26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2751)

109. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

*Guðrún Lárusdóttir:

Herra forseti! Ég sé ástæðu til þess að bæta örfáum orðum við það, sem hv. frsm. n. hefir sagt hér. — Eins og menn muna, lágu fyrir menntmn. tvö frv., annað um húsmæðrafræðslu í sveitum og hitt um hús­mæðrafræðslu í Reykjavík.

Ég verð að játa, að frá persónulegu sjónarmiði hefði ég fremur kosið, að frv. um húsmæðra­kennaraskóla Íslands og húsmæðraskóla í Reykjavík eða nágrenni hefði náð samþykki á þingi, en þegar ég sá fram á, að í rauninni var vonlaust um framgang þess máls, en búið er að vinna töluvert að undirbúningi undir rækilegri húsmæðrafræðslu í sveitum heldur en verið hef­ir, en lítið hefir aftur á móti verið athuguð þörf kaupstaðanna í þessu efni, þá taldi ég rétt að snúa mér að því að fylgja þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, því að mér fannst, eins og fram hefir komið í umr. um þetta mál, að hér væri um svo stórt atriði að ræða, að það væri eins og að taka þetta úr samhengi að fara að kljúfa n. út af þessu máli, þar sem ég var mjög sammála öðrum hv. nm. um, að það bæri að taka til athugunar þessa þörf kaupstaða­stúlknanna ekki síður en sveitastúlknanna. En ég vil taka það skýrt fram, að ég fylgi þessari till. í því fulla trausti, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að búa þessa löggjöf sem bezt úr garði og undir­búa frv. sem allra ýtarlegast. Ég tek þetta fram vegna þess, að ég hefi persónulega rekið mig á vanrækslu hæstv. ríkisstj. í sambandi við þáltill., og þó að það komi ekki þessu máli við, ætla ég að leyfa mér að minna á meðferð hæstv. ríkisstj. á lítilli þáltill., sem samþ. var í þessari hv. d. á síðasta þingi, um að athuga möguleikana á auknu húsrými fyrir geðveika menn. Þessari till. hefir hæstv. ríkisstj. ekkert sinnt, og ekki einu sinni svarað fyrirspurn minni um með­ferð þessa máls.

Í sambandi við þessa þáltill., sem hér liggur fyrir og nú á að vísa til þessarar sömu hæstv. ríkisstj., leyfi ég mér því að leggja áherzlu ein­mitt á þetta.

Út af ráðagerðum hv. meðnm. míns og frsm. n. í sambandi við þetta mál ætla ég ekkert að segja að öðru leyti en því, sem hann drap á eina tegund handavinnu fyrir stúlkur á þessum skólum, „balderingar“. Ég teldi það afturför, ef afnema ætti fína handavinnu úr kvennaskólun­um. Hitt er ég á sama máli um og hv. frsm., að það sé kannske ekki heppilegt að hafa þetta skyldunámsgrein, því að það er misjafnt, hvað stúlkur eru handlagnar og hvað þær langar til að læra. En mér finnst ekki koma til mála annað en að þær stúlkur, sem langar til að læra þessa undurfögru saumaíþrótt, sem „baldering­in“ er, eigi þess kost.

Annað var það ekki, sem ég vildi segja út af því, sem hv. frsm. minntist á, og þar sem hann hefir verið talinn frjálslyndur skólamaður, þyk­ir mér líklegt, að hann samþ. þessa till. mína.