29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (4407)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að í 6 ár hef ég kviðið þeirri stundu, að það mundi koma fyrir, að þess yrði krafizt af Íslendingum, sem nú er verið að gera. Og ég hef á þessum tíma reynt að gera það, sem ég hef getað, til þess að vara mína þjóð við því, sem nú er ætlazt til af henni. Ég vil vona það, að hver einasti alþm., sem greiðir þessari till., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fyrir, atkv., hann geri það í meðvitund þess, að hann geti lagt líf sitt og æru við, að það sé rétt gert, sem hann gerir, og að hann hafi grandskoðað gagnvart samvizku sinni það verk, sem hann þar með fremur. Þegar líf og öryggi okkar þjóðar er í veði, þá er áreiðanlega ekki til of mikils mælzt af okkur alþingismönnum, að við reynum að gera okkur ljóst, hvað það er, sem um er að ræða, og að við séum, hver og einn, vissir um, að það séu ekki hafðar í frammi í þessu máli neinar blekkingar, að það sé ekki verið að leyna okkur upplýsingum og heldur ekki verið að segja okkur rangt til um það. Ég álit, að það sé á ábyrgð hvers einasta okkar þm. að upplýsa þetta mál, sem hér liggur fyrir, aðdraganda þess og hugsanlegar afleiðingar, þannig til hins ýtrasta, að enginn maður, sem samþ. sáttmálann, hafi á eftir þá afsökun gegn þjóðinni, að hann hafi ekki vitað, hvað hann gerði, þegar atkv. voru greidd. Ég fyrir mitt leyti mun leggja fram það lítið, sem ég get, til þess að sjá um, að það þurfi enginn sá þm., sem vil athuga báðar hliðar á þessu máli, að hafa þá afsökun eftir á, að hann hafi ekki vitað, hvað hann gerði.

Mér kom það satt að segja á óvart, að ríkisstj. skyldi ekki, strax og hún kom frá Ameríku, kalla saman Alþ. og gefa skýrslu um málið. Það hefði hver einasta ríkisstj. önnur gert undir sömu kringumstæðum. Mér kemur það enn þá meir á óvart, að hæstv. utanrrh. skuli nú hafa haldið hér 10 mínútna framsöguræðu og hafa sagt við alþm., að á 4 klst., þar sem stjórnarandstaðan hafði ¼ tímans til þess að ræða vantraust og stj. hafði ¾ tímans til þess að ræða þetta mál, þá hafi þetta mál verið upplýst til fullnustu fyrir þjóðinni. Og mig furðar það ábyrgðarleysi, að nokkur ríkisstj. skuli koma fram fyrir Alþ. og ætlast til þess, að það afgreiði málið á slíkan hátt.

Hér er um mál að ræða, sem í raun og veru gerbreytir stjórnarháttum okkar Íslendinga, ekki bara eins og þeir hafa verið síðustu 5 árin, síðan við stofnuðum lýðveldið, heldur eins og þeir hafa verið frá því, að við stofnuðum þjóðríki hér á þessari eyju. Við Íslendingar höfum verið friðarþjóð, aldrei farið með stríð á hendur annarra þjóða og aldrei skuldbundið okkur til þess samkvæmt samningum að gera slíkt eða látið okkar land fyrir fram til slíkra hernaðarafnota. Nú er lagt til í einni svipan að gera hér algera breytingu á, að breyta okkur úr því að vera hlutlaust friðarríki í það að vera þátttakendur í hernaðarbandalagi, í það að verða raunverulegt herríki, hvort sem við sjálfir getum víggirt okkar land og hertygjað okkar þjóð eða aðrir flytja inn menn til þess. Það er verið að gera hér stærri breytingu á okkar þjóðlífi en nokkurn tíma hefur verið gert á þeim þúsund árum, sem landið hefur verið byggt. Ég mun nú reyna af veikum mætti að færa fram nokkur rök fyrir því, að þetta mál þurfi að athuga alvarlega og frá fleiri en einni hlið, áður en nokkur ákvörðun verður um það tekin.

Það hefur komið til okkar kasta á Alþ. áður að taka ákvörðun í öðru máli og segja til um það, hvort við ætluðum með fúsum vilja Alþ. að stofna til þess fyrir fram, að Íslendingar yrðu þátttakendur í hernaðarbandalagi. Þegar við Íslendingar gengum í Sameinuðu þjóðirnar, lá það fyrir, hvort við Íslendingar mundum vilja veita Sameinuðu þjóðunum herstöðvar hér á ófriðartímum. Í l. Sameinuðu þjóðanna er ákveðið, að svo framarlega sem stríð sé eða stríðshætta að áliti öryggisráðsins, þá skuli öryggisráðið fara fram á, að þjóðirnar, sem Sameinuðu þjóðunum tilheyra, skuli taka þátt í hernaðaraðgerðum og leyfa sín lönd til slíks. Til þess að Sameinuðu þjóðirnar geti lýst því yfir, að um stríðshættu sé að ræða, þarf öryggisráðið og öll stórveldin að vera sammála um það, og í öðru lagi þarf að vera upplýst, að þjóðirnar séu sammála gagnvart einum friðarbrjót, og þá er um það að ræða að beita hann hernaðaraðgerðum. Við vissum, þegar við ræddum þetta mál þá, að það gat aðeins komið til mála, að öll stórveldin og meiri hluti öryggisráðsins yrðu sammála um, að einhver þjóð gerðist brotleg við Sameinuðu þjóðirnar. Hvað ákváðum við engu síður hér á Alþ.? Við samþ. með sameiginlegri yfirlýsingu allra flokka í utanrmn. eftirfarandi ályktun, sem prentuð er í nál. utanrmn. um till. til þál. um inntökubeiðni Íslands í Bandalag hinna sameinuðu þjóða.

„Einna þýðingarmest ákvæðanna um skyldur og kvaðir er 43. gr. sáttmálans. Sú grein áskilur meðlimum samningsrétt við öryggisráðið um kvaðir skv. greininni, og leggur n. þann skilning á ákvæðið, að engar slíkar kvaðir sé unnt að leggja á íslenzka ríkið, nema að fengnu samþykki þess sjálfs. Íslendingar eru eindregið andvígir herstöðvum í landi sínu og munu beita sér gegn því, að þær verði veittar.“

Við hvað átti þetta? Þetta átti við það, að svo framarlega sem Sameinuðu þjóðirnar og öll stórveldin lýstu yfir styrjöld við einn friðbrjót og að þá yrði farið fram á það við okkur, að við létum okkar land fyrir herstöðvar, þá tilkynntum við Íslendingar, að við neituðum að láta slíkar herstöðvar í té á ófriðartímum. Þetta var afstaða Alþingis 1946, og þetta er í samræmi við afstöðu þjóðarinnar. Við Íslendingar höfum neitað því og tilkynnt Sameinuðu þjóðunum það fyrir fram, að það kæmi ekki til mála, að landið yrði léð á ófriðartímum móti neinu ríki, sem bryti friðinn. Hvað er farið fram á nú? Það er farið fram á það, að við lýsum því yfir, að við viljum lána herstöðvar á stríðstímum og veita aðstoð á friðartímum, svo að vægt sé tekið til orða. Að við viljum gera þetta, þó að öryggisráðið sé á móti slíku og þó að það sé gert á móti vilja Sameinuðu þjóðanna. Að við viljum gera slíkt, þótt árásarríkið, sem þarna ætti hlut að máli, væri bandalagsríki Íslands, og að við vildum gera slíkt, þó að af því leiddi, að tortíming vofði yfir þjóðinni. M. ö. o., það á með þeirri till., sem ríkisstj. nú hefur lagt fyrir Alþ., að kúvenda algerlega frá því, sem Alþ. sjálft ákvað í júlí 1946. Það á að gerbreyta þeirri stefnu, sem hefur verið stefna Íslands fram til þessa dags. Það á að veita ákveðnu bandalagi og ákveðnu ríki, sem býr sig undir árás, aðstöðu á Íslandi, sem við Íslendingar mundum neita Sameinuðu þjóðunum um. Það er vert, að menn geri sér það alveg ljóst, hversu gífurleg stefnubreyting það er, sem hér er um að ræða, og að slík stefnubreyting á ekki að verða tekin í neinu landi, án þess að menn hafi fyrir fram gert sér það ljóst, hvaða afleiðingar mundu af því hljótast. Við skulum athuga, hvaða afleiðingar mundu hljótast af samþykkt sáttmálans, eins og þetta liggur fyrir nú, í friði og í stríði, og við skulum athuga, hvað sú stefnubreyting, sem nú í einu vetfangi á að knýja fram, mundi þýða fyrir okkar þjóð. Við skulum athuga, hvað það þýðir fyrir Ísland að breytast úr því að vera yfirlýst friðarríki og eina ríkið í heiminum, sem byggir sína tilveru og sitt traust á virðingu mannanna fyrir rétti hvers annars til frelsis, og ætla svo að fara að byggja sína tilveru á vopnavaldi og fallvaltleika þess. Við skulum fyrst athuga það, hverjar afleiðingar þetta, sem hér er lagt til að gera, mundi hafa fyrir okkur meðan friður héldist. Hvað mundi þetta þýða, í fyrsta lagi fyrir menningu og þjóðerni okkar Íslendinga? Við höfum áður gert samning við eitt stórveldi, Bandaríki Norður-Ameríku, samning, sem átti að þýða það að veita því ríki vissa aðstoð og réttindi hér á friðartímum. Hvað sjáum við í sambandi við framkvæmd þessa samnings? Við sjáum spillinguna, sem er að skapast kringum þau áhrif og yfirráð, sem Bandaríkin eru að sölsa undir sig hér á Íslandi, og sem í krafti þessa samnings er að gegnsýra okkar þjóðlíf og spilla þjóðinni. Við höfum fengið reynsluna fyrir því, að Bandaríkin hafa fært sig upp á skaftið í sambandi við framkvæmd þess samnings, og nú liggur fyrir okkur að dæma um þetta. Það þýðir m. ö. o., að takist að fá þennan sáttmála samþ., sem liggur fyrir hér í dag, verður sótt á í framkvæmd samningsins, eins og sótt hefur verið á rétt og lög Íslands við framkvæmd Keflavíkursamningsins. Þessi sáttmáli, sem er hér lagt til að samþykkja, verður eftir örskamma stund orðinn pappírsblað, þar sem framkvæmdirnar sjálfar á samningnum eru orðnar aðalatriðið, en samningurinn ekki neitt, eins og Keflavíkursamningurinn er í dag, Keflavíkursamningurinn, sem átti að tryggja það, að Bandaríkjamenn færu burt héðan og Íslendingar fengju alger yfirráð yfir þessu landi. Þetta þýðir það, að það vald; sem hefur fengið hér ítök, mundi margfalda þau og við það mundu skapast fleiri og meiri möguleikar á að gegnsýra og spilla okkar þjóðlífi og þjóðerni. Fyrir okkur Íslendinga mundi þetta þýða það, að okkur væri stofnað í háska. Nú þegar er auðséð, hvert stefnir með slíkt, og séu til þeir Íslendingar, sem enn loka augunum fyrir, hvert stefnir, þá fæ ég ekki skilið, hvernig þeir hugsa um framtíð okkar. Í öðru lagi; hvernig er útlitið með okkar viðskiptamál og fjárhagslegt sjálfstæði okkar? Hvernig er útlitið með þá hluti í friði, með áframhaldi þeirrar pólitíkur, sem undanfarið hefur verið rekin, og auðsjáanlega mundi koma til með að kreppast gífurlega við samþykkt þessa sáttmála? Það, sem hefur gerzt undanfarin 2 ár, með þeirri pólitík, sem ríkisstj. hefur rekið, er það, að það er verið að beygja Ísland aftur undir það arðrán einokunarhringanna engilsaxnesku, sem við vorum undirorpnir milli síðustu. styrjalda. Aðstaða okkar Íslendinga eftir stríðið, sem skapaði okkur betri efnahagsleg kjör en við höfðum áður, fólst í því, að við gátum verzlað til austurs og vesturs. Við gátum unnið stórkostlegri markaði en við höfðum nokkurn tíma haft áður, með viðskiptum við Austur-Evrópu. Hvað er það, sem nú hefur gerzt á þessum tveimur árum, undir stj. þeirrar ríkisstj., sem nú situr? Viðskiptasamningum hefur verið slitið. Ég veit ekki, hvort allir hv. þm. hafa gert sér það ljóst, hvernig komið var í árslok 1945 viðvíkjandi dollarainnstæðum okkar. Þá voru engir dollarar til, til frjálsra viðskipta á Íslandi, nema á nýbyggingarreikningi, engir aðrir en þar voru settir til hliðar, til þess að kaupa fyrir nýsköpunartæki. Þeir dollarar, sem Íslendingar fyrst og fremst höfðu á árunum 1946–47, stöfuðu að mjög miklu leyti frá viðskiptunum við Austur-Evrópu. Á árunum 1946–47 seldu Íslendingavörur aðeins til Sovétríkjanna fyrir upp undir 110 millj. dollara og keyptu sjálfir vörur þaðan fyrir 14–15 millj. dollara. Það voru hagstæðustu viðskipti, sem Íslendingar höfðu haft. Þetta voru heiðarleg viðskipti. Þarna vorum við sjálfir að vinna fyrir okkur með því að framleiða góða vöru og selja hana við góðu verði, og þarna voru. möguleikar til þess að halda áfram þessum viðskiptum. Hvað hefur svo gerzt í okkar viðskiptamálum upp á síðkastið? Það hefur gerzt, að núverandi ríkisstj. þiggur dollaragjafir frá Bandaríkjunum. Það er farið að múta Íslendingum með dollurum, sem þeir fá ekki aðstöðu til að vinna sér inn á heiðarlegan hátt. Það er farið að sletta í Ísland gjöfum, eins og til þess að hafa það gott. Við erum settir úr þeirri aðstöðu, að við framleiðum vöru og seljum á frjálsum markaði, og settir í þá aðstöðu að þurfa að vera fátækir og markaðalausir aumingjar, sem verða að biðja Bandaríkjamenn um dollara til þess að geta framfleytt okkur. Hver hveitipoki, sem kemur á hafnarbakkann hér, er merktur með Marshallmerki, til að sýna, að þessi matur eru Marshallgjafir frá Ameríku. Hv. þm. S-Þ. lagði einu sinni til, hér á Íslandi, að styrkþegar í Reykjavík væru látnir bera sérstakan búning, til þess að hægt væri að sjá á því, að þessir menn yrðu að þiggja styrk hjá því opinbera, til þess að hver maður sæi, að þeir væru fátækir og gætu ekki framfleytt sér sjálfir. Nú er verið að klæða Íslendinga í slíkan þurfalingabúning og merkja gjafir handa okkur, svo að allur heimurinn sjái, að við getum ekki lengur framfleytt okkur sjálfir. Þetta eru verk ríkisstj., sem í tvö ár hefur unnið markvisst að því að koma atvinnulífi okkar í öngþveiti, eyðileggja viðskiptamöguleika okkar og fjárhag okkar. Þegar búið er að koma okkur í svona ástand með skemmdarverkum, er okkur sagt að biðja Bandaríkin um dollara, svo að við getum lifað. Svona á að eyðileggja hið stjórnmálalega frelsi Íslands, eftir að stj. er búin að eyðileggja okkar efnahagslega frelsi. Samtímis fáum við tilkynningu frá þeim ríkjum, sem sagt er, að við eigum að vera í bandalagi við, hvernig þau ætli að fara með okkur viðskiptalega. Bretland segist ætla að minnka fiskinnflutninginn úr 300 þús. tonnum niður í 110 þús. á árinu 1952. Þannig ætlar það að skera niður meginið af fiskútflutningi okkar til Bretlands. Þetta eru tilkynningar, sem hæstv. stj. veit um á sama tíma og reynt er að telja Íslendingum trú um, að okkar efnahagslega öryggi sé tryggt með því að ganga í bandalag við þessar þjóðir. Þarna er verið að búa okkur undir að kverka okkur efnahagslega, setja okkur í sömu aðstöðu og þegar hæstv. núverandi menntmrh. var að fara betliferðir til Englands og lofa því og skrifa það í vasabókina sína, að íslenzka ríkið skyldi ekki ganga í neinar nýjar ábyrgðir. Hann varð að lofa því, að brezkir bankar skyldu hafa eftirlit með fjármálum Íslands og íslenzkum samningum út á við. Það er verið að koma okkur í þessa aðstöðu með samstarfi við ríkisstjórnir þessara landa, sem við eigum nú að ganga í hernaðarsamband við. Við Íslendingar höfum verið nýlenduþjóð. Við höfum verið undir Dönum. Við vorum ekki spurðir, hvað við okkur ætti að gera. Við höfum verið hræddir af auðhringum Bretlands. Við höfum orðið að búa við það, að þeir hafa sópað til sín ágóðanum af erfiði íslenzkra sjómanna og brezkir bankar hafa látið okkur greiða okurvexti. Nú á að setja öll þessi höft á okkur aftur. Við Íslendingar vorum árið 1944 og næstu ár á eftir efnahagslega og stjórnmálalega sjálfstæð þjóð. Það eina, sem okkur vantaði, var að fá burt þann útlenda her, sem hér var. Nú er það fangaráð þeirra manna, sem eru umbjóðendur Bandaríkjastjórnar, en ekki íslenzku þjóðarinnar, að leiða okkur inn í hernaðarbandalag. Í tvö ár hefur verið unnið markvisst að því að koma okkur í þá aðstöðu, að við yrðum hrædd nýlenduþjóð, sem lifði á sveitarframfæri frá Wall Street.

