10.12.1951
Neðri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

96. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 2. umr., gerði ég grein fyrir skoðun minni og hv. 10. landsk., sem stóðum saman að áliti minni hl. menntmn. Ég hef því ekki ástæðu til að tala langt mál við þessa umr., en vil þó segja nokkur orð, einkum vegna þeirrar brtt., sem nú hefur verið borin fram í málinu. — Brtt., sem hæstv. menntmrh. lagði fram, hljóðar svo, að inn í 3. gr. l. um menntaskóla komi svo hljóðandi málsgrein: „Ráðherra getur heimilað, að við menntaskólana starfi óskipt miðskóladeild, að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólastjórnar.“

— Ef svo skyldi fara, að þessi brtt. næði samþykki og yrði að lagaákvæði, þá þætti mér nú fara betur á að breyta ofur litið orðaröð till. En það er nú formsatriði, sem ekki er aðalatriði málsins. Ég held, að færi betur að segja: „Ráðherra getur heimilað, að fengnum tillögum skólastjórnar“ o.s.frv. En með þessari brtt. eru gerðar efnisbreyt. nokkrar frá því, sem frv . hefur að geyma, eins og það liggur fyrir nú. Í fyrsta lagi er frvgr. þannig nú, að þar er um bráðabirgðaákvæði að ræða, sem á að gilda til vorsins 1954. Með því er ákveðið, að þetta mál verði þá tekið til athugunar að nýju af Alþ. á þeim tíma, þó að málið verði nú afgr. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. í þessari hv. d. Þetta er numið burt með brtt. hæstv. menntmrh. Í öðru lagi er ákveðið í frvgr., eins og hún er nú, að utanbæjarnemendur við menntaskólann á Akureyri sitji fyrir heimavist í skólanum á Akureyri. Þetta er fellt í burt í brtt. hæstv. menntmrh., en sett aðeins í þess stað, að miðskóladeild megi starfa við báða menntaskólana, að fengnum till. hlutaðeigandi skólastjórnar. Í þriðja lagi er ákveðið svo í frvgr., eins og hún er nú eftir 2. umr., að það sé um að ræða tveggja ára miðskóladeild við menntaskólann á Akureyri. En með brtt. hæstv. menntmrh. er það einnig fellt burt. Eins og ég tók fram við 2. umr. málsins, þá er það mikið álitamál að dómi skólamanna, hvort það sé rétt eða heppilegt að ætla nemendum að ljúka námi undir miðskólapróf á tveimur árum, og vel má vera, að það sé með ráði gert af hæstv. menntmrh. að nema þetta ákvæði í burt. En um leið og það er gert, þá vita hv. þm. ekki, hvort hér er verið að samþ. ákvæði um sex ára menntaskóla eða sjö ára menntaskóla, og það er þó meira en lítið atriði í málinu, þegar litið er til þess, hvaða kostnaður fylgir kennslunni, o.fl. í því sambandi.

Ástæðan fyrir því, að þetta mál er borið fram hér að nýju, er það kapp — mér liggur við að segja ofurkapp — sem menntaskólinn á Akureyri leggur á það að hafa aðstöðu til þess að búa nemendur undir miðskólapróf. Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. drap á í ræðu sinni hér áðan, að það er alveg sérstætt, að skóli sæki eftir því að fá til kennslu nemendur af lægra skólastigi en honum sjálfum er ætlað að kenna. Þess eru ekki dæmi, að gagnfræðaskólarnir, hvar sem er á landinn, hafi sótzt mjög eftir því að taka að sér barnaskólakennslu. Þess eru ekki dæmi, að háskólar hafi sótzt eftir því að undirbúa nemendur undir stúdentspróf. Þvert á móti hefur þróunin að þessu leyti verið sú, að skólar hafa sóti á um það að fá nemendur til kennslu þannig, að þeir hafi hækkað sig í skólastiginu, að fá að kenna hærra skólastig en það, sem þeim hefur verið ætlað. Þannig var barátta menntaskólans á Akureyri um það leyti er hann gerðist menntaskóli, árið 1927 að mig minnir. Öll sókn hans beindist þá að því að fá að kenna hærra skólastig. Nú, þegar sú ákvörðun var tekin með skólalögunum 1946 að skilja í sundur gagnfræðanám og menntaskólanám í lærdómsdeild, þá gerist það sérstæða fyrirbrigði, að menntaskólinn á Akureyri leggur á það ofurkapp að fá að kenna lægra skólastig en honum í sjálfu sér er ætlað. Ég tel ekki, að fram hafi komið í þessu máli fullnægjandi rök fyrir því, að það sé rétt, án þess að það sé athugað nánar en orðið er, að hverfa frá þessari skipan, sem ákveðin var með l. 1946. Hitt hef ég látið í ljós, að ef hv. þm. teldu sig þess albúna nú að ákveða það, að rétt væri að hverfa frá þeirri skipan og gera menntaskólana að sex ára eða sjö ára skólum, þá væri eðlilegt, að það sama gilti um þá báða. Ég tel, að vitanlega geti verið rétt að taka til nýrrar athugunar ákvæði fræðslul. um þessa skipan miðskólanna eins og ýmis fleiri ákvæði í skólamálunum. En ég tel, að það sé nauðsynlegt að íhuga það mál betur en orðið er og að það væri misráðið af Alþ. að ætla sér nú, — og þá sérstaklega þessari hv. d., — að ljúka þeirri athugun og umr. um það mál nú á næturfundi að mjög mörgum hv. þm. fjarstöddum. Ég held, að menn séu ekki búnir að gera sér það ljóst, ef slík heimild verður sett inn í menntaskólalögin eins og þessi, hvort það kunni að kalla á heimildir í öðrum skólal. eitthvað sambærilegar við það. sem hér er farið fram á. Hér er stefnt að því ekki aðeins, að það sé numið burt, að um bráðabirgðaskipan sé hér að ræða, sem verði endurskoðuð að nýju, heldur að breyta menntaskólal. á þá lund, sem brtt. hæstv. menntmrh. ber með sér. Ég teldi því fara bezt á því, að hv. þm. felldu þetta mál í heild eins og það liggur fyrir nú. Hitt er svo annað, að ef skólamönnum þeim, sem starfa eftir menntaskólal., og fleiri skólamönnum sýnist ástæða til þess að taka málið aftur í heild til nýrrar athugunar, þá er ekkert á móti því, að það sé athugað milli þinga og undirbúin breyt., sem stefnir í svipaða átt og þessi brtt., og e.t.v. fleiri breyt., sem þingið tæki þá til íhugunar og afgreiðslu síðar, enda hefur verið flutt hér í þinginu till. um það, að nefnd endurskoðaði skólalöggjöfina í heild. Ég þori nú ekki að segja. hvað um þá till. verður, hvort hún hlýtur afgreiðslu. En það er vissulega svo, að ef út í þá sálma á að fara, þá er vitanlega fleira, sem getur komið til álita og íhugunar, heldur en það, sem hér liggur fyrir. Ég tel því rétt, að hv. þm. sameinist um það, eins og málið ber hér að nú, að fei1a málið í heild að þessu sinni.