07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í C-deild Alþingistíðinda. (1790)

396. mál, óskilgetin börn

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Hv. þdm. hafa væntanlega kynnt sér frv. það, sem hér liggur fyrir, og hefir verið prentað upp, vegna þess að því fylgdi áður röng greinargerð.

Eins og frv. á þskj. 395, um breyt. á fátækralögunum, er þetta frv. einnig flutt eftir tilmælum mæðrastyrksnefndarinn­ar. 1. gr. frv. er borin fram til þess að koma samræmi á nokkur atriði í fátækralögunum og lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, um meðlag með börnum og greiðslu þess. Eins og segir í grg. frv., liggur breytingin í því, að fella burt það ákvæði, að dvalarsveit barns beri aldrei að greiða meira en meðalmeðlag, en hinsvegar sé skylt að greiða með­lagið eftir því, sem ákveðið er eftir með­lagsúrskurði valdsmanns eða samningi, staðfestum af valdsmanni.

2. gr. er þess efnis, að frestur til að krefjast barnsfararkostnaðar er lengdur úr 6 mánuðum í 12 mánuði. Þetta er í samræmi við það, að barnsfaðernismál má draga að höfða í eitt ár frá fæðingu barnsins. Þar sem oft dregst að höfða slík mál fram á síðustu stund, er þá oft orðið um seinan að krefjast barnsfarar­kostnaðar af dvalarsveit, og er þá umstangsmikið að fara að leita úrskurðar stjórnarráðsins og bíða eftir honum. Vona ég, að hv. deild taki þessu frv. vel og vísi því að lokinni þessari umr. til 2. umr. og allshn.