Við skulum gera okkur alveg ljóst, hvað það er, sem um er að ræða á þessum svo kölluðu friðartímum, sem nú eru, og hvað bíður okkar. Það er talað um kalt stríð nú sem stendur. Mér sýnist, að það kalda stríð sé ekki það kalda stríð milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, það er stríð auðhringa Bandaríkjanna móti verkalýðshreyfingu verkalýðsins í Evrópu. Þetta kalda stríð er það, að bandaríska auðvaldið er efnahagslega, stjórnarfarslega og hernaðarlega að leggja undir sig löndin í Vestur-Evrópu. Þessi lönd eru illa farin eftir síðasta stríð, þó að langt sé frá því, að þau séu eins illa farin og Mið- og Austur-Evrópa. Þau eru hins vegar illa farin í samanburði við Bandaríkin, sem komu með stórgróða út úr stríðinu. Hvernig haga Bandaríkin sér gagnvart þessum bandamönnum sínum, sem færðu svo miklar efnahagslegar fórnir og mannfórnir? Bandaríkin lögðu ekki meira á sig hlutfallslega en við Íslendingar. Það er lærdómsríkt fyrir okkur Íslendinga, þegar við erum að reyna að gera bandalag við Bandaríkin, að athuga, hvernig fara á með þá, sem fórnirnar færðu: Englendinga, Frakka, Hollendinga og Belgíumenn. Þessar þjóðir færðu fórnir. Þessar þjóðir töpuðu. Bandaríkjamenn græddu 50 þús. millj. á stríðinu. Bandaríkjamenn hafa farið þannig að við þessar þjóðir, að þeir hafa notað sér neyð þeirra til að ná á þeim tökum efnahagslega. Bandaríkin, sem komu auðug út úr stríðinu, hafa níðzt á Englandi, Frakklandi og Vestur-Þýzkalandi, Auðhringarnir bandarísku hafa náð valdi yfir framleiðslutækjum í þessum löndum og eru að eyðileggja þau efnahagslega. Þeir hafa náð undir sig atvinnulífinu í Vestur-Þýzkalandi. Bandarísku auðhringarnir stjórna nú og ráða yfir öllum útflutningi frá belgíska Kongó, sem er mesta úraníum útflutningsland heimsins, en það efni er notað í atómsprengjuna, svo að jafnvel Belgíumenn sjálfir geta ekkert úraníum fengið til rannsókna handa sjálfum sér frá eigin nýlendum. M. ö. o., auðvaldið bandaríska hefur notað sér neyð bandalagsþjóðanna til þess með þessu kalda stríði að leggja efnahagslega undir sig þessar þjóðir og ná efnahagslega tökum á þeim. Eftir þessi efnahagslegu yfirráð, sem bandaríska auðvaldið er að ná, eiga svo að koma hernaðarleg ítök og yfirráð. Bandaríska stjórnin er að ná tökum yfir öllum þessum ríkjum og ætlar sér að ráða, hvað þessi ríki gera. Við þekkjum svona kalt stríð frá tímum síðasta stríðs. Þær aðferðir, sem Bandaríkjastjórn er að nota til að leggja þannig lönd og þjóðir undir sig, eru samsvarandi aðferðir og þær, sem Hitler notaði til að leggja hvert land Evrópu á fætur öðru undir sig. Hitler notaði sér aðstöðu auðmannastéttanna í viðkomandi löndum. Þýzka auðvaldið náði bandalagi við hverja auðmannastétt í hverju landi Mið- og Vestur-Evrópu á fætur öðru. Það er sú aðferð, sem nú endurtekur sig hjá Bandaríkjunum. Þau eru með þessu móti að ná efnahagslegum og hernaðarlegum yfirráðum yfir hverju landi Evrópu á fætur öðru. Ísland er eitt herfangið í þessum landvinningahernaði Ameríkuauðvaldsins. Þau brögð, sem við Íslendingar höfum verið beittir af hálfu Bandaríkjastjórnar, Marshallsamningurinn, sem núverandi ríkisstj. gerði og nú er að koma efnahag Íslands á vonarvöl, er að gera okkur að betlilúkum gagnvart bandaríska auðvaldinu. Hernaðarsamningur sá, sem hér liggur fyrir, er áfangi að sama marki, að gera þetta land eins og önnur lönd, sem Bandaríkin ná tökum á, að undirlægjum Bandaríkjaauðvaldsins. Þannig á, meðan svo kallaður friður helzt, með köldu stríði að leggja undir ameríska auðvaldið hvert landið á fætur öðru til að geta undirbúið sig efnahagslega, stjórnarfarslega og hernaðarlega undir þá styrjöld, sem auðhringarnir í Wall Street nú heimta.

