04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Mér hefði þótt stórum betra, ef hæstv. kirkjumrh. hefði verið hér viðstaddur, ef hann er ekki eitthvað forfallaður. (PZ: Hann er í rúminu.) Þá er að taka því. Í raun og veru má mæla eitthvað um málið, þó að hæstv. ráðh. sé ekki viðstaddur, en ég tel varhugavert að ganga frá því þannig, að hans sé ekki við getið, þar sem líka n. hafði ekki tækifæri til þess að hafa samráð við hann á sínum fundum, þegar hún ræddi um þetta frv. Það kom fram í n. um þetta mál í mörgum greinum, að sumir vildu fara í vestur, þegar aðrir vildu fara í austur. Þó var samkomulag að miklu leyti með meiri hl. n. um ýmis atriði og brtt. við frv. Þetta var þó þannig, að réttast þótti, að hver nefndarmaður kæmi fram með sínar brtt., sem hann kynni að flytja. En þar með er ekki sagt, þó að einn nm. flytji brtt., þá fylgi hann ekki öðrum brtt., og ég vil strax taka það fram um sjálfan mig, að þó að ég flytji brtt. nokkrar, þá býst ég við, að ég fylgi ýmsum brtt. öðrum, sem hér hafa fram komið í málinu. — Ég skal fara frekar fljótt yfir sögu um þessi atriði. Brtt., sem fyrst kom fram, er frá hv. þm. Vestm. Ég geri ráð fyrir, að menn muni þar ekki snúast gegn því, sem n. telur, að muni vera ósk þeirra, sem í prestakallinu búa, sem þar er um að ræða. Og að þeir kjósa sérstaklega að bindast Kjalarnessprófastsdæmi, sem þeir óska, hygg ég, að sé af þeim sökum, að þeir hafi greiðari samgöngur við Kjalarnesið frá Vestmannaeyjum heldur en við Rangárþing, þó að styttra sé frá Vestmannaeyjum til síðar talda staðarins beina leið. En það eru daglegar ferðir, svo að segja, með flugvélum milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, og skip ganga þar mjög ört á milli.

Ég mun þá gera grein fyrir þeim brtt., sem ég hef flutt hér á þskj. 309. Fyrstu tvær brtt. eru fólgnar í því — eða eiginlega þrjár þær fyrstu —, að þar er aðeins um sóknaskipti að ræða. Í frv. var lagt til, að Kálfatjarnarsókn væri lögð undir Stað í Grindavík. Eftir því sem fram hefur komið, má vist heita, að hver einasti maður í þeirri sókn hafi risið upp gegn þeirri skikkun og óskað eftir því, að þeir þyrftu ekki að sækja suður fyrir Vogastapa og fjöll til Grindavíkur, heldur hefðu þeir Hafnarfjarðarprestinn, þar sem samgöngur eru kannske að jafnaði með klukkutíma fresti yfir daginn milli Vatnsleysustrandar og Hafnarfjarðar. Þá kemur Kirkjuvogssókn, sem er þjónað af sama presti og Grindavík. Hún hefur einnig risið upp með ósk um það, að hún fái að vera áfram í fylgd með Grindavík eins og verið hefur. Ég held satt að segja, að það þurfi ekki að ræða mjög mikið um þessi atriði, mér virðist vera svo sjálfsagt, að þetta ætti að samþ., þar sem líka Útskálasókn og Hvalsnesssókn virðast vera allfjölmennar, þar sem Sandgerði er að risa upp hvað fólksfjölda snertir.

Þá skal ég geta þess, að ég hef eftir tilmælum ýmissa úr prestastétt lofað að taka aftur till. mína um fækkun presta í Reykjavíkurprófastsdæmi til 3. umr. Ég tel rétt, að það mál verði athugað betur og séð, hver andi er í þinginu um málið yfirleitt, og mun ég því taka hana aftur til 3. umr. Ég get tekið það fram strax, að í sambandi við það mun ég sömuleiðis taka aftur til 3. umr. 2. brtt., við 3. gr., um hækkun íbúatölu í kaupstöðum utan Reykjavíkur. Ég tel, að þetta sé bundið hvað við annað og því rétt, að þær till. fylgist að.

