátt á 4. hundrað þúsund krónur, og hallinn á núgildandi fjárlögum yrði þá áætlaður um 1 1/2 miljón kr.

Í þessu sambandi skal jeg minnast á dálitla nýbreytni, sem menn sjálfsagt hafa tekið eftir í þessu frumvarpi, nefnilega að skuldalistinn er fluttur aftur í athugasemdirnar, en lánin í 7. gr. bara flokkuð í erlend og innlend lán. Um ástæður fyrir þessu vísa jeg til þess, sem tekið er fram í athugasemdunum við frumvarpið. Jeg hygg það handhægra og ljósara að flokka lánin þannig, og óþarfi að vera að síprenta skuldalistann upp frá einni umræðu til annarar. Skuldirnar verða því miður samar við sig, hvort sem gert er.

Svo sem kunnugt er, lágu ekki fjáraukalög fyrir þinginu í fyrra. Nú liggja fyrir fjáraukalög fyrir 3 ár. 1920, 1921 og 1922. Mjer þykir það nóg, þó ekki sje bætt við því fjórða, 1923, enda liggja ekki sem stendur ástæður fyrir í þá átt; ef slíkt kynni að koma í ljós meðan þing stendur, sem jeg vona að ekki verði miklar upphæðir, er ef til vill hægt að telja þær í fjáraukalögunum 1922, eða þá í fjárlögunum 1924, og má þá, ef nauðsyn krefur, greiða slík gjöld á yfirstandandi ári, gegn væntanlegri endurgreiðslu, þegar fjárlög 1924 eru gengin í gildi. Hjer er aðeins að ræða um fyrirkomulagsatriði í þetta sinn, en ekki um að taka þá stefnu upp að hafa aldrei fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár.

Þá sný jeg mjer að fjárhagsástandi ríkisins eins og það er nú, og skal jeg þá fyrst leyfa mjer að gefa eftirfarandi bráðabirgðaskýrslu um tekjur og gjöld 1922. Yfirlitið er gert á vanalegan hátt, meðal annars bygt á símskeytum frá gjaldheimtumönnum. Það geta enn bæst við upphæðir, sem snerta 1922, en varla svo stórum muni og ekki meira en gerst hefir með samskonar yfirlit.

Tekjur (áætlun sett í svigum): Fasteignaskattur (210000) 213300: tekju- og eignarskattur (700000) 1516500: aukatekjur (150000) 324200; erfðafjárskattur (20000) 36400; vitagjald (140000) 180000; leyfisbrjefagjald (10000) 14600: útflutningsgjald (600000) 793400: áfengistollur (250000) 367100; tóbakstollur (600000) 305700; kaffi- og sykurtollur (800000) 878400; vörutollur (1200000) 1315900; annað aðflutningsgjald (60000) 118900.- gjald af konfekt- og brjóstsykurgerð (10000) 26000; stimpilgjald (500000) 353600; lestagjald (40000) 34600; pósttekjur (300000) 392100: símatekjur (1000000) 1102000. — Samtals (6590000) 7972900.

Tekjur af fasteignum (40050) 45000; tekjur af bönkum (250000) (70258); tekjur af ræktunarsjóði (20000) 24289; vextir af bankavaxtabrjefum (41000) 36085: útdregin bankavaxtabrjef (15000) 45800; arður af hlutafje í Eimskipafjelagi Íslands (6000) 0000; vextir (5000) 10000; tóbakseinkasala og greiðsla frá Landsversluninni (390000) 755000: óvissar tekjur m. fl. (22400) 139400; hagsmunatrygging Sterlings 350000; ýmsar innborganir 723- 000. — Áætlaðar tekjur alls 7379450, en næðu 10171732.

