26.11.1948
Efri deild: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (3481)

75. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Frv. þetta snertir eigi stjskr. að öðru leyti en því, hvernig henni verði breytt í framtíðinni. Hefur svo til gengið, að henni hefur fyrst verið breytt af Alþ., síðan kosningar látnar fara fram, þar sem menn eiga að láta uppi álit sitt um breyt., fella menn frá þingsetu, ef þeim líkar þetta eigi, en síðan verður hið nýkjörna þing að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna. M.. ö. o. verður Alþ. að samþykkja hana á tveim þingum. Kallað er, að þessi aðferð eigi að tryggja, að stjskr. verði í sem mestu samræmi við vilja þjóðarinnar, en trygging er þó engin fyrir því, að svo verði. Kemur það af því, að er kosið er, er kjósandinn um leið að kjósa þm. til næstu fjögurra ára. Verður hann því að ákveða, hvort hann vilji fremur kjósa þann mann, sem er honum sammála um stjskr.-breyt., en lítt á hans máli í öðrum málum, eða hinn, er nálgast skoðanir hans á öllum öðrum málum en stjskr. Verður kjósandinn að gera upp við sjálfan sig, hvorn frekar eigi að kjósa, — hvort hann vilji fremur kjósa þann, sem verði honum andstæður, á þing næstu 4 árin. Af þessum rökum er það alveg rökrétt, að engin trygging sé fyrir því annars vegar, að stjskr. verði sett í samræmi við vilja landsmanna, en hins vegar undir hælinn lagt, hvort meiri hl. Alþ. hafi þjóðina að bakhjarli til að breyta stjskr. Kjósandinn verður því að hræra almennum málum saman við stjskr.-málið. Þess vegna legg ég til, að hætt verði að breyta stjskr. á þennan veg. Er það vilji minn, að stjskr. verði sett á þann hátt, að sem tryggilegast sé, hún verði í samræmi við þjóðarviljann, og nefnir þar til sérstakt stjórnlagaþing, er komið verði á laggirnar og hafi engu að sinna nema breytingum á stjskr. Er þetta aðalefni frv.

Hitt er minna um vert, hvort menn þeir, sem kjörnir eru til stjórnlagaþings, séu fleiri eða færri. Hef ég nefnt til 24 talsins, en þeir gætu mín vegna allt eins verið 100. Þó vil ég auðvitað ekki, að kosnir verði aðeins 3–5 eða 500–600. M. ö. o., tala kjörinna fulltrúa er aukaatriði í málinu. — Annað aðalatriði er það, að fulltrúar séu kjörnir þannig, að meiri hluti þjóðarinnar standi að baki meiri hluta fulltrúanna. Því vil ég, að þeir séu „kosnir almennum kosningum í eins manns kjördæmum, og séu þau sem líkust að mannfjölda.“ Hér er miðað við 24. En veldu menn einhverja aðra tölu, þá yrði að gæta þess, að fólksfjöldi kjördæmanna, hvers eins, yrði sem jafnastur, en tala kjördæma breyttist eftir tölu þingmanna. Meiri hluti kann að verða lítill á hverjum stað, en með þessari tilhögun yrði þó meiri hluti þjóðarinnar, er stæði að allsherjar meiri hlutanum, sem kosinn yrði. — Þriðja aðalatriðið er það, að frá því er ákveðið er þetta fyrirkomulag og til þess er kosið verður til stjórnlagaþings líði nokkur tími. Er nauðsynlegt, að mönnum sé gefinn kostur á að ræða málið alhliða, svo að skoðanir þeirra fái að njóta sín. Sannleikurinn er nefnilega sá, að það hefur ekkert verið gert til að fræða þjóðina um ýmiss konar sjónarmið, er hljóta að liggja til grundvallar breytingum á stjskr., jafnvel þótt verið sé að tala um nauðsyn á breyt. og búið sé að skipa fleiri en eina n. til endurskoðunar á stjskr. Helzt hefur verið unnið í þessa átt á Austurlandi, og þar er þetta í hvers manns munni, að ekki eigi að blanda stjskr.málinu saman við önnur mál. En lítið hafa menn gert til að afla þeirri skoðun fylgis, að ekki eigi að breyta stjskr. nema á sérstöku stjórnlagaþingi. Ég legg því til, að beðið verði um hríð með kosningar til þessa stjórnlagaþ., svo að almenningi gefist kostur á að kynna sér skoðanir í málinu og menn geti svo skipt sér í sérstaka flokka eftir því. Geri ég ráð fyrir, að kosningarnar færu fram árið 1951 og þar næst yrði svo stjórnlagaþingið háð. En hugsazt gæti, að þrátt fyrir það að menn yrðu kosnir til þingsins á fyrrgreindan hátt í einstöku kjördæmum og næðu meiri hlutanum með sér, þá kæmu upp margar stefnur, engin þeirra hefði ein hreinan meiri hluta á bak við sig og sköpuðust þannig samsteypur á stjórnlagaþinginu. Því eru sett í frv. ákvæði þess efnis, að þjóðin greiði atkv. um stjórnarskrárbreytinguna að nýju og því aðeins verði hún að l., að meiri hl. þjóðarinnar þá tjái sig henni samþykkan. Þessar brtt. eiga að víkja málinu að þeim kjarna málsins, að tryggja beri, að stjskr. sé í samræmi við vilja þjóðarinnar: En það er eigi hægt með núverandi fyrirkomulagi, þar sem stjskr.-málinu er blandað saman við fjölda annarra mála. Þeir, sem vinna eiga að endurskoðun stjskr., hafa enga hugmynd um, hvað á að gera. Og ég er í vafa um, hvort til séu nema sárafáir menn hér á þingbekkjunum, er látið hafa uppi álit sitt um breyt. á stjskr. eða fengið umboð til þess frá kjósendum sínum. En ég vil hafa sérstakt stjórnlagaþing og það annist aðeins breyt. á stjskr. Og mér finnst, að sú eina breyting, sem kæmi til mála, sé að ákveða það, að stjskr. verði breytt á sérstöku stjórnlagaþingi, og að svo verði um hnútana búið, að breytingarnar verði þá í samræmi við þjóðarvilja.

Ég geri ráð fyrir, að frv.fari til n. Hins vegar hef ég ekki gert mér miklar vonir um samþykki Alþ. Mér hefur skilizt, að fjöldinn allur af þm. kæri sig ekki um að fela þetta neinum öðrum og vilji sjálfir ráða breytingum á stjskr., og líklegt, að frv. færi þá ekki lengra en til n. En ég geri mér þó vonir um, að þetta kunni að opna augu einhverra fyrir nauðsyn þess, að það sé tryggt, að stjskr. verði breytt í samræmi við þjóðarvilja. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til allshn.