Þá kem ég að brtt. mínum undir stafliðunum e, f, g, h, i, og get ég tekið þær allar saman, því að það hangir að nokkru leyti hvað á öðru. Ég hef álitið, að það væri réttast með prestaköllin, að þau héldu sér, eftir því sem hægt væri, innan sýslutakmarka og lögsagnarumdæma. Það er að mörgu leyti þægilegt, að héraðsfundaumdæmi séu í samræmi við sýslufundaumdæmi, og annað það, að prestur, sem stundum er að athuga veraldleg efni, getur gengið eins og nokkurs konar sendimaður eða erindreki milli kirkjusókna, jafnvel í veraldlegum málum, á sama hátt og hinum andlegu. Það hefur verið gert viða áður, ekki sízt af höfuðklerkum okkar. Þess vegna tel ég réttast, að innan takmarka Snæfellsnessýslu að norðanverðu, þar sem mér virðist hægt að koma því við, þar verði ekki klippt sundur Breiðabólstaðarprestakall, heldur verði nú, þegar vegur er að verða ágætur á þann stað úr Stykkishólmi, það prestakall látið fylgja Stykkishólmsprestakalli. En aftur á móti tel ég einnig rétt, að ein sóknarkirkja þar verði flutt til, eins og samþ. var í fyrra, og lögð undir Selbergsprestakall. Þar er ekki nema ein kirkja, sem sá prestur hefur gegnt, en nú er ekki mjög langt á milli þessara kirkjustaða og vegargerð er þar mjög líklegt að verði fljótlega hafin, svo að það verður mjög sæmileg annexíuleið frá Setbergi til Bjarnarhafnar. Annars yrði það eðlilegt, að Setbergsprestur, ef hann hefði ekki nema eina kirkju, kæmi þá í þann flokk, sem heitir kennsluklerkar, en ég álit enn heppilegra, að hann tæki að sér þessa einu sókn. Ég vil taka það fram, að þá verða það, ef þessi annexia er tekin frá Stykkishólmi og Breiðabólstaðarprestakall lagt við Stykkishólm, 4 kirkjur, sem sá prestur á að þjóna, en það er náttúrlega miklu lengra inn á Skógarströnd, þar sem hann mundi þjóna, heldur en til Bjarnarhafnar. Það er rannverulega eðlilegt og ætti að vera þannig, að söfnuðurinn hefði tækifæri til þess að segja sitt álit um það, hvernig skiptingin ætti að vera, en það hefur verið af mjög skornum skammti, að við höfum fengið það frá söfnuðunum. En því miður er það dálítið sitt á hvað, sem prestarnir segja og hvað söfnuðirnir segja. Ég skal taka það fram, að presturinn í Stykkishólmi leggur til, að Bjarnarhafnarsókn komi undir Setbergsprestakall En þegar þannig er komið, að Breiðabólstaðarsókn lendir ekki undir Suðurdalaþingum, — en ég kann betur við gömlu þinganöfnin, — þá virðist mér rétt og sjálfsagt að halda þeirri skipun, sem hefur verið um þrjú tugi ára, að þessar 4 kirkjur, Snóksdalur, Kvennabrekka, Stóra-Vatnshorn og Hjarðarholt, fylgist að eins og áður sem eitt prestakall. Það er ákaflega vel sett þannig, og að sumu leyti eiga þessir hreppar líka sín áhugamál á ýmsan hátt sameiginlega. Þegar þar er komið, þá eru í Hvammsprestakalli eftir frv. ekki nema tvær kirkjusóknir, en það hefur verið þannig, að í því prestakalli hafa verið 3 kirkjur, sem eru í Hvamms-, Staðarfells- og Dagverðarnesssóknum. Ég sé í skjölum n., að presturinn í Hvammi telur erfiðleika á því að þjóna Saurbæjarprestssetri vegna þess, að ef farið er út fyrir Klofning, ef ófært er á Svínadal, þá sé yfir svo margar ár að fara, — hann segir að þær séu 17, — en hann segir ekki, að þetta séu allt stórár. En hitt er satt, að flestar stærri árnar eru á milli Saurbæjar og Dagverðarness, svo að á leiðinni þangað úr Saurbæ, ef Dagverðarnes verður lagt undir það prestakall, er yfir meiri torfærur að fara en ef það er undir Hvammi, eins og verið hefur, því að þá er ekki yfir nema smáár að fara, sem sennilega verða brúaðar á næsta ári, og hverfur þá það torleiði, sem þar er. En aftur á móti hef ég í till. mínum lagt til, að sýsluskipting ætti sér þarna stað og Saurbæjarprestakall (Staðarhólsþing) verði þá Saurbær (Kirkjuhvolssókn) og Skarðssókn.

