19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í D-deild Alþingistíðinda. (5091)

910. mál, njósnir fyrir flugvöllum ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þá skýringu, sem hann hefur gefið hér, og ég þykist vita, að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. muni þykja þetta fróðlegt. Þeir eru æðstu menn í landinu, og þetta heyrir sérstaklega undir dóms- og lögreglumálarh. Það er nokkurn veginn gefið, þó að hæstv. ráðh. sæi ekki ástæðu til að fara út í það, að það þarf að gæta allrar varúðar, ef slíkar njósnir koma fyrir í óþarfaferðum flugvéla í löndum, þar sem engar varnir eru fyrir hendi. Við höfum engar hraðfleygar flugvélar til að verjast slíku. Þetta vildi ég láta koma ljóst fram, að hér er eyða í okkar kerfi og þarna erum við algerlega varnarlausir. Finnst mér, að aukin vitneskja um njósnir geti varla leitt til annars, en að við þá tökum upp einhverjar varnir sjálfir. Í því sambandi má geta þess, að hér eru til flugmenn, sem vel kunna til slíkra hluta. Þó að það liggi ekki fyrir hér, þá vildi ég beina því til hæstv. lögreglumálarh., hvort við getum ekki sýnt okkar sjálfstæði í því að skjóta á þessa fugla, sem eru að koma hér í slíkum erindum.