19.01.1953
Neðri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

164. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég er fyrir mitt leyti mjög andvígur þeirri till., sem hv. 3. landsk. hefur borið hér fram í sambandi við hin erlendu ættarnöfn.

Íslenzk borgararéttindi eru mikils virði hverjum manni, sem þau fær. En þeir, sem óska eftir íslenzkum borgararéttindum, óska jafnframt eftir því að verða Íslendingar. Það virðist þess vegna ekki til of mikils mælzt, að þeir, sem fá þessi miklu réttindi, verði þá Íslendingar líka að nafninu til. Og ef menn ekki vilja fórna slíku fyrir þessi réttindi, sem tiltölulega fáum eru gefin, þá tel ég, að þeim liggi í léttu rúmi, hvort þeir fá réttindin eða ekki. Ef menn eiga að halda sínu erlenda nafni, meðan þeir lifa, þá hygg ég, að reyndin verði sú, að þeirra börn og þeirra barnabörn taki nafnið upp og haldi því áfram, svo að það verður niðurstaðan, að nafnið feilur ekki burt, heldur helzt við, alveg eins og engin skilyrði hafi verið sett fyrir því. Það verður reynslan, þótt þetta verði gert. Við sjáum, hvernig framkvæmdin hefur verið á lögum um mannanöfn, sem við höfum. Mun reynslan verða sú sama, ef mönnum verður heimilað að halda sínum nöfnum, jafnvel þótt um takmarkaðan tíma væri.