Gjöld (áætlun sett í svigum): Greiðslur af lánum ríkissjóðs (1529400) 1760000; til konungs (60000) 60000; alþingiskostnaður (276000) 204800; gjöld samkvæmt 10. gr. fjárlaganna (305400) 334400; gjöld samkvæmt 11. gr. fjárlaganna (734400) 830400; til læknaskipunar og heilbrigðismála (826000) 774900; póstmál (480600) 458600; vegabætur (437900) 436600; strandferðir m. fl. (300000) 252800; sími (1018600) 1054400; vitamál (267600) 239300; andlega stjettin (402500) 437100; kenslumál (1270200) 1163800; vísindi, bókmentir og listir (281000) 252600; verkleg fyrirtæki (745800) 623600; skyndilán og lögboðnar fyrirframgreiðslur (4000) 36600; eftirlaun og styrktarfje (230400) 201400; óviss útgjöld (100000) 188300. — Áætluð gjöld samtals 9369800, en urðu 9309600; gjöld samkvæmt lögum. fjáraukalögum o. s. frv. 686100. eða alls kr. 9997700.

Auk þess, sem hjer er talið, hefir aðallega í 24. gr. verið borguð rúm 1 miljón kr. til ýmsra framlaga samkvæmt lögum, einkanlega hluta, sem innlenda lánið sæla. 3 miljóna, átti að fara til, eins og jeg strax skal minnast á,

Í byrjun síðasta þings fór fyrirrennari minn með rjettu ýmsum óloflegum orðum um fjárlögin fyrir árið 1922, taldi útlitið mjög ískyggilegt og bjóst við að minsta kosti einnar miljónar halla á árinu, fyrir utan allan óvissan en væntanlegan tekjumissi og gjaldauka. Sjerstaklega var ekkert gert fyrir fyrirsjáanlegu gengistapi. Miðað við þáverandi ástand, held jeg, að þessi lýsing hafi í öllu verulegu verið nærri rjettu, en eins og yfirlitið ber með sjer, hefir betur ræst úr þessu en áhorfðist. Við höfum komist klaklítið yfir árið; ef afborgun á lánum er talin frá eiginlegum gjöldum, eins og vant er að gera, þó ekki sje allskostar rjett, þá er um verulegan tekjuafgang að ræða. Auk þess, sem talið er í yfirlitinu, hefir allstórum upphæðum verið varið til framkvæmda, sem innlenda láninu, 3 miljóna, átti að verja til, en það er löngu uppetið, sem kunnugt er. Síðastliðið ár hefir því orðið bæði að renta það og afborga, og auk þess að leggja fram fje til þess, sem lánið átti að fara í. Bæði sökum þessa og sökum tekjueftirstöðva, einkum af tekjuskatti, voru töluverðar skuldir í viðskiftaliðum ríkissjóðs um áramótin. Þær verður hægt að greiða, en það er ógerningur að halda því áfram af árlegum tekjum að verja fje til framkvæmda, sem áttu að gerast fyrir löngu brúkað lánsfje. Þó ekki væri annað, þá er það reikningslega alveg skakt. Annaðhvort verður að veita nýtt lán til framkvæmda samkvæmt brúalögum. vitalögum, ef þau koma, áveitulögum símalögum o. s. frv. eða þá að gera fyrir þessum gjöldum í árlegum fjárlögum.

Viðvíkjandi hinum einstöku liðum á reikningsyfirlitinu fyrir 1922 skal jeg taka það fram, að af tekjuliðunum í 2. gr. eru það aðeins tveir, sem hafa brugðist verulega, og er hvorugt eiginlega sorgarefni. Það var nefnilega tóbakstollurinn, sem ekki nemur nema 305700 kr., móts við tæp 400000 kr. 1921, og áætlaður 600000 kr. Ríkissjóður hefir þarna orðið af tekjum, en þesskonar tekjumissi má hann vel við una, því landið í heild hefir þarna auðsjáanlega losnað við stóra útborgun til útlanda fyrir tóbak. Stimpilgjaldið nýja hefir líka alveg brugðist: af því höfðust ekki nema 353600 kr., móts við áætlaða 1/2 miljón. Líklega er hjer aðeins um skakka áætlun að ræða, en ef nokkurt breytt ástand liggur til grundvallar fyrir þessu, þá er það minna „brask“, og er þá bættur skaðinn.

