09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

1. mál, fjárlög 1924

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Hv. frsm. fjvn. (MP) gat þess, að nefndinni væri ekki síður en stjórninni áhugamál að skila fjárlögunum sem næst því að vera hallalausum, eftir því sem föng væru á. Jeg get ekki sagt annað en að brtt. nefndarinnar beri yfirleitt með sjer, að þetta sje rjett. En þó að þetta hafi verið markmið nefndarinnar, hefir hún borið fram brtt., sem mundu hafa í för með sjer um 210 þús. kr. halla. eftir því sem mjer telst til. Þetta verður ekki talið stórvægilegt, einkum þegar menn taka tillit til, að þessi halli stafar af fjárveitingum til símalína, sem teknar hafa verið upp með þeim ummælum, að þær skyldu ekki greiddar nema fje sje fyrir hendi. Þær upphæðir, sem bundnar eru slíkum skilyrðum, nema alls 219400 kr. Að vísu hefir nefndin náð þessum árangri með því að auka að miklum mun tekjubálkinn frá því, sem stjórnin hafði áætlað hann.

Stærsti liðurinn eru tekjurnar af víneinkasölunni. Þessar tekjur mátti skoða sem einskonar varaskeifu í frv. stjórnarinnar, en þar sem þá var ekki komin framlenging á lögunum um undanþágu frá bannlögunum, var ekki rjettmætt að taka þennan lið upp í frv. að svo komnu. Auk þess hefir nefndin gert ýmsar aðrar breytingar við tekjubálkinn, og er það, eins og háttv. frsm. (MP) tók fram, aðallega til að samræma áætlunina við reynslu síðustu ára. En stjfrv. var samið áður en menn vissu árangurinn af árinu 1922, og ef því skiljanlegt, að ýmsu hafi þurft að breyta í því.

Af einstökum breytingum tók hv. frsm. (MP) það fram, sem er að segja um tekju- og eignarskattinn. Það er mikið álitamál, hve hátt má áætla hann. Gæti jeg trúað, að rjettara væri að vera heldur fyrir neðan þessa upphæð heldur en fyrir ofan, og mætti þykja gott, ef skatturinn nær 900 þús. kr., eins og áætlað er nú í fjárlögunum. Aukatekjurnar hafa verið samræmdar við árangur síðustu ára. Erfðafjárskatturinn var settur í frv. eftir áætlun fjvn. í fyrra, og var þá miðað við næsta ár á undan, en þá var þessi skattur óvenjulega hár.

Þá hefir nefndin hækkað áætlun útflutningsgjaldsins að miklum mun. Virðist hún gera ráð fyrir meiri festu á útflutningsgjaldi af síld heldur en tillaga stjórnarinnar byggist á. Þetta er auðvitað mjög óviss tekjuliður. Síðastliðið ár nam gjaldið af síldinni að vísu 300 þús. kr., en það getur auðveldlega orðið mun lægra. Ef gert væri ráð fyrir, að útflutningur — að síldinni undanskilinni — nemi 40 milj. kr. á mesta ári, yrði útflutningsgjaldið 400 þús., og ef lagt er við þetta útflutningsgjaldið af síld, eins og það var síðastliðið ár, koma út 700 þús. kr., er nefndin hefir áætlað. Er álitamál, hvort ekki væri rjettara að áætla svo óvissan lið sem gjaldið af síldinni eins og búast má við því í meðalári. eða tæplega það.

Jeg tel ekkert á móti því, þó að háttv. fjvn. hafi lækkað tóbakstollinn, því að hann hefir undanfarin ár verið fyrir neðan 400 þús. kr. En ekki er fyllilega að marka, þótt hann hafi verið lágur síðasliðið ár, því nokkuð stóð sjerstaklega á, þar eð birgðir voru miklar af tóbaki í landinu.

Um símatekjurnar er það að segja, að þar fór jeg eftir áliti símastjóra, en hann hefir komist að því síðar, að áætlun sín mundi of há, og er þá að taka því. Einnig er jeg samþykkur því, að niður falli liðurinn „tekjur af skipum“; fari svo, að tekjuafgangur verði af sjálfum skiparekstrinum, eitthvað líkt og áætlað var í frv., er hægurinn hjá að verja honum til til þess að koma skipunum eitthvað nær sannvirði.

Þá hefir háttv. nefnd tekið bifreiðaskattinn í fjárlögin og sett sömu upphæð gjaldamegin. Er það aðeins formsatriði.

Þá minnist hún á þá tilhögunarbreytingu, að framvegis verði tekin upp í fjárlögin áætlun um tekjur og gjöld af fyrirtækjum þeim. er ríkið rekur. Voru í þetta skifti ekki möguleikar á því að gera það, en jeg tel rjett að haft sje í huga að fara þá leið, að svo miklu leyti sem við verður komið. Hefi jeg svo ekki meira við þetta að athuga.