22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Mjer virðist fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. (MG) alveg rjettmæt, og skal geta þess, að innan skamms mun koma frá Hagstofunni skýrsla um árangur tekjuskattsins. Þó var þetta auðvitað athugað eins og unt var áður og farið eftir þeim gögnum, sem þá var hægt að fá, þó fresturinn til endurskoðunarinnar sje hins vegar mjög stuttur í gömlu lögunum til þess að fullkomin reynsla geti verið fengin til að byggja á.

Um skatt konsúlanna í 5. gr. skal jeg aðeins geta þess, að þar er ekki um eiginlega efnisbreytingu að ræða, heldur aðeins feld niður óþörf ummæli, sem valdið hafa misskilningi. Það getur sem sje komið fyrir, að consul electus sje hvorki íslenskur þegn nje þegn þess ríkis, sem hann er konsúll fyrir, heldur einhvers þriðja ríkis. En fyrir því er ekki nokkur fótur í þjóðarjetti, að slíkir menn eigi að vera undanþegnir skatti, þó hjer hafi það komið fyrir, að þeir hafi farið fram á það, og með tilliti til þess er umrædd breyting eða skýring á 5. gr. fram komin.