Hinir aðrir tekjuliðir í 2. gr. hafa að meira og minna leyti farið fram úr áætlun og fram yfir tekjurnar 1921, vel flestir, að svo miklu leyti, sem þeir eru sambærilegir sökum breyttra lagaákvæða. Tekjuskatturinn er langt fram úr áætlun, en þar er sá ljóður á, að eftirstöðvarnar eru miklar. Einna gleðilegasti tekjuliðurinn er útflutningsgjaldið. ekki svo að skilja, að þeir peningar sjeu betri en aðrir, þvert á móti, en upphæðin, 793400 kr., borin saman við ca. 600000 kr. 1921, þegar frá er dreginn endurgreiddur síldartollur í ár, en sem rjettilega á heima á 1921, bendir á, að útfluttar vörur okkar síðastliðið ár hafi numið að minsta kosti 10 milj. meira en 1921. Sama máli er að gegna um kaffi- og sykurtollinn, sem hefir farið verulega fram úr bæði næsta ári á undan og áætlun. Hann er góður mælikvarði á afkomu almennings og bendir til þess, að hún hafi, þrátt fyrir alla örðugleika, verið töluvert skárri síðastliðið ár en undanfarandi.

Tekjur af bönkum í 4. gr. eru einar 70000 kr., þar af ágóðahluti af Landsbankanum ca. 34000 kr., hitt seðlagjald, og er þetta langt fyrir neðan 175000 kr., svo tekjurnar voru 1921, og 250000 kr., sem áætlað var. Þetta er að vísu sorglegt, en ekki sorglegt nú, því hjer er verið að afplána gamlar syndir, töpin 1919 og 1920, auk þess sem Landsbankinn hefir afskrifað tap sitt á enska lánin. Þessi töp voru vágestir miklir á sínum tíma og aðalundirrót okkar meina, en það eitt út af fyrir sig, að þau sjeu gerð upp og þá tekin eins og þau eru, er skref í áttina til heilbrigðara ástands, og því fremur gleði- en sorgarefni.

Gjaldamegin hafði, eins og jeg gat um. í 7. gr., ekki verið gert neitt fyrir gengismun, enda fer sú grein rúm 200 þús. kr. fram úr áætlun. Annars er í flestum gjaldagreinum minna greitt en áætlað. Það er aðallega í 11. gr., sem umframgreiðsla er, nefnilega til aukinnar landhelgisgæslu 70000 kr. og til gjalda samkvæmt 77. og 78. gr. fátækralaganna 127000 kr.

9. gr., alþingiskostnaður, er rúmlega 71000 kr. undir áætlun. Það getur stjórnin ekki talið sjer til heiðurs; hann á þingið í fyrra óskiftan. Að öðru leyti má nefna 12. gr., sem er rúmum 50 þús. kr. undir áætlun, 13. gr. ca. 75000 kr. Þar eru símagjöldin þó ca. 35000 kr. yfir áætlun. 14. gr. og 16. gr. með 72000 kr. og 122000 kr. undir áætlun.

