15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

140. mál, mæðiveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil fyrst svara fyrirspurn hv. þm. Dal. um það, á hvaða áætlun n. byggði það, að ætla 150000 kr. til greiðslu upp í vexti af veðlánum og upp í jarðarafgjöld leiguliða. — Hv. þm. spurði, hvort n. hefði útreikninga að leggja fram fyrir hv. d., er sýndi, að þessi fjárupphæð væri byggð á sanngirnisgrundvelli. Slíka útreikninga hefir n. ekki. Ég gat þess í framsöguræðu minni, að n. hefði ekki getað aflað sér óyggjandi fræðslu um þessi efni. En n. fór gegnum aðalveðskuldir bænda á svæðinu, sem um er að ræða, og reyndi að gera sér grein fyrir, hversu miklar þær væru og hve háir vextir og afborganir af þeim skuldum eru. Síðan dró hún frá veðskuldir bænda á þeim svæðum innan umræddra héraða, þar sem veikinnar varð ekki vart fyrr en á þessu ári. Ég skal geta þess, að n. hefir eftir bezta kunnugleika plokkað frá þá bændur, sem veikin hefir látið í friði hingað til. Eftir þessu mati er upphæðin áætluð. Fyrirfram er ekki hægt að segja með vissu, hvort upphæðin nægi, en það kemur fram við framkvæmd málsins. Ef það reynist ekki nóg, geri ég ráð fyrir, að eitthvað af þeim skuldum, sem ekki er hægt að ganga frá á þessu ári, verði flutt yfir á næsta ár. Það má líta á þessa starfsemi sem tilraunastarfsemi, sem næsta þing eigi að byggja á.

Þá spurði hv. þm., hvort hér væri ekki um bæði fasteignaveð og lausafjárveð að ræða, og get ég svarað því, að svo er. Ennfremur spurði hv. þm. í sambandi við b-lið 1. gr. frv., þar sem heimilað er að verja til sýslu- og hreppavega á svæðinu allt að 110000 kr., hvort samningar hefðu verið gerðir um að lækka framlagið til sýsluvegasjóðs, og get ég svarað því, að það hefir alls ekki komið til tals í þessu sambandi. Þetta framlag á að vera því algerlega óviðkomandi og án tilskilins framlags á móti. Ég þekki enga samninga um þetta atriði, eins og hv. þm. var að dylgja um. — Hv. þm. benti á, að einstakir búendur gætu ekki notið þeirra hlunninda eða þeirra atvinnubóta, sem b- og e-liður 1. gr. gera ráð fyrir. Það er vitanlega rétt. En n. sá ekki aðra leið til að styrkja bændur fram yfir það, sem heyrir undir vaxtastyrkinn, ef átti þá ekki að taka upp beina framfærslustyrki. Og þá leið vildi n. ekki fara, en faldi rétt, að hér yrði haldið svipað á og um atvinnubótastyrk til kaupstaðanna.

Þá spurði hv. þm. um, hvernig bæri að skilja orðalag e-liðs 1. gr., þar sem talað er um skurðagerð, og hvort það næði líka yfir lokræsi. Vitanlega eru lokræsi líka skurðir og ákvæðið á að ná yfir allar tegundir skurðagerðar.

