12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

1. mál, fjárlög 1931

Ingibjörg H. Bjarnason:

Ég á hér brtt. á þskj. 497, XII., við 14. gr. B. XIX, nýr liður, til Soffíu Stefánsdóttur, til þess að halda uppi námsskeiðum fyrir konur og karla í teikningu og tréskurði allt árið, 1.500 kr., en varatill. hefi ég flutt um 1.200 kr. Umsækjandinn er dóttir hins þjóðkunna hagleiksmanns Stefáns heitins Eiríkssonar, sem var í daglegu tali oftast kallaður Stefán hinn oddhagi, og ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. kannist við. Stefán heitinn dó 19. júní 1924. Börn hans voru 9, og flest ung, þegar hann dó. Elzt þeirra er umsækjandinn, Soffía. Þá stóð ekkjan, Sigríður heitin Gestsdóttir, uppi með þennan stóra hóp, efnalaus og allslaus. Rétt áður en Stefán heitinn lézt lauk Soffia fullnaðarprófi í dráttlist og myndskurði, með ágætiseinkunn, svo sem prófskírteini hennar ber með sér, er liggur hér með umsókninni, en það var veikindum föður hennar að kenna, að hún lauk ekki prófinu 2 árum fyrr.

Að Stefáni Eiríkssyni látnum sótti Soffía dóttir hans um styrk, til þess að halda áfram starfi hans, en fékk ekki áheyrn; hefir ef til vill þótt þá of ung. Aftur á móti fékk ekkjan á þingi 1926 600 kr. styrk í 18. gr. Þessi litla viðurkenning á starfi Stefáns heitins sem brautryðjanda í dráttlist og tréskurði mun engum hafa þótt um of. Hélt ekkjan þessum styrk, þar til hún dó í janúar 1929.

Styrkurinn til Stefáns heitins mun hafa verið 2.000 kr. síðustu árin, sem hann lifði. Þessi styrkur var að Stefáni látnum veittur öðrum manni, sem hafði lært hjá honum, og skal ég ekki sakast um það. Nú liggur fyrir beiðni frá dóttur Stefáns, eins og áður, og enn sem fyrr sækir hún um styrk til þess að halda áfram starfi föður síns. Skal ég leyfa mér, með samþykki hæstv. forseta, að lesa umsóknina, því hún skýrir alla málavexti betur en ég get gert:

„Ýmsir gripir, sem varðveitzt hafa frá fyrri öldum, sýna það, að um eitt skeið hefir íslenzk tréskurðarlist verið á allháu stigi. Frá 19. öldinni munu þó fáir þess háttar gripir vera til, og þegar leið að síðustu aldamótum, mun láta nærri að segja mætti list þessa aldauða. Þá var það, að faðir minn sálugi, Stefán Eiríksson, réðist til náms erlendis, með lítinn farkost annan en áhuga og dugnað, í því skyni að loknu námi að vitja aftur ættjarðar sinnar og endurvekja þar þessa fornu og fögru list. Svo sem kunnugt er, settist hann að hér í Reykjavík og stundaði iðn sína af kappi, jafnframt því sem hann hafði fjölda nemenda. Þessir nemendur eru nú dreifðir um land allt og hafa vakið áhuga og smekkvísi á þessari fögru list, og sést þess víða merki.

Síðan faðir minn andaðist, hefi ég veitt forstöðu vinnustofu þeirri, sem hann stofnaði, og einnig haft á hendi kennslu í tréskurði og teikningum og yfir höfuð reynt að halda öllu í sama horfi eins og meðan hans naut við.

Af framangreindum ástæðum leyfi ég mér hér með að sækja um það til hins háa Alþingis, að því mætti þóknast nú og framvegis að veita mér samskonar styrk og faðir minn naut úr ríkissjóði, svo að mér verði unnt, eftir því sem ég megna, að halda áfram starfi hans. Vænti ég þess, að verðug minning föður míns og eindreginn áhugi minn fyrir framhaldi á starfi hans séu nægileg meðmæli til þess, að hið háa Alþingi fallist á þessa umsókn mína.

Soffía S. Stefánsdóttir“.