Í stuttu máli er þá afkoma landssjóðs þetta ár sú, að okkur hefir tekist að halda við, eða vel það, okkur hefir tekist að stansa á þeirri óðflugaferð niður í glötun fjárhagslegs ósjálfstæðis, og við höfum fengið svigrúm til þess að snúa við og reyna að halda upp á við aftur, enda verðum við að klífa til þess þrítugan hamarinn að komast upp aftur og út á víðan völl, þar sem hægt verði að taka til við nauðsynlegustu og vandgeymdustu framkvæmdir. — Þessari stefnu verðum við að halda, og hún er afmörkuð fyrir yfirstandandi ár og fyrir hið næsta með frv. því, er nú liggur fyrir. Hlutverk þingsins í þessu efni er tiltölulega auðvelt; það tekur að minsta kosti enda; það er aðallega að láta ekki fá sig út úr stefnunni. Í framkvæmdinni hvílir þetta mest á fjármálaráðherra. Hann verður, hver sem hann er og hverjum flokki sem hann fylgir, daglega að hafa þessa stefnu fyrir augum; hann verður að spara bæði krónuna og eyrinn, og þó stöðugt að gera greinarmun á því, sem verulegt er og ekki, því, sem til hagsmuna horfir, og því, sem má bíða. Og hann má umfram alt ekki fara að hugsa um að vinna sjer til frægðar, með því að fara að leggja fje í einhver, kannske í sjálfu sjer glæsileg og góð fyrirtæki, ef þau eru ekki samrýmanleg rjettri stefnu í fjárhagsmálinu. Hann verður frá fyrsta degi að gera sjer það ljóst, að hann aflar sjer ekki vinsælda með starfi sínu; hann verður að ganga að því með opin augun, að hann, ef hann gætir skyldu sinnar, vinnur sjer hvorki til frægðar nje langlífis, svo jeg víki dálítið við orðum Magnúsar konungs. Hann verður að eiga þá rjettu þjónslund, þjónslundina gagnvart rjettu málefni, og hann má engum öðrum herrum þjóna. Enginn skilji orð mín svo, að jeg sje að kvarta fyrir mitt leyti yfir aðbúðinni; þvert á móti mega menn hjer eiga það, að þeir láta vel að stjórn, þegar þeir sjá, hvað fara gerir. Mjer hefir veitt auðvelt að koma mönnum í skilning um, hvert stefndi, og það var oft auðveldast með þá, sem bágast voru staddir. Einstöku menn, sem fullhagvanir voru á þessum slóðum, býst jeg við, að hafi huggað sig við það, að „all skammæ mun skúr sjá“, en það er einmitt það, sem hún má ekki verða. Ef við höldum ekki stefnunni, með allri skynsemd náttúrlega, þangað til við erum komnir úr kútnum, ef nú eða næsta ár er tekið til aftur að rupla landssjóð, þá er unnið fyrir gýg og ver farið en heima setið. Það má skifta um stjórnir og það má skifta um þing, en stefnunni verður að halda; annars snýst það, sem rjett hefir verið gert, upp í misrjetti, og það á það ekki skilið.

Þegar maður athugar „status“ landssjóðs, yfirlit yfir eignir og skuldir, eins og hann er í landsreikningnum fyrir 1921, í lok þess árs, sjest það fljótt, að „tjáir ei við hreptan hag að búa“. Skuldirnar eru þá 16385000 kr. Þar eru líka taldar ýmsar eignir, þannig að umfram skuldir eigi ríkið 13718000 kr. Jeg skal ekki rengja þá skýrslu, en maður sjer á augnabliki, að þar eru taldar margar eignir, sem ekki eru sambærilegar skuldunum, sem aldrei verður hægt að verja til þess að borga skuldir með. Vitarnir eru taldir alt að 1 miljón kr. virði, en við hvorki getum nje viljum selja þá til þess að borga upp í skuldir. Símakerfin eru talin upp undir 3 miljónir, en við hvorki getum nje viljum selja þau fyrir það, og þau renta heldur ekki þessa upphæð. Alveg sama er að gegna um eignir til almennrar og nauðsynlegrar notkunar, skólahús, spítala og hæli, kirkjur og prestssetur og, að mínu áliti, einnig um þjóðjarðirnar. Í eignum, sem hugsanlegt er og forsvaranlegt að telja upp í greiðslu á skuldum, eigum við í hæsta lagi 6 milj., og eru þá eftir 10 milj. rúmar af skuldunum, sem við að vísu meira en eigum fyrir, en sem við ekki eigum arðberandi eignir fyrir, er geti rentað og afborgað skuldirnar. Þessar 10 miljónir verður því að borga af tekjum komandi ára; ef þeim eru ætluð 20 ár, þá 1/2 miljón á ári. Jeg er ekki að gera ráð fyrir, að engin ný lán verði tekin á þessu tímabili, en jeg geri ráð fyrir, að það verði aðeins tekin skynsamleg lán til arðsamra fyrirtækja, sem þá sjálf borga lánin, eða nauðsynlegra fyrirtækja, og sje þá strax gert fyrir tekjum til rentu og afborgana. En slík lán koma ekkert þessu máli við. Þær 10 miljónir, sem jeg mintist á, eru tapaðir peningar og verða að borgast af árlegum tekjum. Það var það, sem jeg átti við áðan, að ekki væri allskostar rjett að telja allar lánaafborganir frá tekjuhalla eða með til tekjuafgangs hvers árs. Þessar afborganir eru nauðsynlegar og hagur ríkisins er ekki í rjettu horfi, nema tekjur og gjöld standist á, þótt þessar afborganir sjeu taldar með gjöldum.

