26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í D-deild Alþingistíðinda. (5214)

922. mál, þingfréttir í útvarpi

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég hygg, að núverandi hæstv. forsrh. eigi heiðurinn af því að hafa komið þeirri venju á, að hér á Alþ. væri fyrirspurnum svarað nokkurn veginn skipulega. Ég tel þetta þakkarvert og ég get glatt hæstv. ríkisstj. með því, að landslýðurinn metur þetta mikils, enda oft og einatt nálega eina lífsmarkið, sem almenningur verður var við hjá þinginu. Því meiri undrun olli það, þegar bannað var að minnast á fyrirspurnirnar í þingfréttum ríkisútvarpsins. Þegar spurt var, hverju það sætti, var því til svarað, að bannið kæmi frá hærri stöðum. Á fyrirspurnirnar mátti ekki minnast. Og það verður ekki hætt að bera fram fyrirspurnir þrátt fyrir þetta, en háttvirtir kjósendur munu fá ranga hugmynd um afskipti hæstv. ríkisstj. af þessu máli, ef ekki kemur annað fram en þegar er orðið. Að lokum vildi ég segja það, að þar sem hæstv. forsrh. kom þessari heppilegu venju á, þá tel ég hann manna líklegastan til að leysa nú málið á giftusamlegan hátt, svo að almenningur fái sem áður fregnir af þeim fyrirspurnum, sem bornar eru fram á hv. Alþingi.