Ég held þá, að það séu ekki fleiri atriði í ræðu hv. þm. Dal., sem ég þarf að svara, og vil ég þá snúa mér að hv. þm. Ak. — Hann hélt hér langan og mikinn fyrirlestur um eðli og uppruna plágunnar miklu, og mun ég ekki deila við hann um fræðileg atriði þess máls. En ég vil leyfa mér að óska, að hans mikli lærdómur á þessu sviði hefði sýnt sig í því, að hann hefði ráðið niðurlögum þessa vágests, en birtist ekki einungis til þess að berja okkur niður í stólum hér á hv. Alþ. Ég verð að segja eins og mér finnst, — meginefni ræðu hv. þm. Ak. fór fyrir ofan garð og neðan þessa máls. Ef hér hefði verið um að ræða varnir gegn veikinni eða útrýmingu hennar, þá var þessi fræðilegi fyrirlestur á réttum stað. En hér er verið að ræða um aðferðir til að milda þær tilfinnanlegustu afleiðingar, sem plágan hefir eftir sig skilið. Í niðurlagi ræðu sinnar lýsti hv. þm. sig fylgjandi því, að þessar ráðstafanir yrðu gerðar, vegna þess að bændur þeir, er hlut eiga að máli, væru svo illa komnir, að þeir ættu heimtingu og siðferðislegan rétt á aðstoð hins opinbera. Hv. þm. endaði þannig ræðu sína svo, að hann mælti með frv. Ég mun því ekki fara langt út í ræðu hans. Hv. þm. taldi, að mörg víxlspor hefðu verið stigin í sambandi við þessa mæðiveiki, og það er rétt. En ástæðan til þeirra er fyrst og fremst sú, að hér er gáta, sem hvorki dýralæknum né öðrum fræðimönnum hefir tekizt að leysa, sem sé þessi: Hvernig á að koma í veg fyrir fjárhrun af völdum sauðfjársýkinnar? Hv. þm. gerði litið úr því, hve margt fé hefði dáið úr sjálfri veikinni, — flest hefði það dáið úr öðrum meðverkandi ástæðum. Ég mun ekki hætta mér út í fræðilegar rökræður við hv. þm. Ak. um þetta, enda er það algert aukaatriði í því sambandi, sem hér um ræðir. Aðalatriðið er þetta, að fé bænda drepst í hrönnum jafnt um hásumar og vetur. Mér kemur í hug í þessu sambandi visa, sem kveðin var í fyrra, þegar dýralæknarnir gáfu út þann úrskurð, að mæðiveikin væri ekki sjúkdómur, heldur einungis sjúkdómsform. Hún er svona:

„Þótt falli hjörðin, höldar góðir,

hræðist ei þann pestarstorm.

Þið skuluð vera þolinmóðir.

Þetta er aðeins sjúkdómsform.“

Þegar bændur sjá fé sitt liggja dautt í hrönnum, er þeim svo innilega sama um, hvort nefna skuli dauðaorsök þess sjúkdóm eða sjúkdómsform eða hverju nafni eigi að nefna sjúkdóminn. — Hv. þm. sagði, að vísindamenn þeir, sem með málið hefðu fjallað, hefðu vakið upp draug með skrifum sínum um veikina, — það væri síðan orðið að andlegum faraldri, sem væri farinn að leggjast á hv. þm. ekki síður en sauðkindina. Þá verður viðfangsefnið aðeins þetta: Getur fé dáið úr ímyndunarveiki? En það er staðreynd, sem ekki verður komizt fram hjá, féð deyr í hrönnum, og án þess að við verði ráðið. Það er aðalatriðið. Hitt er aukaatriði, hvað veikin heitir og hvernig hún hefir flutzt til landsins. Fyrst ekki er hægt að finna, hvers eðlis hún er, svo að hægt sé að gera við henni, eru menn jafnnær hvað veikin er kölluð.

Hv. þm. sagði, að dýralæknar landsins hefðu verið fótum troðnir í þessu máli. Ég veit ekki betur en að dýralæknum hafi frá upphafi verið frjálst að rannsaka veikina. Og þeir gerðu það, en fundu engin ráð við henni. Það þýðir ekki að koma hér inn á Alþ. og halda lærða fyrirlestra, en vera algerlega máttlaus í baráttunni við veikina utan þingsins. Hv. þm. sagði, að veiki þessi hefði aldrei verið í Þýzkalandi, en þaðan telja ýmsir, að hún hafi borizt með karakúlhrútnum, og lagði hv. þm. fram bréf frá þýzkum sjúkdómafræðingi til staðfestingar þessari fullyrðingu. Ég hefi heyrt, að dýralæknar í Þýzkalandi muni alls ekki kunna skil á þessari Jaagziekteveiki, en í Þýzkalandi gangi veiki í sauðfé, sem mjög líkist þessari veiki. Hver er kominn til að segja, að það sé ekki einmitt Jaagziekte-veikin, sem Þjóðverjar gefa bara annað nafn. — Hv. þm. endaði ræðu sína á því, að sjálfsagt væri, að þetta mál yrði ekki látið niður falla. Ég er honum sammála um það. Helzt vildi ég, að hann sýndi lærdóm sinn sem dýralæknir þannig, að finna ráð gegn veikinni, — ég efast ekki um, að hver einasti bóndi mundi þá leita til hans. En hér er ekki verið að ræða um þessa hlið plágunnar, og mun ég því láta þessi orð mín nægja.