18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (5504)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti. — Fyrirspyrjandi beindi tveim fyrirspurnum til mín, og skal ég leyfa mér að svara þeim, eftir því sem efni standa til.

Fyrirspyrjandi orðaði þannig fyrirspurn sína, hvernig ég eða lögreglustjóri ætluðum að svara tilboði Alþýðusambandsins um stofnun sérstaks hers til aðstoðar lögreglunni.

Ég ætla, að hér gæti nokkurs misskilnings í þessari fyrirspurn, ef ég hef þetta rétt eftir, sem ég held, að ég geri. Dagsbrún hefur í fyrradag sent lögreglustjóra bréf, sem kom til hans í gærmorgun, þar sem félagið tilkynnir honum, að það hafi tilnefnt hundrað menn úr hópi félagsmanna sinna, sem eftirlit eigi að hafa með eftirfarandi verkefnum:

1) Hafa vinsamlega samvinnu við lögreglu Reykjavíkurbæjar um eftirlit með framkvæmd ákvæða vinnulöggjafarinnar og ákvarðana félags vors varðandi væntanlegt verkfall.

2) Skrásetja nöfn þeirra manna, er gerast kynnu brotlegir við ákvarðanir félags vors eða vinnulöggjöfina.

3) Sjá um, að verkfallið fari fram skipulega og á friðsamlegan hátt.

Það er að vísu, eftir því sem ég bezt veit, í fyrsta skipti, sem stjórn þessa félags beinlinis tilkynnir lögreglustjóra, að það ætli sér að setja eftirlitsmenn, eða ég minnist ekki, að það hafi verið gert áður, en hins minnumst við allir, að bæði hér og annars staðar útnefna þau félög, sem ætla að koma á verkfalli, menn til þess að halda vörð, bæði á vinnustað og annars staðar, til þess að afstýra því, að vinna, sem brýtur í bága við verkfallið, verði framkvæmd. Ég geri ráð fyrir, að ég þurfi ekki að fara nánar út í þetta, því það er alkunnugt, að stéttarfélög, sem framkvæma verkföll, reyna að hafa hemil og gætur á mönnum, sem reyna að brjóta verkfallið, svokölluðum verkfallsbrjótum eða „skrúfubrjótum“. Mér virðist þess vegna, að hingað til hafi ekki verið gert hér neitt fram yfir það, sem venja er, annað en það, að lögreglustjóri var látinn vita, hvað gert hefur verið. Mér virðist ekki ástæða til að kalla þetta lið her, eins og málið horfir nú við, ég lít ekki svo á það, heldur verð ég að taka bréfið eins og efni þess segir til um, að félagið hafi sett upp eftirlitsmenn, til þess að hafa samvinnu við lögregluna og eftirlit með því, að verkfallið fari skipulega fram og á formlegan hátt.

Eftir viðtal við lögreglustjóra, hefur okkur ekki sýnzt ástæða til að gera neitt sérstakt út af þessu. Eins og kunnugt er, þá eru fyrirmæli í lögum um það, að lögreglumenn skuli ekki hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda uppi friði, eins og það er orðað í 4. gr. l. frá 1940.

Ég skal endurtaka það, að stjórnin sér ekki ástæðu, að svo komnu máli, til að gera neinar sérstakar ráðstafanir eða að hefjast handa út af þessu atriði. En það vill svo vel til, að Alþ. situr nú, og þá getur það, ef því sýnist, sett stjórninni einhver fyrirmæli, ef svo til heyrir.