16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í D-deild Alþingistíðinda. (5251)

925. mál, fjárbú ríkisins á Hesti

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir hans allýtarlegu skýrslu og ekki sízt fyrir ýmislegt skemmtilegt, sem hann sagði okkur utan við málefnið. Af þessu sést, að það hefur verið ætlunin að gera almennt kynbótabú á Hesti, en það hefur snúizt upp í spítala. Ég sé ekki betur en að þetta kynbótabú sé gróðrarstía fyrir mæðiveiki, af því að alls konar mæðiveiki er flutt þangað, enda á þetta við um allar þessar kynbætur, og þetta endar á því, að enginn maður vill kynið frá Hesti.

Hæstv. ráðh. lét í ljós, að það væri ekki mikil von með þetta bú í framtíðinni, en sagði, að það væri helzt von um Engey, sem er skynsamlegt. En ég sé ekki, að það sé hægt að treysta því, að íslenzkir bændur, þegar þessi svartidauði líður hjá og úrvalskynin koma úr Engey, taki á móti þeim, svo að það er ekki víst, að Hestbúsins þurfi við. Það er eftirtektarvert um þetta bú, að það er sett á prestssetur, á Hesti, en til þess að fá þetta fram, verður að byggja á Hvanneyri fyrir prestinn fyrir allt að 400 þús. kr., og er mér óskiljanlegt, hvernig slíkt er nauðsynlegt vegna þessara framkvæmda. Enn fremur vil ég benda á eina óheppilega ráðstöfun, að það er boðið í laxveiðina frá Akranesi 15 þús. kr., en hún er ekki leigð nema fyrir tíunda partinn af þeirri upphæð.