Þá skulum við í öðru lagi athuga: Hvað þýðir þetta fyrir okkur, ef sú styrjöld hefst, sem auðhringarnir í Bandaríkjunum tala nú um og heimta og virðast líta á sem næstum því betra en frið, því að þeir virðast óttast friðinn meira en stríð, sem ef til vill er skiljanlegt, því að þessir auðhringar hafa grætt á styrjöld? Þessir auðhringar, sem eru stærstu vopnasalar heimsins, hafa grætt á styrjöld. Þetta hefur sýnt sig í því, að þegar friður hefur verið, þá hafa þeir ekki getað stjórnað þessu ríkasta landi veraldar eins og Ameríku án þess að leggja það í bönd kúgunar og kreppu eins og þeirrar, er byrjaði 1929. Hvað mundi það þýða fyrir okkur, ef þessum auðhringum Bandaríkjanna, þessum kaupmönnum dauðans, tækist að koma á því stríði, sem þeir vilja? Við Íslendingar erum ekki vanir að hugsa um stríð út frá því sjónarmiði, að slíkt stríð kæmi raunverulega við okkur. Það eru varla nema sjómennirnir okkar, sem vita, hvað stríð er, og þeir, sem hafa búið þar, sem þeir hafa nótt eftir nótt heyrt sprengjurnar falla allt í kringum sig og vita af eigin raun, hvað það er að liggja undir sprengjuárásum. Enginn Íslendingur hefur þó kynnzt þeim, eins og þær mundu verða nú með þeirri fullkomnustu tækni Bandaríkjanna. Við erum ekki vanir því Íslendingar að hugsa um stríð út frá því sjónarmiði, að það sé Ísland, sem sé í miðju stríðsins, eða Ísland sé þátttakandi í stríði. Og fyrir okkur alþm., sem stj. heimtar nú af, að við tökum ákvörðun um þetta mál, að því er virðist án þess að spyrja þjóðina, má það ekki vera dulið, hvað stríð þýðir, ef það nú ætti að verða það sorglega hlutskipti þessa þings að draga íslenzku þjóðina vitandi vits inn í fyrstu heimsstyrjöldina, sem háð hefur verið um Ísland og yfir Íslandi. Við skulum gera okkur ljóst, — því að með það hefur ekki verið farið neitt leynt af hálfu þeirra, sem hafa talað fyrir þessu máli, sem hér liggur fyrir, að sú styrjöld, sem þeir tala um, væri styrjöld milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, tveggja mestu hervelda heimsins, fyrst og fremst, — við skulum gera okkur ljóst, hvað slík styrjöld mundi þýða fyrir okkur. Það hefur mikið verið skrifað um slíkt stríð, ekki sízt af hálfu Bandaríkjamanna, og enginn dregið dul á, að ef slíkt stríð kæmi, mundu herir Ameríku og Evrópu standa við Atlantshaf, báðum megin, áður en margar vikur væru liðnar. Bandaríska herstjórnin mun gera allar sínar ráðstafanir út frá því, að þær stöðvar, sem helzt gætu haldizt í Evrópu, þegar nokkrar vikur væru liðnar, væru Ísland, England og Pýreneaskaginn. Ég var nýlega að lesa bók eftir tvo ameríska menn, sem er skrifuð frá sjónarmiði Ameríku. Þeir gera ráð fyrir, að það muni koma til stríðs milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, eins og þeir kalla það. Þeir lýsa því, að þegar fimm ár eru liðin af styrjöldinni, þá muni Bandaríkjastjórn gera sínar ráðstafanir til að koma á algeru stríði og búa út plan fyrir næstu fimm ár styrjaldarinnar. Þeir ganga út frá því, að styrjöldin muni getað staðið áratugum saman. Þar eru dregnar upp nokkrar myndir, hvernig þeir hugsa sér gang styrjaldarinnar þessi fyrstu fimm ár. Þeir lýsa því, hvernig Bretland á þriðja ári tapar og brezka þjóðin yrði að gefast upp vegna sprengjuárása frá meginlandinu. Þarna er lýst með amerísku raunsæi, hvað væri í vændum, ef til stríðs kæmi, og við getum séð í hendi okkar, hvernig staða Íslands væri, þegar þannig væri komið í styrjöld, hvernig Ísland væri þá orðin aðalherstöð bandaríska hervaldsins til árása á meginland Evrópu. Við skulum þess vegna gera okkur alveg ljóst, að Bandaríkjastjórn er með þeim samningi, sem hún er nú að fara fram á og beitir sinum eftirtektarverðu aðferðum til að fá fram, — með þeim samningi, sem Bandaríkjastjórn fer fram á, að Alþingi samþykki og ríkisstj. Íslands undirskrifi, að reyna að tryggja sér fyrir fram það, sem hún ætlar sér, að gera Ísland að árásarstöð á Evrópu í komandi stríði, þar sem eigi að fljúga frá með alla þá drepandi farma, sem á að hella yfir þjóðirnar í Evrópu, Kaupmannahöfn, París, Berlín, Moskvu, Varsjá og allar aðrar borgir, sem hægt er að ná til frá Íslandi, og leika þær eins og Nagasaki og Hirosima. Við skulum gera okkur ljóst, að þetta er það, sem Ísland verður notað til í næsta stríði, ef Bandaríkjaherstjórnin fær yfirráð hér.

Sú spurning, sem við verðum að svara hér, er því sú, hvort við Íslendingar ætlum að gerast þátttakendur í þessum leik, hvort við ætlum að ljá okkar land til þessara aðgerða, hvort það á að vera hægt að draga okkur til reikningsskapar fyrir þau morð, sem framin verða frá Íslandi, eða hvort við eigum að vera saklausir af því, hvort það á að vera hægt að krefja okkur reikningsskapar fyrir slíkt. Það er það, sem við nú eigum að taka ákvörðun um.

Það mun engin þjóð í veröldinni geta ætlazt til þess, að við getum varið Ísland fyrir Bandaríkjunum. Þess getur engin þjóð krafizt með nokkurri sanngirni, að við getum hindrað Bandaríkin í að taka þetta land. Við getum ekki hindrað, að Bandaríkjamenn taki landið og geri það að árásarstöð eða vígvelli. En við getum ráðið því, hvort við gefum samþykki okkar til þess. Það veit líka hver einasti maður í allri sinni samúð með Bandaríkjunum, að Bandaríkin taka þetta land eins og að drekka vatn, ef til styrjaldar kemur. Það getum við alþm. gengið úr skugga um með því að spyrja utanríkisráðherra Bandaríkjamanna. Það skyldi ég treysta mér til að fá yfirlýsingu um frá utanríkisnefnd Bandaríkjanna, ef send væri sendinefnd til að spyrja um það. Það þarf því enginn að koma með þá afsökun, að hernaðaraðstöðu Bandaríkjanna sé stefnt í neina hættu með því að neita þessum samningi nú. Nei, það er samsektin, sem er verið að sækjast eftir. Það er verið að fara fram á, að við verðum meðábyrgir, Alþingi og Ísland, að Norðurlandabúar og Vestur-Evrópa og Austur-Evrópa verði myrt frá Íslandi. Það er þessi samsekt, sem Bandaríkjastjórn vill fá. Þeir vilja geta þvegið hendur sínar frammi fyrir veröldinni og sagt sem svo: Íslendingar báðu okkur um að gera þetta. Við lögðum ekki að þeim. Þeir máttu ráða þessu sjálfir. Íslendingar báðu um þetta. Íslendingar gerðu það sjálfviljugir. Þannig á frammi fyrir öllum heiminum að vera hægt að leggja á okkur ábyrgðina á því, sem verður gert. Þetta er það, sem á að gera. Og meðan ég get nokkuð, vil ég reyna að koma hv. samþm. mínum í skilning um, hvað sé hér verið að gera. Við getum rifizt hér og deilt um flokksmál, utanríkismál og heimsmálin og allt saman slíkt, og við getum haft mismunandi skoðanir um það allt saman. En ef ætlazt er til þess af okkur, að við tökum ábyrgð á þeim hlutum, sem varðar líf okkar Íslendinga og æru okkar Íslendinga og um það er spurt, hvort við Íslendingar ætlum að gerast meðábyrgir að þeim ægilegustu athöfnum, sem gerzt hafi í veröldinni, þá vil ég a. m. k. vinna mitt til þess, að við vitum, hvað við séum að gera.

Það er sagt í þessu sambandi, að við Íslendingar værum ekki öruggir, þó að við værum hlutlausir. Það er rétt, því fer fjarri. Það er ekkert öryggi til í þessum heimi, eins og hann er. Við erum, þó að við værum hlutlausir, svo að segja hundrað prósent vissir um að verða herteknir af Bandaríkjunum, ef til styrjaldar kemur. En við höfum í fyrsta lagi þá veiku von, ef við neitum að gerast aðilar að þessum samningi, að við fengjum, meðan friður væri, að hafa landið í friði fyrir Keflavíkurstefnunni, og ef til styrjaldar kæmi, þá værum það ekki við, sem tækjum ábyrgðina á okkur með Bandaríkjunum á því, sem gerðist.

Svo skulum við athuga ofurlítið, hvað það er, sem við tækjum ábyrgð á, ef til styrjaldar kæmi. Ef til styrjaldar kemur samkvæmt þeim fyrirætlunum, sem þetta Atlantshafsbandalag er byggt af, þá yrðum við Íslendingar þátttakendur. Við skulum ekki fara í neinar grafgötur með það, að Bandaríkin, sem eru búin að ná svona sterkum tökum á okkur, mundu, þegar til slíks kæmi, vera búin að tryggja sér, að sú ríkisstj., sem þá væri á Íslandi, væri búin að gera slíkan samning við þá, að Íslendingar væru þátttakendur í þessu stríði. Þau væru búin að koma upp vörnum. Mundu þær bjóða upp á öryggi mannslífa og eigna? Nei. Því sterkari og harðvítugri varnir, það þýðir því fleiri flugvélar, skipalægi og árásarstöðvar og því meiri árásir á okkur. Ísland hefur stundum verið kallað Malta Atlantshafsins. Malta var sú eyja, sem mestar árásir voru gerðar á í síðustu heimsstyrjöld af öllum blettum á jörðinni. Hvað þýðir þá svona stríð fyrir okkur Íslendinga? Við skulum í fyrsta lagi athuga það, sem snertir eignir og verðmæti. Í síðasta stríði voru Íslendingar herteknir sem hlutlaus þjóð. Þá var um það samið, að allt, sem skemmdist hér eða eyðilegðist af völdum ófriðarins, skyldi verða bætt. Það voru gefin út sérstök l. frá Alþingi um slíkar bætur. Í komanda stríði mundi, þegar Ísland væri þátttakandi með Bandaríkjunum, — þá mundu allar þær ægilegu eyðileggingar, sem viðbúið væri, að hér yrðu, verða taldar sem framlag Íslendinga til slíks stríðs. Þó að öllu þessu litla, sem við höfum verið að reyna að byggja hér upp síðustu tvær kynslóðirnar, yrði kastað í rústir, þá eru líkur til, að það yrði aðeins skoðað sem framlag til þátttöku í styrjöldinni, framlag Íslands. Hvernig hefur verið farið með þær þjóðir, sem mest hafa lagt fram af slíkum fórnum, bæði eignum og mannslífum í síðustu styrjöld, af hálfu Bandaríkjanna? Einmitt þær þjóðir, sem mest hefur verið eyðilagt hjá, hafa verið svívirðilegast leiknar af ríkisstjórn Bandaríkjanna. Það er eins og við fáum þar fyrirheit um þær aðgerðir, sem biðu okkar Íslendinga. Ef það lenti á okkur að færa einhverjar þær mestu fórnir í styrjöldinni með því að gerast þátttakendur, þá tekur Alþingi á sig ábyrgð á því, á öllum þeim eyðileggingum, sem yrðu framlag Íslendinga til slíkrar styrjaldar. Og við skulum ekki loka augunum fyrir því, að innganga Íslendinga í þetta hernaðarbandalag kostar okkur þessa fórn, ef til styrjaldar kemur.

Í öðru lagi er svo líf okkar þjóðar, sjálf tilvera hennar, ef slíkt stríð brytist út. Og með því að ganga í þetta bandalag nú og heita Bandaríkjunum þannig herstöðvum á Íslandi, veita Íslendingar þeim aðstöðu til þess að útbúa slíkar herstöðvar á friðartímum og verða þess valdandi, að þetta stríð nálgist. Því fleiri herstöðvar sem Bandaríkin fá út um allan heim, því fyrr velta þau heiminum út í styrjöld. Með því að veita Bandaríkjunum þau réttindi, sem þessi sáttmáli felur í sér, er Alþingi Íslendinga að valda því, að stríð færist nær. Með því að neita Bandaríkjunum um slíkt, eins og við neituðum Hitler um flugvallaraðstöðu 1939, erum við að reyna a. m. k. af okkar hálfu að draga það á langinn, að styrjöld skelli yfir mannkynið. Við skulum svo einnig gera okkur hitt ljóst, því að við höfum aldrei þurft að hugsa um það fyrr, að ef við Íslendingar gerumst þátttakendur í stríði og ætlum að glata þessari litlu og lélegu vernd, sem hlutleysið er, erum við að gera okkur siðferðislega undirorpna stríðsóhamingjunni og kynnum að verða sigruð þjóð, sem af fúsum og frjálsum vilja hefði undirbúið hér stríð með Bandaríkjunum og látið þeim í té herstöðvar af fúsum og frjálsum vilja. Við kynnum að verða sigruð þjóð og meðhöndlaðir sem sigruð þjóð. Og það er munur á því, hvort landið er hlutlaust land, sem hertekið er af einu voldugasta herveldinu gegn vilja þings og þjóðar, eða hvort við erum þjóð, sem veitir Bandaríkjunum þessa aðstöðu. Og það er sá munur, sem í lok slíkrar styrjaldar, ef hún skyldi skella yfir mannkynið, getur þýtt allt fyrir okkur Íslendinga, fyrir þá menn, sem eiga sæti hér á Alþingi og eiga að ráða málum þjóðarinnar. Við, sem kosnir vorum á Alþingi 1946 og eigum bráðum að leggja umboð okkar fyrir kjósendur á ný, höfum ekki umboð til þess að binda þessa þjóð í 20 ár um það, hvað gera skuli í þessu máli. Í friði sem í stríði þýðir þess vegna þátttaka í þessu bandalagi það að leiða yfir þjóð okkar og land okkar það, sem við alþm. erum engan veginn menn til þess að bera ábyrgð á frammi fyrir þjóðinni og höfum ekki leyfi til að framkvæma gagnvart henni.

