30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

151. mál, málflytjendur

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Út af ræðu hæstv. dómsmrh. nú síðast langar mig til að benda á atriði, sem mér virðist að ekki hafi komið nógu skýrt fram í þessum umr., en það er ákvæði einkamálalaganna um það, hverjir skuli hafa réttindi sem héraðsdómslögmenn. Það er gengið út frá því samkv. málflutningsmannalögunum, að menn öðlist réttindi sem héraðsdómslögmenn eftir að hafa flutt vissa tölu prófmála, en svo samkv. einkamálalögunum er fjöldi annarra manna, sem einnig öðlast slík réttindi, og er það samkv. 7. tölul. 32. gr. laga nr. 85 frá 1936, og hefur nú einmitt á síðari árum mjög mikið verið bætt við þá flokka manna, sem þessi réttindi geta öðlazt. En þó að þetta sé nú hér að finna á þingskjali 598, þá ætla ég að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það upp: Þessi réttindi öðlast alþingismaður, skrifstofustjóri Alþ., fulltrúi í skrifstofu Alþ., skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, fulltrúi í stjórnarráðinu, fulltrúi héraðsdómara, fulltrúi lögreglustjóra í Reykjavík, lögreglustjóri, bæjarstjóri, ritari forseta Íslands, bankastjóri, sendiherra, fulltrúi sendiherra, lagakennari í Háskóla Íslands, málflutningsmaður að staðaldri, settur héraðsdómari og opinber starfsmaður, sem lagaprófs eða hagfræðiprófs er krafizt af.

Samkvæmt lögunum um málflytjendur er Lögmannafélag Íslands aðili, þegar kemur til um réttindi eða þegar menn hafa fyrirgert rétti sínum sem málflytjendur, en samkv. víssum reglum eru allir þeir, sem hafa öðlazt réttindi með þessum hætti, jafnframt félagsmenn í Lögmannafélagi Íslands og hljóta þess vegna að hafa áhrif á gerðir þess, og þeir aðilar, sem hér eru nefndir, hafa töluvert annarra hagsmuna að gæta heldur en þeir, sem hafa lögfræðistörf að aðalatvinnu. Það er greinilegt, ef það er gert ljóst, að t.d. þeir menn, sem hafa sína aðalatvinnu af öðru en lögfræðistörfum, stunda lögfræðistörfin í hjáverkum og rýra þar með atvinnumöguleika þeirra, sem hafa þetta að aðalstarfi. Þess vegna vil ég taka undir það, sem hv. 6. landsk. þm. sagði, að ég vil vara við því, eins og Lögmannafélagið hlýtur að vera byggt upp samkv. einkamálalögunum, að það sé lögð of mikil ábyrgð á herðar þess eða meiri ábyrgð en lögin um málflytjendur raunverulega gera í þessu efni, vegna þess að eins og það er upp byggt og nú er, þá getur það raunverulega engin áhrif haft í þessa átt, sökum þess að mikill meiri hluti félagsmanna eru menn, sem ekki hafa málflutning að aðalatvinnu. Það eru menn, sem hafa öðlazt þau réttindi með öðrum hætti, hafa leyst út sitt bréf eftir bara ákveðinn starfstíma, og þess vegna hljóta afskipti Lögmannafélagsins að stefna að öðru, en að tryggja það, að menn hafi opna skrifstofu á venjulegum skrifstofutíma o.s.frv.

Ég vil svo segja það, að ég er á öðru máli en hæstv. dómsmrh. um það, að ákvæði um, að skrifstofa skuli vera opin, sé sett lögmönnum til fjárhagslegs framdráttar. Ég álit, að það ákvæði hljóti líka að horfa til almennra nota þeirra, sem ætla að hafa not af störfum lögmanna og þeirra skrifstofu, því að það er náttúrlega óeðlilegur hlutur, að menn, sem samkv. lögum er ætlað að hafa svo mikil áhrif á gang mála eins og lögmenn hafa, hafi ekki opna skrifstofu. Það veldur óþægindum fyrir þá, sem þurfa á þeirra hjálp að halda. Þess vegna vil ég halda því fram, að þetta ákvæði sé jafnvel fremur sett til þess að tryggja góða þjónustu í þessum efnum og að það, sem framvegis yrði gert í þessum málum, þyrfti að stefna að því að tryggja góða þjónustu, þ.e., að það yrði ekki haldið áfram á þeirri braut, sem nú virðist vera svo opin, að það sé fjöldi manna, sem hefur lögmannsstarfið að aukaatvinnu, þannig að það er nú svo komið, að það eru ekki nema örfáir menn, sem treysta sér til þess að hafa það að aðalatvinnu og neyðast þess vegna til þess, þótt þeir hefðu vilja til annars, að taka önnur störf með og munu því aldrei sjá fram á það að ná þeim þroska í starfi sínu, sem nauðsynlegur er til þess að geta uppfyllt sínar skyldur.