Mér finnst þessi umsókn hvorttveggja í senn, látlaus yfirlýsing um löngun hennar til þess að halda upp góðu og þjóðnýtu starfi föður síns, og dálítil lýsing, þótt ekki sé vikið að því berum orðum, á þeim örðugleikum, sem hafa orðið á vegi hennar, þar sem hún hefir síðan 1924 mest barizt fyrir heimilinu, án annarar hjálpar en hins lága ríkissjóðsstyrks til móður hennar. Síðan í janúar 1929 má segja, að Soffia hafi gert allt í senn: staðið fyrir heimilinu, haldið uppi kennslu og vinnustofu föður síns og verið systkinum sínum, sem öll eru yngri, í móðurstað. Ég býst við, að þetta muni þykja ekki illa gert af ekki eldri konu. Ég get ekki sagt annað en að ég dáist að hugrekki hennar og dugnaði.

Stefán Eiríksson hóf starf sitt 1898 og kenndi bæði í skólum og heima hjá sér, auk þess sem hann og nemendur hans unnu fjölda af fögrum gripum, sem nú eru dreifðir um allt land. Það er alkunnugt, að þegar menn þurftu á þeim árum að láta gera fallegan minjagrip, þá var leitað til Stefáns hins oddhaga, og brást ekki, að báðir yrðu ánægðir, gefandinn og þiggjandinn.

Soffía var 14 ára, þegar hún hóf nám hjá föður sínum. Hún gat lokið prófi 1922, hefðu veikindi föður hennar ekki hamlað, og dróst það til 1924, eins og ég gat um áður. Síðan hefir hún veitt vinnustofu föður síns forstöðu og haldið uppi námsskeiðum í teikningu og tréskurði. Námsskeiðin hafa venjulega staðið í 6 mánuði. Tekur hún óvenjulega lágt gjald fyrir og starfar þar í anda föður síns, því að Stefán heitinn þótti ekki dýrseldur. Kennslugjaldið er 10 kr. fyrir námsskeiðið, en aðrir kennarar taka 12 kr. á mánuði. Þetta lága gjald ræður sýnilega miklu um tekjur Soffíu. Einn nemanda, sem hafði að vísu byrjað nám hjá Stefáni heitnum, hefir Soffía útskrifað. Hann heitir Ágúst Sigmundsson og mun mörgum að góðu kunnur. Nú eru 2 nemendur í vinnustofunni, og á annar að útskrifast nú í sumar. Ennfremur hefir Soffía haldið námsskeið í tréskurði fyrir stúlkur, og hafa samtals 15 stúlkur sótt þau. Á námsskeiðunum í dráttlist hafa að jafnaði verið 28–30 nemendur árlega.

Ég vona, að enn séu margir, sem muna hinn góðkunna mann, Stefán hinn oddhaga, sem vann að endurreisn listiðnaðar hér á landi í dráttlist og tréskurði og hefir átt mikinn þátt í að þroska smekk landsmanna og glæða ást þeirra á listum með kennslu sinni. Stefán heitinn kenndi með svo mikilli alúð og áhuga, að hann miðlaði nemendum sínum alltaf nokkru af þeirri lífsgleði, sem honum var meðfædd, og vakti hjá þeim trúna á gildi vinnunnar og vinnugleðinnar. Ég hygg, að dóttir hans hafi tekið í arf nokkuð af þessum sjaldgæfu en nauðsynlegu eiginleikum kennara. Vona ég, og er þess enda fullvis, að þeir hv. þdm., er muna Stefán Eiríksson, muni vilja gjalda gamla þakkarskuld með því að samþ. þennan tiltölulega litla styrk til dóttur hans, svo að henni verði kleift að koma fram þeim loflega ásetningi að halda uppi starfi hans og stefnu. Ég bið menn að íhuga, hvort starf Stefáns heitins í þarfir íslenzks listiðnaðar eigi það ekki skilið, að dóttur hans sé veitt þessi litla úrlausn. Till. er lægri en farið var fram á, því að ungfrú Soffía sótti um að fá sama styrk sem faðir hennar hafði notið síðustu árin, en ég sá mér ekki fært að fara hærra. En því frekar ætti að mega vænta þess, að hún nái samþykki hv. d.