Það hafa heyrst ýmsar skýringar á því, hverjar orsakir liggi til þess, að fjárhag landsins er komið sem komið er. Jeg skal ekki fara út í það, en aðeins í fáum orðum taka fram það, sem landsreikningar síðari ára segja um þetta. Ef maður tekur eiginlegar (ordinærar) tekjur og gjöld fyrir sig og telur ekki tekjur af lánum eða eyddum eignum og heldur ekki gjöld, sem verðmæti hefir fengist fyrir, sýnir það sig, að árlegar tekjur landssjóðs fyrir stríðið, 1913 og 1914, námu ea. 2 miljónum. 1915 21/2 og 1916 3 miljónum, og gjöldin stóðust nokkurn veginn á við þetta og skuldirnar voru ríflega á við eins árs tekjur. En svo fer að fara út um þúfur. 1917 og 1918 eru tekjurnar áfram ca. 3 miljónir, en gjöldin fyrra árið rúmar 5 milj. og síðara árið rúmar 6 milj. Þarna fara þá rúmar 5 miljónir. 1919 eru tekjurnar loksins samræmdar dýrtíðinni og standast vel á við gjöldin með hjer um bil 8 milj. króna. En svo fer strax um þverbak aftur 3920 og 1921; tekjurnar eru þær sömu, rúmar 8 miljónir, en gjöldin fara, sökum launalaga, dýrtíðaruppbótar o. s. frv., rúmlega 3 og tæpar 3 milj. fram úr þeim hvort árið. Þarna eru þá komnar þær 10–11 miljón króna skuldir, sem nú þjaka oss og stafa frá því, að við í hvorttveggja skiftið vorum tveim árum of seint á ferðinni með að samræma tekjur og gjöld. Það verðum við að láta okkur að varnaði verða.

En það er fleira, sem má lesa út úr reikningum þessara ára, og nú sný jeg mjer að ástandi lands og þjóðar yfirleitt, og í því er hagur landssjóðs ekki nema lítill þáttur, þó harla þýðingarmikill sje. Grundvöllurinn til hags okkar nú er lagður á stríðsárunum, fyrst hægt, en svo með sívaxandi hraða. Landsreikningarnir, sem jeg nefndi, bera það með sjer, hvernig dýrtíðin geisaði yfir landið, taumlítið. Af dýrtíðargróðanum, sem ríkin annars tóku drjúgan skerf af, og stundum því nær allan og vörðu til viðhalds þeim hluta mannfjelagsins, er fyrir mestum hallanum varð, fjekk landssjóður ekki nema lítið og of seint; hafði því ekki fje aflögum til verulegra ráðstafana móti dýrleikanum og varð að lána fje til þess að standast þá verðlagshækkun, er beint á honum lenti. Dýrtíðin keyrði fram úr öllu; fjölfróðir menn hafa haldið því fram, að Reykjavík um það leyti væri dýrasti staðurinn á hnettinum. Fjeð, sem ekki var hirt hjá stríðsgróðamönnunum, laut hinu forna lögmáli: „illur fengur illa forgengur“.

Þegar svo hrapið kom, tekjur minkuðu og eignir fjellu í verði, en framleiðslukostnaður og skuldir hjeldu fullri hæð, steyptust atvinnurekendur auðvitað um koll. Með blað og blýant í hendi konstateruðu bestu höfuð þjóðarinnar, að fiskiveiðar og kvikfjárrækt borgaði sig ekki á Íslandi. Nú sjá, sem betur fer, bæði þeir og aðrir, að þetta var of alment til orða tekið. Blessaður þorskurinn og sauðkindin voru saklaus í þessu; það var bara svona máti að reka atvinnu upp á, sem ekki borgaði sig. En við stöndum eftir með tvær hendur tómar, og það því minna sem við erum skuldugir.

