04.02.1953
Neðri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (3515)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Frsm. 2. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef í nál. á þskj. 708 mælt með þessu frv. eins og það liggur hér fyrir hv. d. Nú hafa að vísu komið fram ýmsar brtt., eftir að ég skilaði nál., og mun ég eftir athugun á þeim brtt. og eftir að ég hef heyrt, hvernig flm. þeirra flytja rök fyrir máli sínu, taka afstöðu til þess, hvort ég greiði atkvæði með eða móti brtt., allt saman fyrst og fremst miðað við það, að höfuðatriði frv. eins og það liggur nú fyrir deildinni geti náð samþykki Alþ.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé sjálfsagt og eðlilegt að veita þeim tveim kaupstöðum á Norðurlandi, sem hafa óskað eftir heimild um ríkisábyrgð vegna togarakaupa, þessa heimild, og er það aðalatriðið. Ég veit að vísu, að það geta verið sterk rök fyrir því að bæta þar við ýmsu, sem komið hefur fram frá einstökum þm., en mín afstaða til þeirra brtt. miðast við það, hvað ég tel að mundi verða líklegast til þess, að málið gengi í gegnum þessa hv. d.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar að sinni, umfram það, sem í nál. segir, en legg höfuðáherzlu á, að það verði nú á Alþ. orðið við tilmælum þeim, sem fyrir liggja frá Húsavíkurkaupstað og Ólafsfjarðarkaupstað um ábyrgðarheimild vegna kaupa á togurum til útgerðar frá þessum tveimur norðlenzku bæjum.

Eins og ég sagði áðan, má vafalaust segja, að það sé þörf víðar til fyrirgreiðslu almannavaldsins til stuðnings því, að hægt sé að fá togara eða önnur fiskiskip gerð út frá öðrum stöðum á landinu, en ég tel þó fyrir mitt leyti, að höfuðatriðið sé, úr því að nú er þingi brátt að ljúka, að miða við það, og það mun ég gera með minu atkvæði, þar sem ég teldi þá líklegast, að höfuðkjarni málsins næði fram að ganga, áður en þingi lýkur.