04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

17. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Mér ber nú sjálfsagt að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hrósið um störf n., en ég held, að n. hafi verið það alveg eins ljóst og honum, að hún var ekki að vinna hér nein stórvirki. Það var nánast það að fá lagfæringar á hlutum, sem verða fyrir okkur daglega og eru til tafa og óþæginda í störfum Alþ. Ég hygg, að hann viti það, hæstv. dómsmrh., eins og við hér aðrir þdm., að hér liggja aldrei frv., nál. eða önnur skjöl í 2 nætur, áður en þau séu afgreidd, ef nokkur leið er að finna tíma til þess að afgreiða þau, og þá eru þau afgreidd með afbrigðum, og það er eingöngu til þess að fækka þeim afbrigðum, sem lagt er til, að þessir frestir séu styttir. Nefndinni er þetta ekkert kappsmál, síður en svo. Hún taldi þetta dálítið viðvik til bóta og ekkert umfram það og ætlast ekki til neinna hrósyrða fyrir það umfram það, sem hún hefur fengið.

En að það hefði verið hugsanlegt, að þingnefnd hefði hér, með þeim störfum og með þeim tíma, sem þingnefndum er ætlað, getað gert þær breyt. á þingsköpunum, að það yrði alveg gerbylting í þinghaldi okkar og skipulagi á því, það held ég að sé til allt of mikils ætlazt. Hversu ágætir menn sem í þeirri n. sætu, þá held ég, að það sé ekki hugsanlegt að gera slíka breyt. í þingnefnd á svo stuttum tíma sem hér var um að ræða.

Ég segi það fyrir hönd n., að hún ætlaði sér aldrei þá dul að fara að breyta hér öllu þinghaldinu. Hún vildi aðeins gera smávægilegar lagfæringar, sem eiginlega liggur í augum uppi að var eðlilegt að væru gerðar, og fór í því efni eftir bendingum hæstv. forseta, sem n. taldi að mundi vera manna kunnugastur því og þekkja það gerst af eigin reynd, hvernig vinnubrögðum er bezt fyrir komið í Alþ. Einnig, eins og ég tók fram áður, hafði n. um þetta samráð við skrifstofustjóra Alþingis.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta. Á sama hátt og hæstv. dómsmrh. telur sig ekki vilja gera mikið úr því, hvort þetta verður samþ. eða ekki samþ., þá get ég svarað því líka til fyrir hönd n., að henni er þetta ekkert sérstakt kappsmál, og mætumst við þar náttúrlega á miðri leið með það, en n. taldi þetta þó til nokkurra bóta.

Varðandi það að draga til baka brtt. við 30. gr., þá tel ég sjálfsagt, að n. verði við því að taka þá brtt. aftur til 3. umr. og gera á henni þá eðlilegu breyt., sem svarar til þess, sem hér hefur verið um talað.