Við erum líkt staddir og Ísraelsbörn í eyðimörkinni forðum. Við höfum dansað kringum gullkálfinn, erum að súpa seyðið af honum og verðum nú að fara að draga okkur yfir eyðimörkina í áttina til hins fyrirheitna lands. Og við verðum að finna leiðina sjálfir. Það er engin von á skýstólpa eða eldstólpa til að vísa okkur veg, enda gerist þess ekki þörf, því við höfum nóga vísbendingu í því, sem bæði við sjálfir og aðrar þjóðir hafa gert með góðum árangri, þegar líkt stóð á. Eftir fyrri styrjöldina miklu á fyrstu árum 19. aldarinnar og eftir hrun þjóðbankans danska, þegar við stórtöpuðum og alt fór í kalda kol, eftir því sem farið gat á þeim tímum, var þetta unnið upp aftur á nokkrum árum með atorku, iðju og sparsemi; við lærðum aftur að búa að okkar eigin framleiðslu frekar en áður, við lærðum að hjálpa okkur sjálfir. Sú kynslóð, sem ólst upp í þessum heilsusama skóla, var grundvöllurinn að öllum þeim framförum, sem við tókum fram um síðustu aldamót. Líkt stóð á um sama leyti bæði hjá Dönum og Norðmönnum, nema því meira áberandi sem þeir voru komnir lengra á veg og með líkri aðferð komust lengra í framförum. Alveg sama dæmið er til hjá Svíum, og það líkara okkar sem það er eldra. nefnilega eftir ófarirnar um 1720. Og ef vel er aðgætt, sjáum við, hvernig allar þjóðir, sem eiga sjer viðreisnar von, nú feta þessa erfiðu braut, og atvinnuleysið, sem helst hamlar öðrum þjóðum, á sjer ekki stað hjer í sambærilegri mynd. Atvinnuleysið hjá iðnaðarþjóðunum stafar af því, að þættir, sem þær ekki ráða yfir í atvinnurekstrinum, erlendir þættir, hafa bilað eða horfið úr sögunni. Okkar atvinnuleysi, að svo miklu leyti sem það kemur fyrir, á sjer aðeins orsök í handvömm og skipulagsleysi innanlands.

Umfram alt verðum við að vita það, að okkur dugir ekki að hugsa um að hlaupast undan bagganum, sem við höfum bundið okkur. Við megum ekki hugsa okkur eitthvert allsherjar töframeðal, eitthvert þjóðráð, sem á ódýran hátt og með klókindum geti losað okkur við baggann. Slíkt þjóðráð er alveg áreiðanlega ekki til; það er ekki til og það væri alveg óheilbrigt og móti allri hugmynd um rjettlæti hlutanna, ef við gætum hegðað okkur eins og við höfum gert og losnað við afleiðingarnar á nokkurn annan hátt en að vinna þær af okkur. Því er alveg eins varið með þjóðir og einstaka menn, sem hafa lent í braski, skuldavafstri og reiðileysi. Annar tekur sig til með tápi og vinnur sig upp aftur, hinn grípur eitthvert „þjóðráð“. skrifar falskan víxil eða eitthvað þvílíkt.

Okkur er alveg óhætt að leggja út á hina erfiðu braut í fullu trausti þess, að hún liggur til framtíðarlandsins okkar. Við eigum atvinnuvegi, arðvænni og tryggari en flestar aðrar þjóðir, og það má bæta við þá því nær ótakmarkað; vinnandi menn okkar til lands og sjávar standa ekki öðrum að baki að dugnaði og atorku, en á sumum sviðum að verklegi þekkingu. Það eru töluverðir ágallar á því, hversu afurðir okkar komast á markað, sem eðlilegt er, því fram að þessu hafa útlendingar sjeð um það; við höfum ekki fylgt þeim lengra en að skipshlið, en þetta á fyrir sjer að lagfærast. Innflutning höfum við lengur stundað, og fer hann betur úr hendi.

Jeg held, að við sjeum mjög skamt komnir í, eða öllu heldur að okkur alveg vanti efnalega mentun. 3. flokks vörur renna í okkur eins og nýmjólk fyrir 1. flokks verð. Kaupvilji okkar á útlent skran virðist ekki öðrum takmörkunum bundinn en kaupgetunni, og tæplega það. Þó að starfsemi og framleiðsla sje aðalatriðið, má heldur ekki vanrækja að geyma fengins fjár.

