23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjhn. eða meiri hlutans gat um og kemur fram í nefndarálitinu á þskj. 99, þá hef ég skrifað undir það með fyrirvara, og hv. frsm. gat í raun og veru um, vegna hvers sá fyrirvari væri gerður, en mér þykir rétt með fáum orðum að skýra nánar afstöðu mína.

Það er, eins og hv. frsm. tók fram, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að ég álit, að það hafi verið rangt að hækka útláns- og innlánsvextina eins og gert var nú í aprílmánuði s.l. Það voru höfð sem rök af hálfu Landsbankans, sem í raun og veru ákvarðaði þessa vaxtahækkun, að það væri til þess að auka innlánsfé í lánsstofnunum. En það var í raun og veru einsýnt, að það mundi ekki til þess duga. Og ég held einnig, að bak við hafi legið önnur rök — eða rökvillu mætti kannske kalla það, — að með vaxtahækkuninni, útlánsvaxtahækkuninni ætti enn þá meira, en áður, var að torvelda útlán til manna yfirleitt. Ég held nú, að högum sé svo háttað í íslenzku þjóðfélagi, að jafnvel hversu geysiháir sem útlánsvextirnir eru, þá sé fjöldi manna og fyrirtækja neyddur til þess að taka lán, ef þess er nokkur kostur. Og það munu mörg dæmi um það, því miður, vegna þess, hvað lítið er um útlán lánsstofnana, að menn flýja á náðir svartamarkaðs hvað útlán snertir og taka þar fé að láni með okurvöxtum.

Ég held þess vegna, að það hafi engin þörf verið, ekki rétt og ekki heldur náð tilgangi sínum að hækka vextina til þess að reyna að draga meir úr útlánunum. En hvað hinu atriðinu viðkemur, að örva innlánastarfsemina til lánsstofnananna, þá held ég, að það hafi líka komið á daginn, að það hafi ekki til þess orðið. Þess vegna tel ég, að þessi vaxtahækkun hafi verið frá upphafi röng og rökin fyrir henni hæpin eða engin, ef rétt var greint.

Nú er það hins vegar svo, að þjóðbankinn eða Landsbankinn hefur rétt til slíkra hluta. Án tillits til l. frá 1933, sem ákvarða bönn eða viður- lög við svo kölluðu „okri“, þá hefur Landsbankinn rétt til þess að ákvarða útlánsvexti sína nokkuð án hliðsjónar af ákvæðum l. frá 1933. Þegar Landsbankinn hafði ákvarðað þessa breyt. á vöxtunum, varð ekki komizt hjá því af hinum bönkunum og sparisjóðunum að sigla í sama kjölfarið, en ég hygg, að þessar stofnanir hafi í raun og veru dansað nauðugar. En þegar að því kom, t.d. varðandi hina mörgu sparisjóði úti um allt landið, að þeir þyrftu vegna innlánsfjárins að hækka innlánsvextina og þá einnig til þess að geta haldið rekstrinum áfram útlánsvextina, þá var það óheimilt hvað snerti lán, sem voru tryggð með veði í fasteignum, öðruvísi en að breytt væri okurlögunum frá 1933. Þess vegna gaf ríkisstj. út þessi brbl., sem hér liggja nú fyrir til staðfestingar.

Ég vildi skýra þennan fyrirvara minn við undirskrift undir nefndarálitið, en ég sé mér ekki fært að ganga á móti frv. sjálfu, og er það fyrir þá sök, að mig uggir, að Landsbankinn mundi eftir sem áður taka sínar eigin ákvarðanir varðandi útláns- og innlánsvexti. En ef svo væri og ekki væru til í l. þau ákvæði, sem eru í þessu frv., sem hér liggur fyrir, mundi það þýða það, að t.d. sparisjóðirnir úti um landið mundu verða, ja, kannske allt að því gjaldþrota. Ég vil ekki eiga það undir ákvörðunum Landsbankans að koma því til leiðar, að starfsemi sparisjóðanna úti um landið hálfstöðvaðist eða lamaðist. Og þess vegna sé ég mér ekki fært að greiða atkvæði á móti frv. sjálfu, þótt ég telji mjög óheppilegt, að til þess þyrfti að koma að setja slík lög eins og hér liggja fyrir af þessari ástæðu, að vaxtahækkunin var framkvæmd af hálfu Landsbankans. Ég vil ekkert eiga á hættu með það. Mér er kunnugt um það nú þegar, að þeir sparisjóðir sums staðar úti um landið, sem hafa haft sæmilega afkomu, verða nú vegna vaxtabreytingarinnar jafnvel að halda áfram rekstri sínum með allt að því tapi, vegna þess að þó nokkuð af varasjóðum þeirra og sjóðum var bundið í ódýrari eða vaxtalægri útlánum og í verðbréfum, sem voru með miklu lægri vöxtum, heldur en nú tíðkast, verðbréfum, sem gefin voru út á tímabili með tiltölulega lágum vöxtum, eins og við þekkjum sumar deildir af veðdeildinni, þar sem vextir voru 4%. Ég held, að þessi ákvörðun um vaxtahækkunina hafi ekki orðið til þess að greiða fyrir auknum innlánum til peningastofnananna, en hafi orðið til þess að torvelda margan atvinnurekstur, sem er fyrir í landinu, en sannarlega mátti þó ekki leggja frekari stein í götu hans nú, heldur en áður var gert, og einnig að torvelda það, að menn með lánum gætu byggt yfir sig húskofa og annað slíkt, nema þá með svo örðugum kjörum, að örðugt væri undir að rísa. Ég tel, að vaxtahækkunin hafi verið mislukkuð í sjálfu sér, en úr því að hún var framkvæmd, þá þori ég ekki að eiga það á hættu, að horfið verði frá því ráði að framkvæma þessa vaxtahækkun, og tel því illa nauðsyn að samþykkja frv.