Þá skulum við svo athuga, hverjir það eru, sem ætlazt er til, að við Íslendingar göngum í bandalag við. Í þessum sáttmála, sem hér liggur fyrir, er byrjað með ákaflega fallegum lýsingum og farið um það mörgum fögrum orðum, hve dæmalaust göfugur tilgangurinn sé, sem þessi sáttmáli eigi að vinna að. Við skulum nú athuga, hvaða þjóðir það eru, sem ætlazt er til, að við Íslendingar göngum í bandalag við. Utanrrh. var að sleppa orðinu um það áðan, að þetta væru friðelskandi lýðræðisþjóðir, og ég veit eiginlega ekki, hvað hæstv. ráðh. og þm. GK. (ÓTh) ætluðu sér að komast hátt í lofsorðunum í útvarpinu í gær, þegar þeir voru að lýsa þessum friðelskandi þjóðum, þeirri réttlætis- og kærleikstilfinningu, þjóðréttartilfinningu, mannkærleika og manngöfgi o. fl. o. fl., sem þær hefðu til að bera. Við skulum því athuga, hvaða þjóðir þetta eru. Það eru Bandaríkjamenn, Hollendingar, Belgir, Frakkar, Bretar og fleiri þjóðir. Við höfum ýmislegt gott af þessum þjóðum að segja. En það eru mjög svo tvær hliðar á þessum þjóðum, og við höfum stundum fengið að kynnast þeim báðum. Það er talað um, að okkur Íslendingum ætti að vera óhætt að ganga í bandalag, sem Danir væru með í. Jú, Danir eru mjög elskuleg þjóð heim að sækja, að tala við þá, en sumar þjóðir hafa reynslu af því, hvernig Danir eru sem nýlenduþjóð. Þá snýr önnur hlið út. Við Íslendingar höfum þá reynslu af elskulegheitunum, að við þökkum fyrir að hafa sloppið lifandi úr greipum þeirrar elskulegu þjóðar. Englendingar hafa líka oft sýnt okkur á sér góðar hliðar, þegar þeir hafa ekki verið að rýja okkur inn að skyrtunni, taka land okkar eða brjóta stjskr. okkar. En það er önnur hlið, sem hefur snúið að þeim fjórða hluta heimsins, sem þekkir Breta sem dýrslegustu nýlendukúgara veraldarinnar og í dag sem ríki, sem stendur í árásarstyrjöld gegn friðelskandi þjóðum, sem Bretar eru að reyna að hneppa í þrælafjötra, þjóðir eins og Malajalandabúa og aðrar slíkar, sem eiga sama rétt til frelsis og Íslendingar og Englendingar. Það er Bretland, sem í dag stendur í blóðugri árásarstyrjöld, og við Íslendingar eigum að ganga í bandalag við þetta ríki. — Það er sagt við okkur, að við getum óhræddir gengið í bandalag, þar sem Hollendingar eru hins vegar, ríki eins og Holland, svona friðelskandi garðyrkjumenn! Þyrfti víst ekki að óttast, að þjóð, sem hefði verið varðveitari friðar og frelsis, færi í árásarstyrjöld. En hvað er að gerast þessa dagana? Það, að þessir friðsömu Hollendingar, auðhringir Hollands, sem eiga auðlindir 100 milljón manna í Austur-Asíu, hafa byrjað árásarstríð, sem sjálfar Sameinuðu þjóðirnar hafa viðurkennt, að væri árásarstríð. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að Holland er af Sameinuðu þjóðunum brennimerkt sem ríki, sem níðist á þjóð, er barðist á móti fasistum í síðustu styrjöld, — sem ríki, er tekur menn, er vilja hafa frelsi, og lokar þá inni í járnbrautarvögnum, kærir þá og myrðir með því að svelta þá í hel, ríki, sem gerir sér lítið fyrir og ræðst með flugvélum sínum og her á sjálfstætt lýðveldi, sem skapað er í krafti sömu mannréttinda og við Íslendingar sköpuðum okkar lýðveldi, lýðveldi Indónesíu. Hollendingar eru sannir að sök að hafa ráðizt á þetta land og rænt allri ríkisstjórn þess. Svo er komið og sagt í útvarp hér á Alþingi af hæstv. menntmrh. (EystJ), að það séu engir nema bandóðir vitleysingar, sem láti sér detta í hug, að Hollendingar fari í árásarstríð! Ég veit ekki, hvort menntmrh., með sína þekkingu, sína menntun og sitt vit á stjórnmálum, er nokkurs staðar nærverandi, eða hvort hann er flúinn. Hann sagði í útvarpinu í gær, að engum nema bandóðum vitleysingum dytti í hug, að Hollendingar færu í árásarstríð. Þorir ekki hæstv, menntmrh. að standa fyrir sínu máli? Er þetta uppfræðslan, sem þessi hæstv. menntmrh. er að gefa þjóðinni? Er hann bandóður vitleysingi sjálfur? Á grundvelli svona lyga, sem stangast við einfaldar staðreyndir, leyfir ríkisstj. sér að koma fram og segja við Alþingi Íslendinga: Það þarf ekki að segja meira við ykkur. Ég sagði ykkur allan sannleikann í gærkvöld. — Þessi víðsýni menntaði maður tilkynnti í gærkvöld, að engum nema bandóðum vitleysingum dytti í hug, að Hollendingar færu í árásarstríð. Eftir þessar upplýsingar á að vera óhætt fyrir Íslendinga að fara í árásarstríð! Ég get skilið, að ráðh., sem svona hagar sér, þori ekki að standa fyrir máli sínu. Þessi vitleysa er svo fyrir neðan allar hellur, að ráðh., sem hefur svona í frammi, ætti að segja af sér. Það er þessi sami menntmrh., sem hefur þann tíma, sem hann hefur setið að völdum, bannað ríkisútvarpinu að flytja fréttir nema frá London. Í tvö ár er hann búinn að láta ritskoða þær fréttir, sem íslenzka þjóðin fær. Í tvö ár er hann búinn að hindra, að íslenzka þjóðin og þar með meginið af alþm. fái að heyra annað en það, sem Lundúnaútvarpið hefur látið menn heyra. Hann hefur vafalaust eftir tilmælum frá Bretum og Bandaríkjamönnum bannað ríkisútvarpinu að flytja aðrar fréttir en þær. sem Bretum þóknast að láta koma fram. Í tvö ár er hann búinn að hafa ritskoðun á íslenzka útvarpinu, til þess að flytja einhliða málflutning til íslenzku þjóðarinnar, til þess að ljúga að henni, til þess að villa hana og blekkja, svo að hún viti ekki, hvernig ástandið er í veröldinni, þegar hún tekur sínar örlagaríkustu ákvarðanir. Ég get ekki trúað, að menntmrh. sé það fífl, að hann viti ekki betur en þetta og trúi öllum ósannindunum, sem hann lætur berast til íslenzku þjóðarinnar gegnum ritskoðun Breta og Bandaríkjamanna. En meira að segja þrátt fyrir þessa ritskoðun menntmrh. hefur hann samt ekki getað komizt hjá því að láta koma fram í íslenzka útvarpinu, að Hollendingar væru í árásarstríði, en þó er óskammfeilnin slík, að hann segir: Engum nema bandóðum vitleysingum dettur í hug, að Hollendingar fari í árásarstríð. — Þetta er undirbúningurinn og þetta eru upplýsingarnar, sem Alþingi á að byggja á, þegar það tekur afstöðu til þessa máls.

Nokkuð svipað er ástatt um hin ríkin, sem við eigum að gera bandalag við, Belgía er eitt af nýlenduríkjum heimsins, eins og við vitum. Frakkland er búið að standa í tvö ár í stríði við Indókína, sem barðist móti Japönum í síðustu styrjöld, en Frakkar hafa síðan ráðizt á þessa þjóð til þess að brjóta hana undir sig að nýju. Við eigum að ganga í bandalag við franska ríkið, sem stendur í árásarstríði við þjóð, sem hefur verið nýlenduþjóð í margar aldir. Og svo eru það Bandaríkin sjálf, sem ekki eru aðeins voldugasta nýlenduríkið, heldur eru búnir að gera sjálf nýlenduríkin voldug og eru nú að byggja upp kerfi, þar sem annars vegar eiga að vera gömlu nýlenduríkin í Vestur-Evrópu, en hins vegar nýlenduþrælarnir í Asíu og Afríku, sem eiga að vera í lægstu tröppunni í þeim þjóðfélagsstiga, sem auðvaldið bandaríska reynir að skapa í heiminum. Þetta bandaríska auðvald er það, sem við nú eigum að ganga í bandalag við, — það vald, sem er að búa sig undir að undiroka meginið af heiminum, verða yfirnýlenduríki allra þeirra gömlu, sem nú eiga að afdankast. Við Íslendingar höfum í 7 aldir verið lýðræðisþjóð og erum nýsloppnir úr greipunum á nýlendukúgurum. Nú er ætlazt til þess af okkur, að við göngum í bandalag til þess að hjálpa til þess að kúga allar þær aðrar þjóðir í veröldinni, sem eru að berjast fyrir sínu frelsi, við þau voldugustu nýlenduríki heimsins, sem mynda þetta árásarbandalag, sem hér er um að ræða. Annars vegar nýlenduríkin í Evrópu, sem á síðustu fimm öldum hafa brotið undir sig tvær heimsálfur, og hins vegar Bandaríkin, sem frá því að vera nýlenduþjóð sjálf og heyja sína frelsisstyrjöld móti Bretum, eru nú að búa sig undir að skapa sér 16 nýlendur á vesturströnd Evrópu í staðinn fyrir þær 13 nýlendur, sem Bretar einu sinni áttu á austurströnd Ameríku. Bandaríkin og Vestur-Evrópuríkin, helztu nýlenduríki veraldarinnar, sem nú eru að undiroka allar heimsálfur og standa í árásarstyrjöld við þjóðir, sem nú eru að berjast fyrir frelsi sínu, með sama rétti og Íslendingar hafa gert, — þessi ríki segja nú við okkur: Þið eigið að ganga í bandalag við okkur, því að þið elskið frelsið og þjóðarréttinn eins og við. — Ég er hræddur um, að okkur væri nær að segja við þessar þjóðir. Sleppið þið fyrst tökunum á þeim nýlendum, sem þið nú undirokið. Látið þær þjóðir, sem þið nú kúgið, fá frelsi, þá skulum við fara að tala við ykkur í alvöru, þá hafið þið sýnt það, að þið virðið þjóðfrelsi og mannréttindi. — Við skulum segja við Acheson: Látið Breta, Hollendinga, Frakka og aðrar nýlenduþjóðir sleppa tökunum á Asíu og Afríku, og gefið þessum þjóðum frelsi, eins og við Íslendingar höfum fengið frelsi, þá skulum við tala við þig í alvöru og trúa þér. — En hver getur ætlazt til þess, að við trúum þessum mönnum, þegar þeir koma til okkar gráir fyrir járnum og segja: Viljið þið ekki vera með okkur í því að vernda frelsi þjóðanna, sem eru að berjast fyrir frelsi sínu?

Það er þess vegna greinilegt mál, hvað bandamennina snertir, að fyrir okkur Íslendinga er hér um það að ræða að ganga í hernaðarbandalag með harðsvíruðustu nýlendukúgurum veraldarinnar. Ég álít, að við Íslendingar mundum brjóta í bága við allt það, sem hefur einkennt þjóð okkar, ef við gerðum slíkt, og værum að hjálpa helztu nýlendukúgurum veraldarinnar, til þess að þeir ættu hægara með að viðhalda valdi sínu yfir öðrum nýlenduþjóðum og kúga þær.

Þá skulum við athuga þetta í sambandi við Bandaríkin sjálf og allt það tal, sem hér hefur verið haft í frammi viðvíkjandi því, að þau væru alveg sérstaklega að hugsa um lýðræðið. Hæstv. atvmrh. flutti ofur litla mannkynssögu í útvarpið hér í gærkvöld. Það væri nú í raun og veru dálitið gaman að taka hæstv. atvmrh. í tíma í mannkynssögu; ég held honum veitti ekki af því, því að það var svo undarlegt, sem hann leyfði sér að halda fram í ræðu sinni. Það er þess vegna bezt fyrir okkur að athuga nú ofur lítið, hvernig þær aðferðir eru, sem Bandaríkjamenn og Bretar og þessar þjóðir hafa tekið viðvíkjandi lýðræðinu. Bandaríkin hafa nú undanfarið öðru hvoru verið að gera smábyltingar og hafa með vopnavaldi verið að breyta um stjórn í Mið- og Suður-Ameríku, og í hvert skipti hefur ekki heyrzt neitt hljóð úr horni hér heima. Það hefur verið gengið út frá því sem sjálfsögðu, að ef það væru Bandaríkin sjálf eða bandarískar undirlægjur, sem gerðu uppreisn til þess að bylta við löglegum stjórnum, þá væri allt í lagi. Hér hefur verið talað um það, að Bandaríkin væru framúrskarandi lýðræðisríki. Sannleikurinn er sá, að Bandaríkin eru nú sem stendur eitt harðsvíraðasta einræðisríki auðhringanna í heiminum, ríki, þar sem fjórar voldugustu auðhringasamsteypurnar hafa sölsað undir sig meginið af þjóðarauð Bandaríkjanna. Samkvæmt bandarískum hagskýrslum eru það fjórar helztu auðhringasamsteypurnar, sem eiga 60% af þjóðarauði Bandaríkjanna.

