07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

1. mál, fjárlög 1924

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Háttv. þm. Borgf. (PO) þótti óskýrt svar mitt við fyrirspurn hans, en svo var að heyra, að þar um hafi ráðið mestu, að hann hafi ekki viljað taka eftir því, sem jeg tók skýrt fram, að hjer er alls ekki um neina húsaleigu að ræða fyrir mig, eða að jeg hafi ókeypis íbúð. Herbergi það, er hjer ræðir um, er eingöngu í opinberar þarfir, en alls ekki prívat fyrir mig. Tek jeg því engum vítum frá honum í þessu máli.

Um ábyrgðina er það að segja, að það hefði verið það sama og að láta bæinn verða af láninu, ef bíða hefði átt þings með það. Frá bæjarins hendi var þetta mikið nauðsynjamál, að lánið yrði tekið, og lánskjörin sæmilega góð. Til þess því að láta ekki bæinn verða af láninu, varð það ofan á, að stjórnin hljóp undir bagga með honum.

Annað mál er það, að ríkið hefir keypt nokkuð af þessum gjaldeyri. Bærinn þurfti ekki á öllu láninu að halda þegar í stað. Var því engin ástæða til þess, að fjeð lægi á meðan óhreyft, þar sem ríkið þurfti hvort sem var á erlendum gjaldeyri að halda. Það er nú líka komið á daginn, að bærinn hefði engan hagnað haft af því, að fjeð hefði legið kyrt í erlendum gjaldeyri.