Von mína um efnalega viðreisn þjóðarinnar hefi jeg alveg bygt á henni sjálfri, og jeg hefi alveg hlaupið yfir öll vanaleg svigurmæli um þing og stjórn sem leiðtoga þjóðarinnar. — Þesskonar orðatiltæki eru orðin úrelt og alveg röng. Þing, sem byggist á almenninn kosningum, og stjórn, sem byggist á þingræði, eru hvorugt svo til komin eða til þess ger að vera leiðtogar. Þvert á móti er það almenn reynsla í öllum löndum, að þau fylgja straumnum sem best þau geta. Það er alt önnur og að mínu viti bæði virðulegri og nytsamari staða, sem þing og stjórn hafa. Þau eru í þjónustu þjóðarinnar, þau vinna fyrir hana, greiða götu hennar, ekki með einhverjum stórstökkum, sem þjóðin ekki hefir athugað og því síður samþykt, heldur með daglegri og stöðugri starfsemi í ákveðna átt.

Um slíka áframhaldandi starfsemi í þjónustu efnalegrar viðreisnar var rætt á þinginu í fyrra. Það rjettmætasta í þeirri mótstöðu, er gerði að verkum, að ekki voru gerðar neinar ráðstafanir til þess að styðja útflutning afurða og til að draga úr innflutningi óþarfa, hygg jeg hafi verið tilfinning fyrir því, að þær uppástungur, sem komu fram, hafi þótt heimta of lítið lítið samstarf af sjálfri þjóðinni, ráða of miklu fyrir þjóðina. En jeg er þess fullviss, að þingið einhuga og af fremsta megni vildi styðja útflytjendur til þess að koma á og framfylgja skipulagi, sem þeir sjálfir byndust fyrir í hinu mjög svo þýðingarmikla starfi þeirra. Innflutningi má mikið beina í rjetta átt með tollum, þannig að þeir styðji innlenda framleiðslu án þess að auka dýrtíð í landinu. Menn eru einhuga um bættar samgöngur sem skilyrði fyrir aukinni framleiðslu; í því efni kann að vera skoðanamunur á getu, en ekki á vilja. Minna er talað um, en ekki síður þýðingarmikið, að almenn líðan okkar. „standard of life“. geti haldist og skánað. Þar rekur maður sig undir eins á eitt áhyggjuefnið, húsnæðisvandræðin í Reykjavík, sem um leið eiga þátt í því að halda uppi dýrtíð fyrir alt landið.

Svona mætti halda áfram lengi, og skal jeg ekki við þetta tækifæri þreyta menn á því; hjer liggja fyrir verkefni svo ekki sjer út úr. Það má segja um hvert þeirra, að það sje smátt, en margt smátt gerir eitt stórt: framþróun þessarar þjóðar.

Í slíkri viðreisnarstarfsemi, sem jeg hefi lýst, hefir þingið sinn ríkulega verkahring, ekki svo mjög á löggjafarsviðinu, því eðli sínu er frekar um framkvæmdarmál að ræða en löggjafar, heldur með því að halda uppi stefnunni gagnvart öfgum og tildri, sem á hana er reynt að hengja, og gagnvart skiftandi stjórnum, með því að skera úr, hvert málefnið skuli fremur tekið, þegar um margar nauðsynjar er að ræða, sem þó ekki er hægt að taka allar í einu, og með því að heimila fje og vald til hinna ýmsu framkvæmda.

Í þessu liggur, að eitt þýðingarmesta verk þingsins á svona tímum er þátttaka þess í myndun landsstjórnarinnar, í því að stofna hana með starf fyrir augum, en ekki kyrstöðu. Jeg telst til þeirra manna, sem álíta, að okkur hæfði best eins manns stjórn, en slíkt liggur ekki fyrir, því stjórnarskráin heimilar það ekki; þar á móti heimilar hún vissulega, að þeir sjeu ekki nema tveir. Einn athugaverðasta þáttinn í pólitík síðari ára hygg jeg vera samsteypustjórnirnar; því fyr sem við komumst út úr þokunni, því betur. Mjer er heimilt að segja fyrir mitt leyti og þeirra manna, er að mjer standa, að við viljum stuðla að hverri framsóknarviðleitni einnig á þessu sviði.

Þegar þeir menn, sem nú ætla að taka til máls, hafa lokið sjer af, leyfi jeg mjer að leggja til, að umræðunni sje frestað og frumvarpinu vísað til fjárveitinganefndar.