21.03.1938
Efri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (2901)

14. mál, mjólkurverð

*Guðrún Lárusdóttir:

Ég skal vera stuttorð, því að ég var búin að gera grein fyrir till. minni og hvað fyrir mér vakti, er ég bar fram viðbótarbrtt. við brtt. hv. 1. landsk. En það er nú svo langt síðan þetta mál lá fyrir þessari hv. d., að það liggur við, að maður sé farinn að ryðga í því. En húsmæðrafélagið hefir ekki gert það að hlutverki sínu að vera á móti því, þó að verð lækki á vörum, heldur kaupa húsmæður vörur þar, sem þær eru ódýrastar, og þar á meðal mjólk. Húsmæðrunum er ekki það þakkandi, þó þær hagnýti sér lágt vöruverð. En að því leyti, sem að þessu máli snýr, vildi ég segja þetta:

Hv. 1. þm. N.-M. heldur því fram, að undanrenna og áfir fáist hér á mjólkurmarkaðinum. Ég hefi ekki getað orðið vör við það. Ég veit að vísu, að ekki er ókleift að fá áfir, ef maður hefir allmikinn undirbúning, símar mörgum dögum áður en maður ætlar að nota þær í matinn, þá eru þær kannske til í þessari eða hinni mjólkurbúðinni, og kannske ekki. Það eru því líklega fleiri húsmæður en ég, sem hafa gefizt upp á því að útvega sér þessa fæðu. Ég hygg, að það yrði talsverð aukning fyrir mjólkursölu, ef meira væri til af þessari vöru á einum eða fleiri stöðum. En það er kannske afsakanlegt, þó að þessi vara sé ekki eins mikið á boðstólum á markaðinum eins og nýmjólk, þar sem flutningur á henni er tiltölulega dýr, eftir verði hennar. Ég hygg þó til bóta að gera tilraun með að auka sölu á þessari vöru. Og hv. 1. þm. N.-M. hefir góða aðstöðu til að sjá um, að með þetta verði gerð tilraun, og ég vil, að hann beiti sér fyrir því.

Mergur málsins í minni vatill. var í raun og veru það, að athuguð yrðu betur gæði mjólkurinnar yfirleitt. Ég hugðist að ná því með því að benda á þessa leið, flokkunina, þannig að það væru fleiri tegundir mjólkur á markaðinum heldur en tvær, gerilsneydda og ógerilsneydda mjólkin. Menn eru almennt óánægðir með báðar þessar tegundir. Margir hafa kvartað undan því, að mjólkin væri þunn. Þó að ég hafi keypt ógerilsneydda mjólk frá mjólkursamsölunni, sem ég og aðrar húsmæður telja betri en hina, og setji hana að kvöldi til og láti hana standa í íláti til þess að vita, hvort hún safni ekki rjóma á yfirborðið yfir nóttina, þá er svo langt frá því, að það votti fyrir rjóma ofan á henni að morgninum. Það kann að vera, að þetta stafi af þeirri meðferð, sem mjólkin hefir fengið, en ekki af því, að rjómann vanti í hana. Ég veit það ekki. En þetta er nú svona; og mér finnst þetta bera vott um, að mjólkin sé ekki góð. Aftur er öðru máli að gegna, þegar maður kaupir nýmjólkaða mjólk. Ef hún er sett að kvöldi, er komin rjómaskán ofan á hana að morgni, eins og tíðkaðist í sveitinni í gamla daga. Þetta veit ég, að mörgum þykir einkennilegt um mjólkina frá samsölunni, og vilja margir fá á þessu bætur. Þetta er eitt af því, sem Húsmæðrafélag Reykjavíkur hefir reynt að fá lögun á, en það hefir ekki getað gengið fyrir sig.

Það var í fyrstu ekki meiningin að hafa ógerilsneydda mjólk til á markaðinum. En þegar fólkinu mislíkaði, að þessi vara var ekki til á mjólkurmarkaðinum, þá komu háværar till. um, að hún yrði þar fáanleg, og hún kom svo á markaðinn. Við munum eftir læknisvottorðunum, sem ýmsir fengu um, að þeir þyrftu á ógerilsneyddri mjólk að halda. Ég fékk sjálf slíkt vottorð. Fór ég með það í margar búðir, en ógerilsneydd mjólk var þar ekki til.

Hv. 1. þm. N.-M. ætti að vera með í að stuðla að því, að athugaðir yrðu allir möguleikar, sem fyrir hendi eru til þess fyrst og fremst að mjólkin, sem við fáum, sé góð. Það er eðlilegur hlutur, að við gefum meira fyrir þá vöru, sem við erum ánægð með. Hvort hv. 1. þm. N.-M. telur þetta af óeinlægni mælt af húsmæðrum, get ég ekki vitað. En hér er um alvörumál að ræða, sem menn þurfa að taka saman höndum um að lagfæra. Það gengur ekki til lengdar að hugsa aðeins um annan aðiljann, en ekki þann, sem kaupir og ríður lífið á að hafa viðskipti við. Þó að hv. 1. þm. N.-M. hafi þá ákveðnu afstöðu nú þegar að vera á móti þeirri till. húsmæðrafél. að lækka mjólkurverðið, þá ætti hann samt að taka til greina hitt, sem húsmæðrafélagið fer fram á, að athugað verði, hvers vegna mjólkin þarf að vera svona þunn.

Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, fullyrði ég, að er samkvæm vilja almennings. Við meðferð málsins hér í hv. d. ætla ég ekki að segja neitt annað en það, að ég teldi skemmtilegra að samþ. þessa þáltill. og sýna með því yfirleitt vilja hv. þd. um það, að hún vilji láta málið til sín taka.