Þegar Matthías Jochumsson skáld var í Bandaríkjunum, þá skrifaði hann um dvöl sína þar, og hann kallaði Bandaríkin „mammonsríki Ameríku“. Honum þótti auðsætt, að það væri auðurinn, auðvaldið, sem þar réði lögum og lofum, ætti blöðin, skapaði almenningsálitið og mótaði alla pólitík þess ríkis. En síðan Matthías Jochumsson var í Bandaríkjunum hefur vald auðhringanna margfaldazt, og hafi það verið rétt hjá Matthíasi að kalla Bandaríkin mammonsríki, þá er það ekki aðeins Mammon, heldur og Marz, svo að maður haldi guðanöfnunum, sem drottnar þar í dag. Í bókmenntum okkar Íslendinga hefur myndin af Bandaríkjunum verið mynd þess ríkis, þar sem auðhringarnir drottna, þar sem vald auðsins er jafnvel svo mikið, að kosningar fara nákvæmlega eftir því, hve mikið af peningum hvor auðflokkurinn um sig leggur í þær, og lýðræðið í Bandaríkjunum birtist stundum í því, að þeir, sem leyfa sér að hagnýta sér kosningarétt sinn öðruvísi, en drottnararnir vilja, eru blátt áfram skotnir niður. Þeir fjórir auðhringar, sem nú stjórna Bandaríkjunum, eru: Morgan með sína bankastarfsemi og stálhringinn, Rockefeller með olíuna, Du Pont, sem ræður yfir kemíska iðnaðinum, og Mellon með olíu. Allir þessir auðhringar eru stærstu vopnaframleiðendur í heimi. Þessir hringar ráða og yfir atómtilraunastöðvum Bandaríkjanna og eiga flest tækin þar. Þessir hringar hafa gróða af stríðsótta og aukinni vopnaframleiðslu og af stríðum. Þess vegna er það auðhringavaldið í Bandaríkjunum, sem beitir sér fyrir núverandi stefnu Bandaríkjanna, að koma á æðisgengnum stríðsótta, beita sér fyrir vopnaburði og hertygingu og stríðsþátttöku þjóðanna. Þær árásarstyrjaldir, sem þjóðirnar, sem nú ætla að stofna Atlantshafsbandalagið, heyja, skapa Bandaríkjaauðhringunum gróða og eru fyrst og fremst vatn á þeirra myllu. Auðvald Bandaríkjanna óttast ekkert eins mikið og frið. Í blöðum bandaríska auðvaldsins er talað um það sem eitt það ægilegasta, sem fyrir gæti komið, að kalda stríðið hætti og eðlilegt jafnvægi skapaðist milli þjóðanna, því að það þýddi ægilegustu kreppu, sem nokkru sinni hefur dunið yfir í Bandaríkjunum. Þetta skrifa sérfræðingar auðvaldsblaðanna, því að styrjaldir þýða gróða fyrir vopnahringana, og það er bisness hjá þeim að lengja styrjaldir, og það hafa þeir gert bæði 1917–18 og í síðasta stríði vegna þess, að þeirra gróði verður því meiri, því lengur og meira sem drepið er. Þetta er rétt, og ef einhver ber brigður á þetta, þá skal ég sanna það, en þetta er svo hryllilegt, að mig undrar ekki, þótt menn ói við því, að undir lýðræðisgrímunni skuli vera svo vægðarlaust verzlunarvald.

Hver eru svo skipti okkar við þetta land? Hver eru skipti Bandaríkja Norður-Ameríku við okkur, og hvaða fyrirheit gefa þau um skipti þeirra við okkur framvegis? Ég vil minna á eftirfarandi: 1. Bandaríkin byrjuðu afskipti sín af okkur með því árið 1941 að setja ríkisstj., í samráði við Breta, úrslitakosti um það, að innan 24 klst. bæðu Íslendingar Bandaríkin um hervernd. Þann 24. júní bárust ríkisstj. slíkir úrslitakostir, og að þeim varð að ganga, án þess að tækifæri gæfist til að leggja málið fyrir Alþingi. Afskipti Bandaríkjanna byrja sem sagt með því, að þau setja Íslendingum úrslitakosti, og Alþingi fékk fyrst um þennan samning að fjalla sem gerða staðreynd. Þetta er rétt að muna, hvað snertir lögfræðilega aðstöðu okkar, sem við komum til með að leggja fyrir aðrar þjóðir um sök okkar eða sakleysi í milliríkjaviðskiptum.

Ég skal geta þess, ef forseti hyggst að veita matarhlé, að ég á nokkuð eftir af minni ræðu, en ef matarhlé verður ekki veitt, þá verð ég lengur að ljúka máli mínu, því að þá tala ég hægar, ef ég fæ ekki einhverja hvíld, og því spyr ég forseta, þar sem ég á eftir að tala í 1–2 klst., hvort hann vilji nú veita matarhlé. Hins vegar er ég reiðubúinn að halda áfram eins lengi og verða vill, ef hæstv. forseta þætti betra. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvað mikið hann muni eiga eftir af sinni ræðu.) Líklega svona 1–2 klst., en ef Alþingi ætlar nú ekki að veita matarhlé og ætlar nú að vinna vel, aldrei þessu vant, þá stendur ekki á mér, en ef ég fæ ekkert hlé, verð ég eðlilega þurrari í kverkunum og tala þá hægar, þegar fram í sækir, en ég vil stuðla að því, að allt fari hér fram samkvæmt þingsköpum, en ef sleppa á matarhléi, þá er það nú ekki beint í samræmi við þingsköp, svo að ég kann betur við, að nú verði veitt matarhlé. (Forseti: Ég mun halda áfram umræðum um stund.) Ég skal þá halda áfram og tek þá fyrir, þar sem frá var horfið, um afskipti Bandaríkjanna af okkur Íslendingum.

Nauðungarsamningurinn 1941 var þannig, að Bandaríkjamenn skuldbundu sig til að fara héðan strax, er styrjöldinni lyki. Hvernig stóðu þeir við það? Þannig, að þeir sviku á okkur samninginn. Þeir neituðu að fara burt. Það er sem sé fyrsta reynsla okkar af Bandaríkjunum, að þeir svíkja á okkur gerða samninga. Hvað gera þau svo? Þau gera það, að meðan þau sitja hér með her, sem settur var niður án þess, að réttindi væru til, þá neita þau að fara burt og fara fram á þrjár herstöðvar til 99 ára. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það, að meðan þeir höfðu hér her, þá ætluðu þeir að nota sér samningsrof og hervald til þess að neyða Íslendinga til að afsala þrem stöðum af landi sínu undan íslenzkum yfirráðum. Þetta jafngildir innrás. Þetta jafngildir vopnaðri árás til að taka sem herstöðvar þrjá hluta af landinu til 99 ára. Það er auðséð, að Bandaríkin hafa búizt við, að Íslendingar svöruðu játandi. Þeir hefðu varla gert þá kröfu 1. okt., að þeir fengju sem herstöðvar Keflavík, Skerjafjörð og Hvalfjörð til 99 ára, nema af því, að þeir gengju út frá því, að við værum of aumir til að neita kröfum þeirra. Það sýndi sig, að Bandaríkin ætluðu sér að beita Íslendinga nauðung. Í krafti samningsins frá 1941 ætluðu þeir að knýja okkur til að láta af hendi þrjá hluta lands vors. Þegar þessu var svarað neitandi, þá fóru þeir fram á að fá Keflavíkurflugvöllinn til afnota. Hvað var þá látið í veðri vaka? Það var látið í veðri vaka, að svo framarlega sem ekki yrði inn á það gengið, þá mundu Bandaríkjamenn halda áfram að vera hér með sinn her. Það þýðir, að Bandaríkin hótuðu Íslendingum því að halda hér áfram hernámi, ef þau fengju ekki mikilsverð hernaðarleg fríðindi. Bandaríkjamenn hótuðu að brjóta á okkur samninga, og þeir gerðu það líka til þess að tryggja valdaaðstöðu sína hér. Þeir höfðu þá hervald hér, og í krafti þess knúðu þeir fram Keflavíkursamninginn. Hver hefur þá afstaða Bandaríkjanna til okkar Íslendinga verið? Röð af ofbeldisaðgerðum. Berum þetta svo saman við það ríki, sem hæstv. ráðh. voru að ljúga upp á í gær, að okkur stafaði ógn af, og athugum afstöðu þess stórveldis til Norðurlanda. Sovétríkin höfðu her í Norður-Noregi, af því að þeir ráku nazistana þaðan, og Sovétríkin höfðu her á Borgundarhólmi, af því að þeir ráku nazistana þaðan líka. Sovétríkin fóru burt úr Norður-Noregi, og Sovétríkin fóru burt af Borgundarhólmi, þrátt fyrir það þótt hv. þm. S-Þ. skrifaði heila bók um, að þau ætluðu ekki að fara, en Bandaríkin voru kyrr á Íslandi. Þau sviku samninga á eina vopnlausa ríki veraldar og notuðu hervald sitt til þess að níðast á Íslendingum. Þannig hafa þeir skapað sér aðstöðu, sem þeir hafa í dag, með nauðungarsamningi, með hersetu, með áframhaldandi tilraunum til landráns og með því að knýja fram Keflavíkursamninginn. Síðan er okkur sagt, að við þessa stjórn, sem þannig hefur hagað sér, ættum við að semja um þátttöku í hernaðarbandalagi í fullu trausti þess, að hún virði lög, rétt og þjóðfrelsi.