Annars hefur það verið svo, að núna um meira en þrjá áratugi hefur enginn prestur þjónað því prestakalli sérstaklega, nema einn klerkur um þriggja ára bil. Þess vegna má búast við því, að fyrst um sinn verði presturinn í Hvammi að þjóna því prestakalli, og þess vegna er enn síður ástæða til þess að bæta við nýrri kirkjusókn. Það eru þá 5 kirkjur, sem hann mundi þjóna, þrjár undir Hvammsprestakalli og tvær undir Saurbæjarprestakalli.

Þetta eru þau mál, sem ég vil sérstaklega leggja til núna um breytingar á prestaköllum og sóknarskipun. Ég skal taka það fram, að þar sem ég í fyrra fylgdi fækkun á ýmsum prestaköllum og hv. 1. þm. N-M. hefur borið fram till. um flest af því og margar fleiri, þá geri ég ráð fyrir því, að ég sjái mér ekki annað fært en að fylgja hans till. að ýmsu leyti. Ég get lýst því yfir, að ég treysti mér ekki annað en að fylgja honum í brtt., sem hann gerir á Barðaströnd og Flatey á Breiðafirði, af því að ég tel, að einn prestur geti ákaflega vel, með þeirri vegargerð, sem nú er að komast í framkvæmd, þjónað þeim þremur sóknum, Haga-, Brjánslækjar- og Múlasóknum, og þá hægðist um leið fyrir prestinn í Flatey; hann verður nú að sæta vindi og sjávarföllum, en yrði þá laus við það. En það er mjög upplagt fyrir hann að hafa hærri laun og sitja sem kennari líka úti í Flatey. Svo ætla ég að geta þess, áður en ég lýk máli mínu, að 3. brtt. minni tel ég eiginlega sjálfsagt að fylgja. Ég hef alltaf talið þá grein lítt nauðsynlega, að fara að taka upp tvo nokkurs konar farandpresta, sem eiga að sitja hér í Reykjavík, og verður ekki til annars en að einhverjir prestar flýta sér úr strjálbyggðum sóknum til þess að sækja um þá stöðu og segja lausu sínu prestakalli og fara hingað til Reykjavíkur. Ég hef ekki orðið var við annað en að prestar gætu fengið sér leyfi, ef þeir hafa þurft að leita sér lækninga, og nágrannaprestar hafa venjulega hlaupið undir bagga, meira að segja hefur það verið svo í nágrenni mínu, þar sem prestur þurfti að hverfa frá vegna veikinda, að nágrannaprestur hans tók að sér að þjóna því prestakalli, jafnvel þótt hann hefði tvö prestaköll fyrir. Þetta sýnir þann félagsanda, sem ríkir milli prestanna, að þeir eru reiðubúnir til að hjálpa hver öðrum, hvort sem það er vegna sjúkleika eða ef þeir þurfa að hverfa frá embætti sínu af öðrum ástæðum. Annað er, að hér í Reykjavík er nokkuð af uppgjafaprestum, sem jafnvel bíða eftir og vilja gjarnan komast um tíma út á land og þjóna. Ég veit, að það er ekki hægt, t.d. í Vestmannaeyjum og Grímsey, að segja, að nágrannaprestar þar geti þjónað þeim prestaköllum, en ég held, að það mundi leggjast eitthvað til í því efni. Ég sé ekki að svo komnu, að það sé neitt til að hjálpa við að halda uppi prestunum í strjálbýlinu að slá upp þessum tveimur embættum hér, því að ég tel vist, að það verði heldur til þess að gera meiri hreyfingu á hjörðina þar en áður hefur verið, frekar en hitt. Ég held það megi bíða og sjá, hvernig horfir um það, og einmitt er það þannig, að þessir prestar eru reiðubúnir, bæði utan Reykjavíkur og í Reykjavík, að hjálpa til og hlaupa undir bagga með prestunum, einkum hér í Reykjavík, að vinna ýmis prestsverk, messa fyrir þá o.s.frv., þannig að það er fjarri því, að öll prestsstörf hér í Reykjavík séu unnin af hinum skipuðu prestum.

Ég læt þetta nægja í bráð. Ég vildi fara frekar meðalveginn í þessu máli og ekki hleypa neinum æsingi eða gusti inn í það. En þó er sumt í þessu frv., sem vafalaust er að mörgu leyti gott og vel athugandi, en þó eru þarna agnúar, sem ekki er hægt annað en fara fram á að lagfæra eða sverfa af.