13.11.1952
Efri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

42. mál, verðlag

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Allshn. deildarinnar hefur milli umræðna haft til athugunar brtt. þær, sem fram höfðu komið í málinu, en það voru brtt. á þskj. 154, sem var nokkuð rædd hér við 2. umr., en var tekin aftur til 3., og svo brtt. á þskj. 165 frá hv. þm. Barð., sem kom fram eftir að 2. umr. hafði farið fram hér í d. og hefur því ekki verið rædd hér í hv. d. Hins vegar ræddi n. þessar till. báðar á fundum sínum. Það gat ekki orðið samkomulag um þessar till., hvoruga þeirra, þannig að það fengist meiri hluti í nefndinni fyrir þeim.

Ef ég tek fyrst till. hv. 6. landsk., sem kom fyrr fram, þá var það sjónarmið meiri hl. n., að hættulegt væri að ákveða álagningarprósentuna svo sem þar er ætlazt til, vegna þess að þá mundu allir þeir, sem þar eiga hlut að máli, líta svo á, að þeim væri heimilt að hafa álagningu sína allt að því marki, sem þarna er sett, en það var álit allra nm., að það mark væri allt of hátt til þess að gera það að almennu marki, enda áreiðanlega alls ekki hugsað svo af tillögumanni. Af þessum sökum gat meiri hl. n. ekki fallizt á brtt. á þskj. 354.

Þá var einnig rædd till. á þskj. 165, og ég vil geta þess, að þessar till. báðar voru jafnframt ræddar við hæstv. viðskmrh., sem kom á fund nefndarinnar. Og þar sem þessi till. hafði ekki verið til umr. í deildinni, þá var þar um nýtt atriði að ræða, en við umr. í n. komu fram þau sjónarmið, að bæði yrði það mjög viðurhlutamikið og allt of erfitt í framkvæmd til þess, að hægt mundi að koma því fyrir, þannig að framkvæmanlegt væri, að ætla að birta nöfn þeirra, sem vitað sé að hafi lægsta álagningu, eins og segir í till. hv. þm. Barð. á þskj. 165. Enn fremur fannst mönnum ekki útilokað, að ef þessi till. yrði samþ. eins og hún kemur fyrir, þá gæti hugsazt, að jafnvel þeir, sem að öðru leyti mættu kallast verstu okrararnir, gætu fengið sér ódýra auglýsingu með því að lækka álagningu sína kannske á einni vörutegund niður í svo til ekki neitt, og þá taldi meiri hl. n., að hreint ekki mundi verða náð þeim tilgangi, sem ætlað er að stefna að með þessari till. Hún fékk því ekki nægilegan hljómgrunn í n., auk þess sem — ég bæti því við — ráðh. taldi hana algerlega óframkvæmanlega. Ég vil geta þess, að í staðinn fyrir, eins og ætlazt er til í þessari till., að tala um lægstu álagningu í einhverju einstöku tilfelli, þá kom fram hugmynd um það að breyta þessu í það form, að það yrði miðað við þá, sem vitað væri að yfirleitt hefðu lægsta álagningu, hefðu mjög lága álagningu, nefnilega að menn gætu ekki fengið sér auglýsingu bara á einni vörutegund. En það þótti nú líka erfitt í framkvæmd og fékk ekki hljómgrunn, þannig að sú till var ekki borin fram.

Við umr. í nefndinni kom það fram, — það sýnir sig líka, ef maður ber saman þessar till., sem voru til umr., — að það eru í þeim báðum tvö atriði: Annars vegar er talað um skyldu til þess að birta nöfn þeirra, sem uppvísir verði að óhóflegri álagningu, og hins vegar svo þau atriði, sem ég hef minnzt á, þ.e.a.s. í till. hv. 6. landsk. talað um, að ekki megi fara yfir 50% hámark, og í till. hv. þm. Barð. talað um þá, sem lægsta hafa álagningu. Við hv. 1. þm. N-M. leyfðum okkur þá, vegna þess að við litum svo á, að þetta væri eiginlega alveg rétt hugmynd, það sem það náði, einmitt að hér skyldi vera um skyldu að ræða, að bera fram brtt., sem fylgir hér á þskj. 216, og ég vildi mega skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki líta á sem leiðréttingu litla orðalagsbreyt., sem mig langar til að gera, að það stæði „skylt er verðgæzlustjóra“. Það er heldur stirt mál að segja „skylt skal“. Höfum við lagt til, að 2. gr. orðist þannig, eins og segir á þskj. 216, að í staðinn fyrir heimild komi skylda. Teljum við okkur með þessu hafa að hluta gengið til móts við þær till., sem hér eru, og teljum þetta auk þess til bóta og hefðum gjarnan strax viljað hafa þetta svona, en þetta var nú þannig, að það varð samkomulag um það á sínum tíma að mæla með frv. óbreyttu, og fórum við þá ekki að gera ágreining. En þar sem hafa komið fram brtt., þá töldum við rétt að láta okkar brtt. koma fram. Hv. þm. Seyðf., sem er rítari allshn., taldi þó rétt að halda sig að frv. eins og það er og eins og n. hafði á sínum tíma samþ. það, þ.e.a.s., að það er hans afstaða til málsins. Að öðru leyti mun þetta koma fram í umr., en eins og sýnir sig, þá hefur ekki orðið greinileg samstaða um neina till. í þessu sambandi.