Ég mun þá næst koma að því, sem snertir alveg sérstaklega tilganginn með stofnun Atlantshafsbandalagsins, og vildi af því, að forseti er farinn að gá á klukkuna og flestir þingmenn farnir í mat, geta þess, að ég mun þurfa að endurtaka mikið af því, sem ég nú segi, þegar þingmenn koma aftur, því að þótt ég hafi gaman af því að ræða við hæstv. forseta, hef ég enn þá meiri löngun til að ræða málið við þingmenn yfirleitt. Því spyr ég hæstv. forseta, hvort hann hugsi sér að halda umr. áfram, eða hvort hann ætlar að taka matarhlé. (Forsets: Ég hafði hugsað mér að halda áfram fundi til kl. 12,30 og gefa þá klukkustundar matarhlé.) — Þá kem ég að því, hvað snertir aðild okkar að Norður-Atlantshafsbandalagi, og skulum við þá athuga, hver afstaða Íslendinga verður, eftir að þeir hafa gerzt aðilar að bandalaginu, gagnvart þeim aðilum, sem Atlantshafsbandalaginu er beint gegn. Vitanlega er því fyrst og fremst beint gegn Sovétríkjunum, og er ekki nýtt, að slík bandalög séu sköpuð, og ekki nýtt, að það sé gert undir því formi, að um sé að ræða mótspyrnu gegn kommúnistum. Við heyrðum áróðurinn gegn kommúnismanum milli síðustu heimsstyrjalda, bæði í blöðum auðvaldsins úti um heim og Morgunblaðinu hér heima á Íslandi, alveg eins og nú. Áður var það Hitler, sem hafði forustuna gegn kommúnismanum. Baráttu hans og hans fylgifiska var beint gegn lýðræði, þjóðfrelsi og sósíalisma. Þá voru látlaust barðar bumburnar á sama hátt og nú gegn þessu þrennu. — Ég sagði, að bandalagsstofnanir gegn Sovétríkjunum væru ekki nýtt fyrirbrigði. Þegar er alþýðustjórnin tók völdin í Rússlandi 1917, þá skelfdist borgarastéttin um gervallan heim, en þótt hún væri óttaslegin, gerði hún sér vonir um, að slá mætti niður hina fátæku og langhrjáðu alþýðu. 14 auðvaldsríki mynduðu samtök sín á milli og háðu stöðugar árásir á Rússland frá 1918–21. Á þeim tíma voru bumburnar barðar látlaust af hálfu Morgunblaðsins og auðvaldsblöðunum um allan heim. Það var talað um, að þessi alþýðulýðveldi stofnuðu öllum heimi í hættu, og þá var logið ekki síður en nú. Sem dæmi um málflutning Morgunblaðsins skal ég geta þess, að fróðum manni, sem athugað hefur blaðið frá þeim tíma, telzt svo til, að það hafi þá verið búið að þrídrepa hvern einasta Rússa úr hungri. En hvaða afstöðu tóku þá beztu menn íslenzku þjóðarinnar, þeir menn, sem haldið hafa uppi málstað þeirra hugsjóna, sem við erum stoltastir af? Töldu þeir, að þessar 14 þjóðir væru fulltrúar lýðræðisins gegn einræðinu? Nei. Beztu menn íslenzku þjóðarinnar litu þannig á, að þetta væri herferð auðvaldsins gegn alþýðunni og lýðræðinu. Sá maður, sem af íslenzkum kynstofni er talinn hafa náð einna hæst í öllu því, sem við erum stoltastir af, Stephan G. Stephansson, skrifaði þá um þessar herferðir og árásir 2. júní 1920 í bréfi til Jóns frá Sleðbrjót. Hann er að tala um bændaforingja hjá Vestur-Íslendingum, og segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta er nú aðalbjarminn í sovietstjórn svonefndri, „demoerasið“, sem á er stagazt, en hvergi er til nema í Rússlandi, þó Woods hafi þetta frá sjálfum sér. Í minni ímyndun hlýtur líkt þessu að ske — eða heimurinn fer til andsk..... á þessari öld. Svo er nú komið fyrir almenningi alls heims, að þetta þolir litla bið. Taflið aðeins um — fæst þetta með lögum, eða aðeins með bardaga? Rússastjórn æskir einskis nema friðar til að fullkomna hjá sér þetta fyrirkomulag, sem hún trúir á, en fær ekki frið. Öll „hervöld helvítanna“, auður og stjórnarvöld allra ríkja, sem nú eru uppi, siga á hana öllum hennar nágrönnum með mútum, undirróðri, liðstyrk, herbúnaði og hótunum. Þetta síðasta veit ég, því að það gerist nú samtíða mér.“

Þetta eru orð Stephans G. Stephanssonar, líklega vitrasta og a. m. k. mesta mannsins í okkar skáldahóp. Ég veit ekki, hvort þeir menn, sem nú tala djarflegast í skjóli Bandaríkjavaldsins, mundu stimpla hann látinn svipað og þá, sem nú taka sömu afstöðu, en þau völd, sem nú vilja stofna Atlantshafsbandalagið, vildu þennan mann í fangelsi fyrir sína skoðun og sín kvæði árið 1918. Þannig var af okkar beztu mönnum litið á sams konar viðburði og eru að gerast nú. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar ég frestaði ræðu minni, hafði ég getið um fyrstu herferðina, sem farin var fyrir 30 árum síðan gegn alþýðuríkinu í austri. Í sambandi við aðgerðir auðvaldsríkjanna þá gegn sósíalismanum og nýlendunum hafði ég rakið, hvernig okkar beztu menn sáu gegnum blekkingamoldviðrið. Stephan G. Stephansson talaði þá um herför helvítanna. Við vitum, hvernig fór. Þrátt fyrir allt hrundu alþýðuríkin af sér þessari árás. En síðan var hafizt handa á ný af hálfu auðvaldsríkjanna og ægileg herferð undirbúin. Sú herferð er fyrst og fremst kennd við fasismann, en undirrót þessa samsæris var, að auðstéttir Þýzkalands, Ítalíu, Frakklands og Englands reyndu að brjóta lýðræði þessara landa á bak aftur og tygja sig til hernaðar gegn Sovétríkjunum. Mér datt í hug í sambandi við það ágrip af mannkynssögu, sem hæstv. atvmrh. var með hér í gær, að ekki væri vanþörf á því, að ráðh. lærðu mannkynssöguna upp aftur. Þeir ættu að reyna að athuga þá atburði, sem nú gerast, í ljósi þess, sem gerðist fyrir stríðið. Hvers vegna komst Hitler til valda? Undirrótin var, að þýzka auðvaldið, stóriðjuhöldarnir í Ruhr, stálhringurinn I. G. F., kemiski hringurinn og aðrir slíkir ákváðu að brjóta lýðveldið þýzka á bak aftur. Og hjá hverjum fengu þeir stuðning? Hjá brezka auðvaldinu. Hitler var komið til valda með stuðningi brezku auðmannastéttarinnar. Það var samsæri þessara auðmannastétta, sem olli því, að þýzki fasiminn náði völdum og lagði undir ok sitt hverja þjóðina á fætur annarri. Það var brezka auðmannastéttin, sem gerði samning við Hitler 1938 um kafbátabyggingar, sem gaf honum jafnrétti við Breta, og það var fyrir hennar tilverknað, að þriðjungur af þeim skipasmíðastöðvum, sem Bretar áttu, voru eyðilagðar. Það voru enska og þýzka auðmannastéttin, sem sameiginlega komu Hitler til valda og hjálpuðu honum að brjóta undir sig Austurríki og Tékkóslóvakíu. Það, sem um var að ræða, var samsæri þessara auðkónga móti Evrópu, og Sovétríkjunum sérstaklega. Og undir hvaða grímu var þetta gert? Það var gert undir grímu andkommúnismans. Hitler veifaði stöðugt Rússagrýlunni. Í skjóli hennar tryllir hann þýzku þjóðina, kveikir í ríkisþinghúsinu og kennir kommúnistum um. Og Morgunblaðið tekur undir þessar ásakanir, og blaðið hefur aldrei afturkallað þær. Æsingar Morgunblaðsins gegn kommúnismanum byrjuðu fyrir alvöru, þegar Hitler hafði gefið merkið með ríkisþinghúsbrunanum. Íhaldsmenn trúðu lygum fasístanna eins og nýju neti, og síðar, í marz 1933, er Hitler lét til skarar skríða, þá fagnaði Morgunblaðið og talaði um Göring sem dugandi mann. Enn er hugur Morgunblaðsins hinn sami. Enn boðar Morgunblaðið ríkisþinghúsbruna. Enn er ofbeldi undirbúið með hjálp gamalla nazista, sem m. a. hafa orðið alræmdir fyrir að brenna ketti lifandi, og enn eru óspektir undirbúnar að dæmi þýzku nazistanna. Við sáum í Þýzkalandi. hvaða afleiðingar það hefur, ef fólk er tryllt með kommúnistagrýlunni. Þýzka þjóðin hefur orðið að þola ægilegar hörmungar fyrir það, að hún lét blekkjast. Hún hefur orðið að ganga gegnum slíkar skelfingar, að þess eru fá dæmi. Hlutskipti þýzku þjóðarinnar, er leit á sig sem þjóð skálda og hugsuða, mætti vera Íslendingum, sem ætíð hafa metið þýzku þjóðina mikils, til varnaðar, svo að við látum ekki brjála okkur á sama hátt. Það er sami áróðurinn, sem nú hefur verið hafinn. Sömu mennirnir sem gengu í broddi fylkingar 1933 og 1934 með nazistamerki í barminum eru beztu trúnaðarmenn núverandi hæstv. utanrrh., og þeir eru hafðir í sendiferðum fyrir núverandi stj. Ritstjórar „Íslands“ eru helzti „omgangskreds“ núverandi hæstv. utanrrh. Þræðinum hefur ekki verið sleppt, heldur er haldið áfram. Spurningin er, hvort íslenzka þjóðin ber gæfu til að hindra, að hennar hlutskipti verði hið sama og Þjóðverja, sem brjálaðir voru með Rússagrýlunni 1933. En þessi grýla er eina „röksemdin“, innan gæsalappa, sem stj. flytur nú fram og treystir á, eins og Hitler, sem varð svo sterkur, að honum tókst að koma brezka heimsveldinu á heljarþröm með því að blekkja karla eins og Chamberlain með þessari grýlu. Hæstv. atvmrh. var að rekja söguna fyrir stríðið, en hann sleppti úr því, sem mestu skipti. Hvað gerðist 1938? Þá var gerður samningur í München milli Þýzkalands, Ítalíu, Englands og Frakklands um stríð í austur á hendur Tékkóslóvakíu og Sovétríkjunum. Münchensamningurinn var samningur auðvelda Evrópu um stríð. Morgunblaðið minnist stundum á Tékkóslóvakíu nú í sambandi við annað, en hvað sagði Morgunblaðið 1938, þegar Tékkóslóvakía var ofurseld fasismanum, og England og Frakkland sviku Tékkóslóvakíu í München? Hvað sagði Morgunblaðið, þegar Chamberlain og Daladier unnu eitthvert versta Júdasarverk, sem unnið hefur verið, fyrir auðstéttir Vestur-Evrópu, svo að þær gætu sameinazt gegn alþýðuríkjunum? Morgunblaðið fagnaði og líkti Chamberlain við Jesú Krist! Svo fegið var blaðið, þegar Tékkóslóvakía var ofurseld fasismanum. Engin lofsyrði voru nógu sterk til þess að lofa svikarana. En nú orgar Morgunblaðið yfir því, að Tékkóslóvakía sé komin undir vald kommúnista. Einhvern mun virðist blaðið þrátt fyrir allt gera á kommúnisma og fasisma. Eitt ríki í veröldinni stóð með Tékkóslóvakíu, Sovétríkin. Og af hverju þorði Benes ekki að taka hjálp Sovétríkjanna? Foringjar bændaflokksins hótuðu að opna landið fyrir Hitler, ef hann gerði það. Í München fengu Sovétríkin að vita, hvað þeirra biði, ef þetta bandalag héldist áfram. Það er á grundvelli þessa, sem við verðum að athuga það, sem gerðist næstu árin á eftir. Það er kannske rétt að minnast á það. Sovétríkin reyndu að sprengja Münchenbandalagið, en England og Frakkland sviku Pólland og létu það eiga sig, enda var samkomulag um það milli þýzku og frönsku auðhringanna að eyðileggja ekki hver fyrir öðrum, með því að varpa sprengjum. Og hvers vegna? Vegna þess að þeir vonuðu enn þá, að Þýzkaland og Sovétríkin lentu í stríði. Sú von rættist ekki. Hitler réðst á Vesturveldin, og franska auðmannastéttin sveik Frakkland í hendur honum. Ef svo hefði ekki verið, hefði franska þjóðin barizt. Það veit allur heimurinn. Sama stétt sem sveik Tékkóslóvakíu var hér að verki. Petain og fylgilið hans vildi heldur Hitler, en að alþýðan tæki völdin. Grundvallarátökin voru milli þýzka auðvaldsins og Sovétríkjanna. Í raun og veru byrjaði styrjöldin fyrst 1941, er stríðið hófst milli Sovétríkjanna og Þýzkalands.

