18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3418)

220. mál, vinnudeilur

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Það munu öllum vera það kunnar og í fersku minni hinar miklu deilur, sem háðar voru hér í Rvík í desember, og líka mun það flestum kunnugt, að þá var farið inn á sérstakar leiðir til þess að leysa þá deilu.

Ég verð að segja það, að mér varð það ánægjuefni, að þetta mál skyldi koma hér á dagskrá í sambandi við þá fsp., sem hér liggur fyrir. Ég tel mig knúðan til þess að segja frá því, ætlaði reyndar að gera það síðar á þinginu, að það samkomulag, sem gert var og ríkisstj. átti hlut að, hefur ekki verið haldið nema að litlu leyti. Ég miða hér við þann stað, sem ég er frá og er vitanlega kunnugastur. Það skal þó tekið fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að eitt af því, sem samið var um í nefndu samkomulagi, sem sé mjólkurverðið, hefur verið haldið, að ég held, eftir því sem ég hef kynnt mér, á öllum stöðum á landinu nema í Vestmannaeyjum, og eiga samtök bændanna og þeir, sem að þeim málum standa, heiður skilið fyrir það að hafa staðið við það, sem þar var samið um. En allt annað er hægt að segja um aðra liði þessa samkomulags. Ég vil t d. benda á það um þær vörutegundir, sem samið var um fast verð á, sem var kartöflur, sykur, kaffi, að það hefur gilt allt annað verð á þeim vörutegundum norður á Siglufirði heldur en t. d. hér í Rvík. Ég minnist þess ekki heldur, að það væri neitt um það í nefndu samkomulagi, að það ætti að gilda sérstakt verð á kartöflum yfir sumarmánuðina. En ég býst við því, að bæði Reykvíkingar og aðrir hafi orðið varir við það, að verð á þeirri vörutegund í sumar og fram á haust var ekki í samræmi við það samkomulag, sem gert var.

Ég vil alveg sérstaklega undirstrika það, að það er mjög óheppilegt, ef gerðir eru samningar, hvort sem það er á milli atvinnurekendanna beint og verkalýðsfélaganna eða hvort það eru samningar, sem ríkisstj. stendur að að meira eða minna leyti, eins og var um þessa samninga, ef samningsaðilar gera sig brotlega eða seka um það að brjóta gegn samkomulaginu. Og ég fullyrði það hér, að það verður ekki til þess að létta undir í framtíðinni, ef um deilur er að ræða, það sem hér hefur skeð, að eftir að ríkisstj. er búin að stuðla að því, að gerðir séu samningar, þá skuli þeir samningar hafa verið brotnir eins mikið og raun ber vitni.

Hv. 9. landsk. þm. (KGuðj) benti á mjólkurverðið í Vestmannaeyjum, sem er orðið hneyksli. Það er beinlínis landfrægt, að það skuli geta átt sér stað, að þegar búið er að semja um fast verð, þá skuli vera hægt að selja vöruna, í þessu tilfelli mjólkina í Vestmannaeyjum fyrir miklu hærra verð en nokkurs staðar annars á landinu.

Ég vil alveg sérstaklega undirstrika það, að hæstv. viðskmrh., sem þessi mál falla undir, rannsaki þessi mál nánar. Hann sagði hér í sinni svarræðu til fyrirspyrjanda, að verðlagseftirlitið eigi að tryggja þetta. Ja, við höfum svei mér á Siglufirði snúið okkur til verðlagseftirlitsins og fengið ákaflega loðin svör.