07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

131. mál, þegnskylduvinna

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þetta frv. er þannig til komið, eins og grg. ber með sér, að það var samþ. á búnaðarþinginu án ágreinings að koma á þegnskylduvinnu í sveitar-, sýslu- og bæjarfélögum við ræktunarstörf. Og sumir eru fylgjandi þegnskylduvinnu í víðtækara formi heldur en borið var fram á búnaðarþinginu. En þetta mál var sent til landbn., sem hefur breytt því í það form, sem það hefur nú, þannig að heimildin hefur verið gerð víðtækari í frv.

Nú heyri ég, að sumir finna það að þessu frv., að þar sé ekki gengið nógu langt í því að veita sveitar-, bæjar- og sýslufélögum þessa heimild. En ef það er vilji fyrir því hjá hv. þm. að ganga lengra og koma þegnskylduvinnu á almennt, og ef þeir vilja koma með brtt. um það, þá mundi ekki standa á mér að fylgja því máli. Ég álít beinlínis, að það ætti að gera þegnskylduvinnuna almenna, þó að ég búist ekki við fylgi fyrir því nú á þingi, eins og þegar hefur komið fram, og vafasamt, að meirihlutafylgi sé fyrir því hjá þjóðinni. Er sú ástæða fyrir því, að frv. hefur ekki komið fram um þetta, að ekki hefur verið leitað álits um það hjá þjóðinni. Og það er líka ástæðan til þess, að ekki hefur verið gengið lengra í þessu frv. en gert er.

Það hefur verið minnzt á það í sambandi við þetta frv., að það hefði nokkurn kostnað í för með sér úr ríkissjóði. Vitanlega hefur það nokkurn kostnað í för með sér. En það má ekki líta þannig á málið eins og gert hefur verið af einum hv. þm., að það sé horfandi í þann kostnað. Ef þjóðfélagið segði sem svo, — ég hef ekki efni á að leggja þetta og þetta í byggingu vega, íþróttavalla, ræktun skóga o. s. frv., ef þjóðfélagið segði, að það hefði ekki efni á þessu og legði þess vegna almenna þegnskylduvinnu á þegnana, þá væri grundvöllur til þess að standa í sambandi við það, sem haldið hefur verið fram. En þó að þegnskylduvinna væri lögleidd, mundi slíkt ekki vera nema kostnaður fyrir ríkissjóð. En sá kostnaður, sem ríkið leggur fram, er ekki nema örlítið brot af þeim kostnaði, sem mundi vera greiddur við vinnuna, ef hún væri öll borguð.

Við vitum vel, að þess vegna er frv. tekið upp í þessu formi, að áhugi fyrir þegnskylduvinnu er ákaflega misjafn í landinu. Í sumum héruðum í þessu landi má telja nokkurn veginn víst, að þegnskylduvinna mundi verða samþ. og innt af hendi, ef þessi heimild fengist.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, að þegnskylduvinna sé úrelt hugmynd og á eftir tímanum. En hún hefur e. t. v. ekki samræmi við þann aldaranda, sem nú ríkir. En við getum ekki lifað í þessu þjóðfélagi, ef sá andi ríkir ekki, sem þegnskylduvinnuhugmyndin er ávöxtur af. Við höfum ekki efni á því að leggja vegi, rækta skóga, byggja íþróttavelli og sundlaugar, vegna þess að þetta eru ekki arðvænleg fyrirtæki í bili. En þau eru til mikilla hagsbóta fyrir framtíðina og gefa þá sína peninga. Og ég sé ekkert á móti því að reyna að vekja áhuga hjá ungum mönnum, sem eiga að byggja þetta land og taka við því síðar, þótt þeir leggi þessa kvöð á sig. Og ef ekki er hægt að vekja slíka fórnfýsi í landinu, þar sem svo mikið er ógert af því, sem gera þarf, þá segi ég það og álít, að ég sé þar ekki með neinar hrakspár, að ef sá hugsunarháttur er ekki til og verður ekki hjá æsku þessa lands, þá munum við eiga erfitt með að byggja þetta land og þá má búast við, að þegnskylda verði lögð á í einhverri mynd, og þá í einhverri óþægilegri mynd heldur en með því að vekja þennan áhuga. En einmitt af því að áhuginn er ekki svo mikill, t. d. í kaupstöðunum, að meiri hluti þjóðarinnar hafi áhuga fyrir þegnskylduvinnunni, þá er það það eðlilegasta og rétta, að gefa þeim sveitum og bæjarfélögum, sem áhuga hafa fyrir þegnskylduvinnunni, heimild til þess að koma henni á hjá sér.

Það er vitað, að á Vestfjörðum hafa ungmennafélögin lifað gegnum allar þrengingar.

Á Vestfjörðum er mikill áhugi fyrir þegnskylduvinnu. En af því að hugsunarháttur inn er ekki nægilega þroskaður til þess að styðja Þegnskylduvinnuna almennt, þá er eina vonin til þess, að menn vilji leggja þetta á sig, að þeir, sem hafa áhuga fyrir þessu máli, fái tækifæri til þess að leggja þegnskylduvinnu á, enda þótt minni hlutinn sé því mótfallinn. Það má líkja þessu áhugaleysi fólksins við sandauðn, og þeir séu eins og óasar í sandauðn, sem hafa þann fórnarvilja, sem áhugi fyrir þegnskylduvinnunni sýnir. Ef hægt er að rækta upp sandauðnina út frá þessum óösum og vekja áhuga út frá þeim, þá er vel farið. Og ég hygg, að eins og sakir standa, sé þetta eina leiðin.

Það er líka tryggt, að þegnskylduvinnu verður ekki komið á nema þar, sem er tiltölulega almennur vilji fyrir, að það verði gert. Og hvað er á móti því fyrir hæstv. Alþ. að gefa slíka heimild til þess að koma þegnskylduvinnu á, þar sem almennur áhugi er fyrir að koma henni á og vantar ekki nema herzlumuninn, svo að út frá þeim stöðum komi vaxandi áhugi, svo að þegnskylduvinnan gæti orðið almenn? Ég hygg, að reynslan sé sú, að þar, sem unnin hafa verið störf af ungmennafélögum, og við vitum, að mikið var gert af því fyrr á árum, þó að það hafi minnkað nú í seinni tíð, — ég hygg, að ungmennafélögin hafi ekki unnið nein störf, sem þeim þótti ánægjulegri og skemmtilegri, og félagarnir hafi ekki lifað meiri ánægjustundir heldur en þegar þeir voru að vinna að sínum áhugamálum án þess að taka nokkuð fyrir, — og ég hygg, að þeir hafi ekki séð eftir þeirri vinnu. (JóhJón: Það var sjálfboðavinna). „Það var sjálfboðavinna“, er tekið fram í fyrir mér. En það er ætlazt til þess, að þegnskylduvinnu verði ekki komið á nema þar, sem vitað er, að áhuginn er svo mikill, að ekki vantar nema herzlumuninn. Ég áleit, að þessi heimild mundi ekki mæta neinni andstöðu í þinginu. Og mér finnst engin rök fyrir andstöðu þeirri, sem hún hefur mætt. Og að ríkisstj. hefur ekki komið fram með þetta mál fyrr, er af því, að það má telja vafasamt, að almennur vilji sé um þetta í landinu. Ég vil þess vegna, þó að ég sé óánægður með þetta frv., vegna þess að það gengur allt of stutt, mæla með samþ. þess.