Þá var barizt og ekki svikið. Allt, sem þurfti að yfirgefa, var lagt í rústir, svo að það kæmi ekki óvininum að neinu gagni. Það var annað en að taka við öllum olíu- og benzínbirgðum franska hersins, sem námu meiru, en Þjóðverjar notuðu, til þess að sigra Frakkland. Þá fyrst var barizt upp á líf og dauða. Þá var ekki lengur um „sjónarspil“ eða skrípaleik að ræða. Og hvað gerðu Vesturveldin? Pólitík þeirra var sú að láta Þjóðverja og Rússa berjast, þar til þeim blæddi út. Þá stóð England sterkt eftir. Þeir ráðh., sem sögðu þetta 1941, voru að vísu settir af: þetta segir maður ekki, þetta gerir maður. Churchill var það ljóst, að menn, sem ljóstruðu slíku upp, yrðu að fara, en þessi pólitík var framkvæmd. Og Truman, núverandi forseti Bandaríkjanna, sagði í júní 1941, að Bandaríkin ættu að veita þeim lið, er útlit væri á, að yrði undir, og bíða og sjá. Þessi ummæli eru prentuð í New York Times og öðrum bandarískum blöðum í júní 1941. Þetta var líka pólitík Englands. Um það geta allir sannfærzt, sem lesa það, sem sonur Roosevelts og Cordell Hull hafa skrifað um þessi mál og sömuleiðis Eisenhower. Þar kemur það fram, hvernig Bretar börðust gegn árás á Vestur-Evrópu. Enska stj. gegnumfærði þá pólitík að láta Þjóðverja og Rússa berjast þar til þeim blæddi út. Sprengjuárásirnar á Þýzkaland voru til þess gerðar að „terrorísera“ þýzku alþýðuna. Á verksmiðjur Fords og General Motors var aldrei varpað sprengjum, og heldur ekki á verksmiðjur I.G.F., sem Ameríkumenn áttu í. Þannig var samsæri auðhringanna. Meiningin var, að Hitler fengi tækifæri til þess að ráða niðurlögum Sovétríkjanna. Það var það „menningarsögulega afrek“, svo að notuð séu orð Alþýðublaðsins, sem hann átti að leysa af hendi. Hvað eftir annað ofbauð heiðarlegum stjórnmálamönnum, eins og ,t. d. Roosevelt, sú vægðarlausa hagsmunapólitík, sem nýlendukúgararnir brezku beittu. En svo kemur hæstv. atvmrh. og þykist vita betur, þó að hann í þekkingarleysi sínu rangfæri allt, sem gerzt hefur. Hann virðist ekki hafa lesið annað en Morgunblaðið og ætlar að prédika þann fróðleik, sem hann hefur fengið þar, sem heilagan sannleika fyrir þjóðinni. Núna, eftir að styrjöldinni er lokið — eftir að þessi herferð auðvaldsríkjanna gegn Sovétríkjunum hafði mistekizt og Sovétríkin sigrað þýzku herina við Stalingrad og þannig var auðséð, hver endanleg úrslit mundu verða, — þá loks gripu Engilsaxar inn i. Það var sem sé hætta á, að rauði herinn einn mundi frelsa alla Evrópu. Hver, sem les viðræður Churchills og Roosevelts frá stríðsárunum, sér, um hvað barizt var. En önnur herferð auðvaldsríkjanna gegn Sovétríkjunum hafði sem sagt mistekizt. Nú er verið að undirbúa þriðju herferðina af hinum sömu auðhringum, sem jusu fé í nazistana þýzku á sínum tíma, hafa haldið hlífiskildi yfir þýzku auðhringunum og starfa nú í nánu sambandi við þá. Og það var jafnvel svo sterkt og órofið í síðasta stríði, að Bandaríkjastjórn fékk ekki við neitt ráðið. Nú eru auðmannastéttirnar í Japan, Þýzkalandi og Bandaríkjunum komnar í bandalag við auðvald Englands og Frakklands og búa sig undir nýja heimsstyrjöld gegn Sovétríkjunum. Það er nauðsynlegt, að við íslenzkir alþm. gerum okkur þetta ljóst, ekki sizt þar sem verið er að blekkja með því, að barizt sé fyrir helgustu hugsjónum mannkynsins um frið, frelsi og öryggi. Mig langar til, vegna þeirra Alþfl.-manna, sem hér eru á þingi fyrst og fremst, og þá einkum hæstv. forsrh., að minna á það, hver verið hefur stefna Alþfl. í þessum málum. Í stefnuskrá flokksins frá 1938, sem enn er í gildi, segir m. a. svo — með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem ósigur Sovétríkjanna mundi vera ósigur fyrir verkalýðinn um allan heim, berst hann (flokkurinn) á móti hvers konar einangrunartilraunum, árásarherferðum og spellvirkjum auðvaldsins gegn hinu nýja þjóðfélagi.“

M. ö. o. — hæstv. forsrh. hefur með stefnuskrá Alþfl., sem hann er formaður fyrir, skuldbundið sig til að berjast gegn því, að Sovétríkin verði einangruð, og gegn hvers konar tilraunum auðvaldsríkjanna, er að því stefna að vinna þeim tjón. Ég býst nú raunar við, að hæstv. forsrh. verði ekki mikið fyrir að kyngja þessu stefnuskráratriði flokks síns fremur en öðrum. Honum hefur reynzt svo auðvelt að svíkja öll hugsjónamál síns flokks í öllu því, sem hann hefur framkvæmt í sinni stjórnartíð. Og þótt ég hafi nú farið um þetta nokkrum orðum, að gefnu tilefni hæstv. atvmrh. í gær, þá er ég ekki þar með að biðja Alþfl. eða hæstv. forsrh. að taka afstöðu í þessu máli með alþýðuríkjunum gegn auðvaldsríkjunum. Ég er aðeins að upplýsa, að það eru tvær hliðar á þessu máli, sem nauðsynlegt er að þekkja báðar. Efalaust skiptumst við Íslendingar eins og hver önnur þjóð um þessi stórmál. Þau hafa eðlilega þau áhrif, að stéttirnar skiptast um þau hvað samúð snertir. Engum þýðir að prédika mönnum andlegt hlutleysi um þessi mál; andlegt hlutleysi er ekki til í þessum efnum. En því má ekki blanda saman við hernaðarlegt hlutleysi. Það, sem okkur Íslendingum ber að hugsa um, er það, hvernig okkur muni vegna í átökunum milli hinna tveggja jötna, sem þarna eigast við. Alþýðuríki heimsins eru ekki lengur neitt lítið peð, þau eru sterkt vald nú orðið og vald, sem styrkist með degi hverjum. Og okkar litlu þjóð ber vegna smæðar sinnar og sérstöðu að hugsa um það eitt, hvernig hún megi forða því, að hún verði troðin undir í átökum þessara jötna. Það er sama, hvernig við skiptumst í samúð okkar; við verðum að vera einhuga um að gera allt, sem í okkar valdi stendur til þess að forða þjóð okkar frá tortímingu í þessum geigvænlegu átökum.

Hvað Sovétríkin snertir, þá á okkar þjóð ekkert sökótt við þau. Þau hafa ekki sýnt okkur neinn ágang. Þvert á móti. Við höfum aðeins gott af þeim að segja. Þau hafa gert hagstæða viðskiptasamninga við okkur og beinlínis hjálpað okkur til að losna úr arðránsfjötrum brezks auðmagns, sem höfðu hert svo að hálsi okkar fyrir styrjöldina, að minnstu munaði, að sjálfstæði okkar ríði að fullu. En Bandaríkin hafa níðzt á Íslandi, sýnt okkur ágengni og reynt að ná tökum á landi okkar. Þeim hefur orðið vel ágengt. Og okkar krafa hlýtur að vera þessi: Burt með þau ítök, sem Bandaríkin hafa hér nú.

Ég hef reynt að gefa hér réttari mynd af átökunum í heiminum en hinir „bandóðu vitleysingar“ í ráðherrastólunum (eins og einn þeirra komst að orði) gáfu í gærkvöld, og reynt að leiðrétta nokkuð þá afskræmdu mynd, sem þeir brugðu upp er ætluðu sér að blekkja þjóðina með dæmi hr. Hitlers.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um þá „röksemd“ ráðherranna, að við gætum ekki haldið virðingu okkar meðal þeirra þjóða, er að Atlantshafsbandalaginu standa, ef við gerðumst ekki aðilar. Hæstv. menntmrh. sagði meira að segja, að það mundi vekja tortryggni, ef við drægjum einn dag að samþykkja fyrirskipanir Bandaríkjanna. — Jú! Það vantar ekki, að þeir ímyndi sér, að þeir skapi sér virðingu yfirboðaranna með framferði sínu. Og hvernig hefur framferði þeirra verið? Jú, þegar yfirboðararnir kalla, flýgur hálf ríkisstjórnin í aðra heimsálfu. Og sama daginn auglýsir Bandaríkjastjórn, að hún gefi Íslendingum 2½ milljón dollara — 2½ milljón er gjaldið, sem 2½ ráðherra krjúpa fyrir. Ísland er svo sem ekki sérlega dýrt land; það þarf ekki meira til þess en 2½ milljón, að 2½ ráðherra komi skríðandi að fótum hinna bandarísku yfirboðara sinna. Þetta fær allur heimur að heyra. Og þetta halda þeir að skapi þeim virðingu! Nei, þeir skapa Íslendingum fyrirlitningu umheimsins; og þeir ættu sjálfir að heyra það, hvernig Bandaríkjamenn á Íslandi tala um þá á bak, þótt fagurt mæli í eyru þeim. — Nei, það, sem verið er að gera, er þetta: Það er verið að stimpla okkur smánarstimpli betlilúkanna og mútuþeganna. Það er virðingin, sem hæstv. ráðh. halda, að þeir séu að skapa þjóð sinni.

Þá tala þeir enn um það, að vinátta Bandaríkjanna sé í veði. Ég hef nú ekki trú á því. Ég hef meira að segja þá trú á Bandaríkjamönnum, að þeir mundu fremur vilja tengjast vináttuböndum við okkur, ef þeir vissu, að hér væru menn, sem þyrðu að hugsa sjálfstætt og standa á rétti sínum gegn hverjum sem væri. Þegar Vilhjálmur Þór hafði þau orð vestur í Ameríku 1944, að Íslendingar mundu aldrei þola, að erlendar þjóðir hefðu hersetu í landi þeirra, þá voru ummæli blaðanna á þessa lund: „Svona eiga frjálsar þjóðir að ,tala.“ — En það er e. t. v. nokkuð annað, sem liggur að baki þessu tali um vináttu. Það er máske eitthvað svipað og hjá Bevin er hann hótaði því 1946, að Bretar mundu ekki líta á það vinsamlega, ef við gengjum ekki að kröfum Bandaríkjanna um herstöð í Keflavík; eða það er eitthvað svipað og við heyrðum frá fulltrúum Breta 1942, er við vorum að hugsa um að stofna lýðveldið. E. t. v. felst hótun í vináttuhjalinu. En hæstv. ráðh. ættu þá að skýra frá því, ef svo er ekki, og segja: Við höfum ekki trú á, að okkur sé á neinn hátt hótað af Bandaríkjunum. — En að ganga í bandalagið á grundvelli röksemdar eins og þessarar, væri ekkert annað, en undirlægjuháttur og dæmalaus glópska.

Næst er þá að athuga, hvað koma mundi á daginn, ef við gerðum nú þennan samning. Samkv. 9. gr. er gert ráð fyrir, að sett sé á stofn herforingjanefnd og ráð fyrir allt bandalagið, sem geri ráðstafanir t. d. til hráefnaöflunar, um staðsetningu herstöðva og annað, sem tilheyrir styrjaldarundirbúningi. Og þessi ráð verða það raunverulega vald yfir þeim herstöðvum, sem Bandaríkin kunna að hafa í næsta stríði. Þau fara ekki dult með það, að Ísland hafi mjög mikla þýðingu sem árásarstöð, en ekki varnarstöð. Herforingjaráð Bandaríkjanna hefur ekki farið í felur með það. Og samkv. 5. gr. samningsins mundum við Íslendingar vera neyddir til að taka þátt í árásarstríði, ef þetta ráð ákvæði að hefja slíkt stríð af einhverju því tilefni, sem nota mætti til að réttlæta nafnið „varnarstríð“ og láta gera þær ráðstafanir í landi okkar, sem því ráði sýndist og það teldi nauðsynlegar.

Í 6. gr. samningsins segir, að ákvæði 5. gr. um vopnaða árás á einn eða fleiri samningsaðila skuli taka til vopnaðrar árásar á lönd hvaða aðila sem vera skal í Evrópu eða Norður-Ameríku, á hin frönsku héruð í Algier, á hernámslið hvers aðila sem vera skal í Evrópu, á eyjar undir lögsögu hvers aðila sem vera skal í Norður-Atlantshafi norðan hvarfbaugs krabbans eða á skip eða loftför hvers aðila sem vera skal á þessu svæði. — Þetta þýðir t. d., að ef ráðizt væri á flugvél yfir Berlín eða bandarískt skip á N.-Atlantshafi og ef Bandaríkin vildu láta það kosta stríð, þá erum við þar með í stríði. Fyrir tveimur árum voru tvær brezkar flugvélar skotnar niður yfir Júgóslavíu. Hefðum við þá verið bundnir þessum sáttmála, og Bretar hefðu viljað stríð þá, þá hefðum við orðið að vera með. Og spursmálið er aðeins um stríðsviljann. Tilefni er auðvelt að fá. Það sýnir sagan. Frægt er dæmið frá 1898; þá vildu Bandaríkin stríð við Spán, sem þá átti Kúbu og var um þær mundir orðinn mjög lémagna. Og hvað gerðist? Einn góðan veðurdag sprakk ameríska herskipið Main í loft upp í höfn í Kúbu. Það hefur aldrei verið upplýst, hver ástæðan var. En Bandaríkin fóru í stríð við Spán og tóku Kúbu og hafa ráðið henni síðan. — Ekkert er auðveldara en fá þannig tilefni til að fara í stríð, og af hinu minnsta tilefni yrðum við Íslendingar að dansa dansinn með, ef í það færi. Og hvað sem líður yfirlýsingunni í 7. gr., þá erum við Íslendingar með því að binda okkur þessum sáttmála, að skuldbinda okkur til að brjóta lög Sameinuðu þjóðanna og ganga fram hjá öryggisráðinu, ef í það færi, og hlíta heldur úrskurðum og ákvörðunum þeirrar herforingjanefndar, sem þetta bandalag setur á stofn. Hæstv. ráðh. hafa haldið því hér fram í umræðum, að við Íslendingar mundum ráða öllu um það, hve mikill okkar þáttur yrði í þessu bandalagi í framtíðinni, hve mikið við legðum fram og hvaða bækistöðvar yrðu í landi okkar. „Allt verður gert, sem Ísland vill....“, hafa þeir látið það heita. En má ég spyrja hæstv. ráðh.? — Við gerðum samning um það, að aðeins yrði gert það, sem Ísland vill í Keflavík. Og hefur það verið gert? Nei, — og svo langt frá því. Bandaríkjamenn hafa ekki haldið þar í heiðri ein einustu lög né reglugerð, allt hefur verið þverbrotið, og það reginhneyksli er á allra vitorði. Og halda menn nú, að þetta breytist, eftir að við höfum gengið í N.-Atlantshafsbandalagið? Halda menn, að herforingjar þess, kaldrifjaðir og klókir menn, sem fengið er það hlutverk að undirbúa þær aðstæður, sem beztar kynnu að þykja í styrjöld, — halda menn, að þeir færu að spyrja okkur Íslendinga um það, hvað okkur litist nú um eitt eða annað? Nei, þeir mundu aðeins líta á land okkar sem herstöð, en um þjóðina stæði þeim á sama. Ef forstjórar bandarískra auðfélaga á Keflavíkurflugvelli fara ekki einu sinni eftir því, sem Íslendingar vilja, þá þarf enginn að halda, að herforingjar þessara járngráu ríkja muni fremur fara eftir vilja og tillögum Íslendinga. Eða trúa menn því, að sú ríkisstj., sem hefur haft framkvæmd Keflavíkursamningsins með höndum og farizt það svo sem raun er á, mundi þegar að þessu kæmi, standa betur í ístaðinu gagnvart hinu erlenda valdi? Ætli það yrði ekki svipuð saga og viðbárurnar líkar og 1947, þegar hæstv. utanrrh. var yfirheyrður hér á Alþ. í hálfan mánuð um framkvæmd Keflavíkursamningsins og sagði ýmist, að ekki hefði náðst samkomulag um þetta eða hitt, eða að Bandaríkin mundu móðgast, ef lögin væru framkvæmd? Þar hefur hins vegar viðgengizt smygl, þjófnaður, skattsvik, tollsvik og hvers konar lögbrot í skjóli ríkisstj. Nei, eftir að við Íslendingar værum orðnir aðilar að herbandalagi, yrði Ísland eins og Keflavík er í dag: amerísk herstöð — land, sem bandarískir herforingjar réðu.

Ég veit, að þessi barátta, sem háð er hér í dag, verður ekki sú síðasta, sem háð verður hér á Alþ. vegna árásar Bandaríkjanna og tilrauna í þá átt að leggja undir sig land okkar. En þessi barátta skiptir sköpum. Undanfarið hafa Bandaríkin verið að reyna að taka landið í áföngum. Hvað var okkur sagt, þegar Keflavíkursamningurinn var gerður? Það, að herinn færi burt. Og í dag lýsir ríkisstj. Bandaríkjanna því yfir, að Keflavíkurflugvellinum, sem sagt var, að væri engin herstöð, yrði eigi haldið áfram, nema Ísland taki þátt í hernaðarbandalagi og það verði þar með herstöð. Og í krafti þess hafa nú verið veittar 64 millj. kr. til stækkunar á vellinum, hinum stærsta í heimi. Eru Bandaríkjamenn nú þegar byrjaðir að undirbúa framkvæmdir. Okkur var sagt, þegar Keflavíkursamningurinn var gerður, að við værum að losna við herinn úr landinu og hér yrðu engar herstöðvar. En hvað er það núna? Nú er ekki um neina dulbúna herstöð að ræða, því að nú hefur því verið lýst yfir, að Ísland verði í bandalaginu. Þegar það er sagt í dag, þá vitum við, hvað verður gert á morgun. Það var sagt í októbermánuði 1947, að við værum veitendur varðandi Keflavíkursamninginn. Ári síðar var sagt, að við hefðum orðið fyrstir allra til að taka lán hjá Bandaríkjunum — taka við gjafafé, því að hæstv. ríkisstj. sagði, að við lifðum ekki án gjafa. Nei, við vitum líka í dag, m. a. frá þeim manni, sem lengst og harðast hefur barizt fyrir herstöðvum á Íslandi, hv. þm. S-Þ., en hann fer ekki dult með það, að á friðartímum sé nauðsynlegt að hafa bæði herstöðvar og herskyldu í landinu. Við sjáum, hvað fram undan er, ef það verður samþ., að Ísland verði þá fyrst og fremst herstöð fyrir Ameríkumenn. Það virðist athugandi, að athyglin mun beinast að vestrinu, og vofir sú hætta yfir vorri þjóð.

Nú mun hæstv. ríkisstj. knýja fram, að þetta verði samþ. Þegar hæstv. ríkisstj. hefur undirritað það hvað eftir annað, að þinginu muni gefast nægur tími til að ræða málið, svo að ekki eingöngu fái það að vita um málið í heild, heldur og þjóðin, — eftir þessar yfirlýsingar um allan undirbúning málsins, eru hæstv. ráðherrar staðnir að ósannindum um málið, sem þeir flytja hv. þm. og þjóðinni. En það er ekki aðeins svona, heldur lýsa þeir hver annan ósannindamann. Hæstv. utanrrh. lýsti hæstv. forsrh. ósannindamann að vissum ummælum. Samningurinn hefur verið undirbúinn með blekkingum við þjóðina. Og nú hefur hann einnig verið undirbúinn með ósannindum á þingi. Nú er reynt að knýja hann í gegn með ofbeldi, — eftir að búið er í tvö ár að ritskoða íslenzka útvarpið og villa þjóðina. Og nú á að blekkja menn til að samþykkja hann. Meðan við vorum hernumdir, gátum við hlustað á fréttir frá London og Berlín. Við gátum heyrt andstæðurnar og myndað okkur eigin skoðun. Nú er hið harðvítugasta hernám á útvarpinu, framkvæmt af lepp Bandaríkjanna, sbr. ritskoðun Hitlers í Þýzkalandi, til að villa þjóðina og ljúga að henni, þegar veltur á lífi hennar og öryggi. Síðan er hvítliði stefnt út og nazistar og sadistar dregnir fram úr fylgsnum sínum, gamlir vinir hæstv. utanrrh. og nánastir frændur hæstv. utanrrh. úr Noregi frá hernámsárunum þar. Þetta er lýðurinn, sem á að sjá um, að Alþ. samþykki samninginn. Síðan lýsa fylgismenn samningsins því yfir, að þeir hafi yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar að baki sér. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að sýna þennan fjölda. Ég skora á hana að boða til almenns borgarafundar um málið. Ég skora á hana að sýna samþykktir frá almennum mannfundum, er samþykki sáttmálann. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að láta tugþúsundirnar í Reykjavík greiða atkv. um, hvort Ísland eigi að ganga í Norður-Atlantshafsbandalagið. Hví ekki að fara að eins og í grísku borgríkjunum: láta fólkið greiða atkv. með handauppréttingu? Ég vænti þess, að þeir, sem styðja samninginn, óttist ekki lýðræðið. Hvers vegna þorir hæstv. ríkisstj. ekki að gera þetta, láta þjóðina dæma? Hægt er að ganga úr skugga um álit fólksins. Hvaða ástæða er til hjá hæstv. ríkisstj. að heimta, að málinu sé hraðað? Af hverju er hvítliði og lögreglu stefnt út? Ætlar Rússland að ráðast á Ísland, ef við samþykkjum samninginn? Ekki segir Acheson. Hvað liggur á? Hví má ekki leyfa þjóðinni að þaulrannsaka málið, eins og hæstv. forsrh. hefur lofað henni? Það situr sízt á hæstv. ríkisstj., sem kemur sér ekki saman um einföldustu smáatriði eða sjálfa stefnuskrá stjórnarsamvinnunnar, að „melda“ Ísland inn í hernaðarbandalag, hæstv. ríkisstj., sem er svo veik, að hún býst við því að riðlast þegar eftir samþykkt samningsins. Hvaða aðfarir eru hafðar hér í frammi? Það er ekki hægt að nota hæstv. ríkisstj. til að stjórna Íslandi. Hér ríkir óstjórn og öngþveiti. Að kalla má hver einasti hv. þm. stjórnarflokkanna viðurkennir, að hér ríki stjórnleysi. Þessi hæstv. ríkisstj. ætlar að knýja sáttmálann í gegn og sundrast á eftir. Hvers konar ábyrgðartilfinning er það að láta slíka stj. fá heimild frá Alþ. til að samþykkja þennan sáttmála? Hv. alþm. vita, að hæstv. ríkisstj. er gersamlega ófær til að stjórna landinu. Þeir geta ekki bent á eitt mál, þar sem hún hafi látið gott af sér leiða. Hún hefur ekki látið nema bölvun af sér leiða. Svo segir hæstv. ríkisstj., að verði samningurinn ekki samþykktur nú, þá verði áhuginn farinn út um þúfur. Hvar er sá áhugi, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp hjá sjálfri sér? Það er Bandaríkjastjórn, sem hefur farið fram á þetta. Er það ætlunin, að hæstv. ríkisstj. liðist í sundur, þegar Ísland er komið inn í bandalagið? Ef því er þannig farið, þá væri samþykkt samningsins meira ógæfuverk en ég trúi, að hv. þm. láti hafa sig til að vinna. Hæstv. stj. hefur ekkert gert fyrir sína þjóð. Hún er að gera þetta fyrir erlent vald. Hæstv. utanrrh. lét svo um mælt, að einhverjir menn væru gerðir út af ærnum kostnaði erlends stórveldis. Ég þekki ekki nema hæstv. ráðh., sem það megi hafa um. Þeir hafa þegið mútur opinberlega og á svo ósvífinn hátt, að Bandaríkin auglýsa það. Þessi stj. væri fallin vegna efnahagsöngþveitis, ef Bandaríkjastjórn hefði ekki látið hana fá peninga og þar með haldið henni gangandi. Íslenzku ríkisstj. er haldið uppi með amerísku fé. Þannig er samningurinn til kominn. Hæstv. ríkisstj. hefur m. ö. o. tekizt að tóra, því að hún hefur dollaramilljónirnar á milli handanna, ella væri hún komin á hausinn. Hún er leppstj., sem í skjóli erlends auðvalds helzt við, en er fyrirlitin af bæði þjóð og þingi. Og núna ætlar hún að kúska Alþ. til að svíkja þjóðina í hendurnar á erlendu herveldi. Þessir hæstv. ráðh. eru að vinna fyrir Júdasarpeningunum með því að reyna að koma Íslandi inn í hernaðarbandalag. Ég held, að hv. þm. ættu ekki að láta hafa sig til þessa verks. Engum dettur í hug, að ráðizt verði á Ísland. Það er engin ástæða til annars en annaðhvort að rjúfa Alþ. þegar í stað og efna til nýrra kosninga eða láta fara fram þjóðaratkvgr. Það er enginn réttur fyrir hendi að binda þjóðina til 20 ára í hernaðarbandalagi. Og þessi hæstv. ríkisstj. hefur ekki staðið sig svo vel, að hún verðskuldi, að henni sé trúað fyrir að gera þennan samning. Ég álit því, að þingið ætti að fella samninginn eða að öðrum kosti skjóta honum undir þjóðaratkvgr. Allt annað er gersamlega óverjandi, úr því sem komið er, og allt of mikið í veði.